Húnavaka - 01.05.1981, Blaðsíða 149
HÚNAVAKA
147
setinni í samræmi við það. Bróðir hans hafði aðeins búið þar á hálf-
lendunni i eitt ár. Sólheimar höfðu ætíð verið mikil jörð, en er þau
Þorleifur og Sigurlaug létu af búskap, höfðu þau bætt jörðina svo að
byggingum og ræktun að hún var orðin glæsilegt höfuðból. Eftir
fjörutíu og þriggja ára búsetu þar, flytja þau til Reykjavíkur, en
Ingvar sonur þeirra og kona hans taka að fullu við jörðinni.
Ekki festi Sigurlaug yndi í Reykjavík, þótt hún byggi í sama húsi og
sonur hennar og tengdadóttir og hefði að öllu góða aðbúð. Að fáum
árum liðnum fluttu þau hjónin aftur norður, og nú til Blönduóss á
heimili Svanhildar dóttur þeirra og manns hennar. Þorleifur reisti
þeim dálítinn snotran sumarbústað, rétt fyrir ofan túnið í Sólheimum.
Nú undi Sigurlaug hag sínum vel og Þorleifur lét ekki „deigan síga“
við að snyrta til, grafa skurði, gróðursetja tré og blóm og veiða silung í
Svínavatninu, með sinni óþreytandi elju.
Dætur þeirra réttu móður sinni hjálparhönd og niðjahópurinn átti
oft leið þarna um. — Hamingjudagarnir eiga sitt kvöld, eins og aðrir
dagar. Mikið var búið að starfa og árin orðin mörg, nú tók Sigurlaugu
að þrjóta að heilsu og kröftum. Síðustu árin var hún á Héraðshælinu á
Blönduósi og þótti „hver stundin leið og löng“, þó aðbúðin væri í besta
lagi. Trúlega er það lífslögmál, að þeim háöldruðu verði þung síðustu
sporin, eða oft fer það svo.
Mér finnst líf Sigurlaugar vera gott dæmi um það, hvernig mann-
kostafólk hefst gjarna til virðingar, þótt það sé ekki á undirhleðslum
fætt.
Ef líf er að loknu þessu, og hún yrði spurð: „Hvað vannstu drottins
veröld til þarfa?“ Þá gæti hún, held ég, svarað: Hvert mitt handtak
var til þarfa, meðan orka leyfði.
Svo hvíli í friði góða víf í guði,
sem gaf og tók, hans náðin veiti þér
að endurvakna í sælum samfögnuði
til samfunda með því, sem kærast er.
St. Th.
Hulda Pálsdóttir, Höllustöðum.