Húnavaka - 01.05.1981, Page 68
66
HÚNAVAKA
II.
Eg er fæddur að Víkum á Skaga og foreldrar mínir voru Árni
Guðmundsson bóndi Víkum og Anna Tómasdóttir sem ólst upp að
mestu leyti í Ásbúðum og giftist þaðan að Víkum. Hún mun vera ein
af þeim sem sat kvíaær og var smali um mörg ár. Snemma komst ég í
það að eignast sauð. Mér var gefinn sauður í tannfé. Aldrei varð ég
neinn sauðabóndi sjálfur, en ég kynntist samt vel sauðum og man þá
marga. Þegar ég var strákur þá voru þeir 80—90, flestir munu þeir
hafa orðið um 120. Þeim var oft sýnt harðara en ánum, og 1918, þá
kom fyrir atvik sem ég man sérstaklega eftir. Þá var hörkugaddur og
sauðunum var beitt og fylgdu þeim Vilhjálmur bróðir minn annan
daginn og Jónatan frændi minn hinn daginn. Áður en þeir fóru út í
gaddinn og hörkuna þá báru þeir sellýsi í andlitið á sér til að verja sig
kali. Það mundi ekki þykja þrifalegt andlitskrem nú til dags, en hvað
um það, liklega hefur það verið hollara en annað sem nú er til staðar.
Nú svo að ég haldi áfram með frásögnina af þessu atviki þá var það
þannig i þessum langa frostakafla að einn sauður gafst upp á leiðinni
heim af beitinni þegar hann átti skammt eftir að húsi og var hann
tekinn og borinn inn. Hann hefur ekki lengi verið inni, svona kortér til
hálftíma þá er hann orðinn heill og sprækur. Daginn eftir er farið með
sauðina eins og áður, nema þessum er haldið eftir, en þá endurtekur
þetta sig. Ég held að þeir hafi verir þrír eða fjórir sem gefast þá upp
þegar þeir eru reknir að húsi, og það fer á sömu leið að þeim er komið
inn í ylinn og þeir gerast strax hressir sem hinn fyrsti. Þá er brugðið á
það ráð að taka frá sauðina á annan vetur og þeim er haldið eftir inni,
en eldri sauðum er beitt eins og áður hafði verið og bar ekkert á því að
kuldinn tæki þá. Þetta hefur bara verið út af þvi að limirnir hafa
kólnað og þeir orðið ógöngufærir þess vegna.
Eftir 1920 gerast vetur góðir og ég man að það mun hafa verið
veturinn 1922 eða 1923, sem lömb máttu teljast ganga af í fyrsta skipti.
Mér er þetta minnisstætt vegna þess að Vilhjálmur bróðir minn vekur
athygli á því þegar nýbúið er að taka lömbin á hús að það væri bara
smástabbi af töðu til handa þeim með útheyinu og fjósið ekki aflögu-
fært með töðu. Kúnum var meira að segja alltaf gefið úthey með
töðunni að minnsta kosti í geldstöðunni. Þá var talið gott að hafa eitt
hneppi af töðu með útheyinu á 40-50 kinda garða.
Þegar lömbin hafa staðið inni í viku og það hlánar og verður hlýlegt