Húnavaka - 01.05.1971, Blaðsíða 162
HAFSTEINN JÓNASSON frá Njálsstöðum:
Fyrsta kaupstaðarferðin
Það var óvenjulegt tilstand í litla Hamrakotsbænum einn góð-
viðris morgun um miðjan desember 1908. Kvöldið áður hafði
mér verið sagt frá því að fóstra mín ætlaði ofan á Blönduós, eins
og það var kallað, þennan morgun, ef veður yrði gott og ætlaði að
lofa mér með sér. Tilhlökkunin var mikil, því að aldrei hafði ég
fengið að fara í kaupstað. Síðari hluta næturinnar gat ég lítið
sofið, en var alltaf að hugsa um ferðalagið. Hvernig veðrið mundi
verða og ég fann það einhvern veginn á mér, að það mundi verða
vont. Loks rann þessi þráði morgunn upp og veðrið var gott. Nokk-
ur snjór var á jörðu og frost töluvert. Fóstra mín mjólkaði kýrnar í
flýti og gerði það allra nauðsynlegasta. Svo bjó hún sig til ferðar
og eftir góða stund vorum við bæði ferðbúin. Ekki beið okkar fínn
bíll á hlaðinu eins og nú tíðkast, þegar fólk ætlar í kaupstað. Nei,
við ætluðum að ganga. Það var enginn vegur til neins staðar ná-
lægt Hamrakoti, svo að við gengum beinustu leið, fyrst út með
bergjum, en síðan út allt Laxárvatn, því að það var ísi lagt. Svo
héldum við út Sauðanesflóa og Hnjúkaflóa. Þessi leið var líklega
10—13 kílómetrar, og gekk slysalaust út að kaupstað.
Ég var á áttunda ári, eldfrískur og vanur göngulagi. Þegar við
komum á Blönduós fór fóstra mín fyrst í hús til bróður síns og
mágkonu. Þessi bróðir fóstru minnar hét Jóhann Jósefsson, en
fóstra mín Jósefína Jósefsdóttir. Hann var mjög fátækur maður,
átti mörg börn og fékk aldrei góða jörð til að búa á, aðeins örgustu
kot. Jóhann var stór maður og höfðinglegur í framgöngu og prýði-
lega greindur. Kona hans var Oddfríður Gísladóttir, mikil mynd-
arkona, sem var að mig minnir, alsystir Hjartar Gíslasonar. Hjört-
ur kom unglingur að Stóru-Giljá og var þar um tíma, en fluttist
síðar til Akureyrar og varð þjóðkunnur fyrir létta hagmælsku, hesta-
mennsku og fleira. Hálfbróðir þeirra er Ágúst G. Jónsson, bif-
reiðarstjóri á Blönduósi. Oddfríður var stórmyndarleg kona bæði í