Húnavaka - 01.05.1971, Qupperneq 123
HÚNAVAKA
121
Ekkert hljóð heyrðist. Þetta endurtók ég nokkrum sinnum, án
allrar háttprýði. Svo fór ég niður og hélt áfram að lesa.
Löngu síðar heyrði ég sálmasöng Maríu hljóma hátt og snjallt.
Þá var kominn tími til að fara aftur upp. Þá var opnað fyrir mér og
María stóð þarna brosandi, með sunnudagssjalið á herðunum. Ég
lézt vera móðguð. Þú opnaðir ekki áðan, María mín, þó átti ég heim-
boð hjá þér. Hafðir þú gest eða hvað? Nei, nei, sagði María. Þú
gabbar mig nú ekki. Það er eitthvað skrítið við breytni þína, mín
ágæta María. Nei, nei. Ég heyrði ekki til þín. Ég kallaði oft, sagði
ég, og þóttist vera stórmóðguð. Hvert fór strákurinn úr sveitinni,
sem fór hér upp áðan, spurði ég alvarleg. Nú var María alveg í sjálf-
heldu. Ég renndi augunum um herbergið, eins og ég leitaði manns-
ins. Allt var á sínum stað, olíuvélin, matarskápurinn, rúmið . . . .
Augu mín námu staðar við rúmið. Það var vandlega uppbúið að
venju og yfir því hékk myndin fræga, aðeins öðruvísi en venjulega.
Drottinn hafði hallazt ískyggilega niður á við.
María, sagði ég og horfði dálítið hvasst á hana. Augu hennar
leituðu niður á gólfið, eins og hún hefði misst eitthvað og heitur
roði hljóp í kinnar hennar.
Þetta var nóg, ég hafði lokið erindinu fyrir húsmóðurina.
Allt í einu leit María upp og brosti. Áður en varði vorum við
farnar að ræða um það, sem Maríu lét bezt, um heimsins lystisemdir.
En þegar ég bauð góða nótt, féll hún fram og bað guð sinn heitt að
fyrirgefa sér ógætilegu orðin, sem tunga hennar hafði talað við mig.
Heldur þú, María mín, að það taki þessu, þú talar nú svona aftur
og aftur. Þá signdi hún sig, en ég sá bregða fyrir syndsamlegu bliki
í augum þessarar lífsglöðu konu. í einlægni sagt, þá gladdist ég í
hvert sinn, með sjálfri mér, er ég sá þetta. Það var svo einmanalegt
að vera eini syndarinn í þessu húsi.
Það var komið fram í svartasta skammdegið. Næturnar koldimm-
ar, myrkrið vafðist um gráa húsið. Gatan var auð og hljóð.
Svo var það eina nótt, að ég vaknaði við, að drepið var fingri á
glugga. Ég varð hrædd, mér heyrðist bankað á gluggann minn. Ég
reif tjöldin frá og leit út svefndrukknum augum. Á tröppunum
stóð svolalegur maður og teygði sig í glugga hjá Helgu, sem bjó á
móti mér. Hann hélt á stórum sjópoka. Ég kúrði mig niður og skalf
af hræðslu. Hvaða heimsóknir voru þetta um hánótt og aðeins kon-
ur í húsinu? Eftir smástund voru útidyrnar opnaðar hljóðlega og