Húnavaka - 01.05.1971, Síða 163
HÚNAVAKA
161
sjón og reynd. Mig minnir, að þessi systkin væru vestfirzk og ættuð
frá Bolungavík.
Mér verður það alltaf minnisstætt, hvað Oddfríður tók með
miklum myndarbrag á móti okkur, þrátt fyrir fátækt þeirra hjóna.
Þau höfðu ætlað sér að búa í sveit, en farið fyrir þeim eins og svo
mörgum öðrum í þá daga, að þau fengu ekki jarðnæði. Hófu
þó búskap í Þingeyraseli, sem var langt frá allri mannabyggð. Það
var gamalt sel frá Þrngeyrum, sem er langt inni í Víðidalsfjalli. Þar
voru slæm og með afbrigðum lítil húsakynni, tún svo að segja
ekki neitt og engar engjar nema forarflár. Þarna bjuggu þau í
nokkur ár, en gáfust svo upp á búskapnum og fluttu til Blönduóss.
Ekki man ég glöggt hvað húsið hét, sem þau voru í, en það var
skammt frá Einarsnesi. Þá var, að mig minnir, fremur lítil byggð
á Blönduósi. Ég held, að ekkert hús hafi verið komið uppi á brekk-
unni og ekkert framar en bærinn hans Guðmundar Hjálmarssonar,
sem kallaður var Efstibær og stóð við Blöndu, nokkru neðar en
brúin. Fyrir utan ána voru fá hús, Kvennaskólinn, Kaupfélags-
húsið og sárafá önnur.
Þegar við fóstra mín höfðum hvílt okkur þarna stundarkorn,
fórum við í búðir. Hún þurfti að kaupa smávegis fyrir jólin. Ekki
mátti þessi úttekt vera mikil, því að bæði var það, að við gátum
ekki borið mikið, og svo engu að síður hitt, að reikningurinn þoldi
ekki mikla úttekt. Þau hjónin voru fátæk og vildu ekki skulda um
áramót. Kotið var lítið og þau höfðu mjög lítið bú. Venjulega
voru ekki nema 30—50 kindur settar á vetur og þá átti bæði bráða-
pestin og höfuðsóttin eftir að höggva skörð í þetta. Þá þurfti ávallt
að láta 5 framgengna gemlinga í landsskuldina, sem átti að inna af
hendi í fardögum hvert ár. Tólf kúgildisær fylgdu jörðinni og varð
að greiða eftir þær tvo fjórðunga af smjöri á ári. Auk þess þurftu
hjónin að greiða sjálf allt viðhald mannvirkja á jörðinni, því að þá
vorn ábúðarlögin þannig. Auk kindanna áttu hjónin venjulega
aðeins 2 kýr og stundum einn kálf og 2—3 hross.
Við fórum í tvær búðir. Til Magnúsar Stefánssonar á Flögu í
Vatnsdal, sem um árabil var bæði bóndi á Flögu og kaupmaður á
Blönduósi. Og í búð Péturs Péturssonar frá Gunnsteinsstöðum, sem
hafði það líkt og Magnús, að hann bæði bjó og verzlaði. Það sem
fóstra mín keypti, var fyrst og fremst svolítið af kaffi og „export",
kandíssykur og toppasykur, sem kallað var. Þetta voru hvítir, keilu-
11