Húnavaka - 01.05.1971, Side 122
120
HÚNAVAKA
sinni. Sú kona var líka frelsuð, en ekki virtist dóttir hennar vera
það. Hún fluttist burt um veturinn, sagðist fá betri vinnu í höfuð-
staðnum.
Þá brá móðir hennar háttum sínum, eins og síðar verður frá sagt.
A loftinu bjó sjötug kona, hressileg og fjörug. Hún virtist elska lífið
og una sér vel. Hún var broshýr eins og ung stúlka. Hún var Ijós
í andliti og augun geislandi. Hlátur hennar var glaður og smitandi.
María, svo hét hún, bauð mér oft inn og sýndi mér eigur sínar. Það
var megn ullarþefur í herberginu og af henni sjálfri.
Mér féll ekki sem bezt að dvelja þarna lengi. Rúmið hennar stóð
við vegginn nálægt glugganum. Það var stórkostlegt rúm, með svo
stórri sæng, að hún náði langt upp á vegg eins og útblásin blaðra.
Fyrir ofan rúmið hékk fagurlega máluð mynd. Drottinn blessi heim-
ilið. Ég hafði orð á því, að þetta væri falleg mynd. María lét vel yfir
aðdáun minni.
Ég hafði mig svo niður í herbergið mitt og beið róleg eftir dög-
unum, sem ókomnir voru. Ég hugsaði oft um hvað biði mín á þess-
um ókunna stað. Það var nokkru síðar, að ég varð vör við ókyrrð í
húsinu. Hvíslingar og pukur. Húsmóðir mín kom með írafári og
sagði hálfkæfðri röddu: Hann er kominn. Hún benti upp í loftið,
í átt að herbergi Maríu gömlu, sem var upp yfir mínu herbergi.
Hver, spurði ég. Uss, hann. .. hennar Maríu. Nei, nú er ég bit, þessi
strákur, sem fór upp stigann áðan. Já, þetta er hann. Mig langar svo
að vita, hvort þetta er satt.
Ég skal sjá um þetta, sagði ég og brosti til húsmóður minnar, sem
hélt varla hlátrinum í skefjum.
Það var ekki nema sjálfsagt, að ég gerði smásnúning fyrir þessa
elskulegu konu. Það sæi trúlega ekki á sálinni minni, þó að ég bætti
smáhrekk við allt annað, sem á samvizkunni hvíldi.
Ég hafði aldrei frelsazt, en það næst hafði ég komizt, að syngja á
kvöldin með Maríu og húsmóðurinni sálma, sem ég kunni þó lítið í.
Lögin voru fjörleg og veraldleg og þau kunni ég vel að meta. En
sálminn um blóðið trallaði ég. Mér hafði aldrei fallið að sjá blóð.
Mér fannst það ekki viðeigandi í sálmi.
Ég tiplaði upp stigann og drap á dyr. Lágt pískur heyrðist og hlát-
urinn hennar Maríu var auðþekktur.
Svo varð allt hljótt. Ég barði fast á hurðina. María, opnaðu kona,
ég veit að þú ert inni. Ég er komin í heimsókn til þín.