Morgunblaðið - 08.05.2015, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 08.05.2015, Blaðsíða 6
6 FRÉTTIRInnlent MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. MAÍ 2015 Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sunnlenskir kornbændur eru að sá í akra sína þessa dagana. Sumir hafa lokið sáningu. Aftur á móti eru norð- lenskir bændur ekkert að flýta sér að sá vegna þess hversu seint vorar og áframhaldandi kuldaspá í veð- urkortunum. Búist er við að heldur dragi úr kornrækt í landinu í ár. „Það hefur verið nokkuð hagstæð tíð. Við byrjuðum að sá 27. apríl og lukum sáningu í gær. Undirbúning- urinn tekur lengri tíma, við byrj- uðum jarðvinnslu um miðjan apríl,“ segir Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum. „Vorið er að verða seint. Það ligg- ur við frost á nóttunni og um fimm stig á daginn. Það er því engin fram- vinda í gróðri. En hann kemur fljótt til þegar jarðvegurinn fær vætu og það hlýnar. Þá getur þetta orðið al- veg ágætt kornræktarsumar,“ segir Ólafur. Hann segir að alltaf komi þurr og kaldur kafli í maí, spurn- ingin sé aðeins um það hvenær hann komi. Í ár sé hann tiltölulega snemma. „Það getur verið að hann ljúki sér af fyrir miðjan mánuð og þá snýst þetta við. Það hefur alltaf komið vor og sumar,“ segir Ólafur. Þeir fyrstu að byrja „Margir eru í biðstöðu en það er þó aðeins misjafnt. Einn og einn að fara af stað með sáningu, þar sem jörð er auð. Fræin eru þá komin í jörðu þegar hlýnar,“ segir Sigurgeir B. Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Hann segir að jörð sé auð víða inni í Eyjafirði og á láglendi í Hörg- árdal og víðar en æði flekkótt aust- an megin í Eyjafirði, eins og til dæmis í Kaupangssveit. Kalt hefur verið á Norðurlandi. Þessa dagana er hitinn við frostmark á daginn og frost á nóttunni. Engin hlýindi er að sjá í veðurspám. Sigurgeir segir að menn séu eitthvað byrjaðir í jarð- vinnslu og einstaka maður að sá en menn séu ekkert að flýta sér á með- an spáin er svona köld. Svipaða sögu er að segja af Skag- firðingum. Þar hefur verið klakaskel í jörðu en síðustu dagana hefur jörð verið að þorna, að sögn Eiríks Loftssonar, jarðræktarráðunautar hjá Ráðgjafarþjónustu landbún- aðarins. Jörð er auð í Skagafirði og því eru menn víða byrjaðir á jarð- vinnslu og einstaka maður er að byrja að sá. Útlit er fyrir að kornræktin verði heldur seinna á ferðinni á Norður- landi í ár, miðað við meðalár. Ef sáning frestast lengi er við því að búast, í ljósi reynslunnar, að heldur dragi úr hug manna til korn- ræktar. Eiríkur telur að það gæti orðið raunin í ár, ef ekki rætist fljótt úr. Sigurgeir segir að bændur þar um slóðir séu oft að sá í fyrstu viku maímánaðar en það hafi þó oft dreg- ist fram undir miðjan mánuð og í einstaka árum til 20. maí. Það sé því of snemmt að örvænta. Á Suðurlandi urðu kornbændur fyrir áföllum þegar ekki viðraði til þreskingar í september en fæstir eru tilbúnir með fullþroskað korn fyrr. Það gæti dregið úr mönnum í ár. Svo hafa gæsir og álftir herjað mjög á kornakra síðustu ár og sumir bændur eru að gefast upp fyrir þeim og minnka við sig í kornrækt. „Kornrækt er áhættusöm og gengur upp og niður. Mér sýnist að það sé einnig svo í sjávarútvegi. Þótt loðna veiðist ekki eitt árið þá halda menn áfram og fara með bátana á sjó árið eftir. Þetta er einn- ig þannig með landið okkar,“ segir Ólafur.  Kuldi á Norðurlandi dregur úr kornbændum  Jörð þó sums staðar orðin þurr  Bændur á Suð- urlandi á fullu við vorstörfin  „Það hefur alltaf komið vor og sumar,“ segir Ólafur á Þorvaldseyri Flýta sér ekki við sáningu í kuldatíðinni Morgunblaðið/Helgi Bjarnason Kornrækt Bunan úr þreskivélinni er afraksturinn af vinnu bóndans. Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Feneyjatvíæringurinn, hin viðamikla myndlistarhátíð í Feneyjum, verður opnaður í dag í 56. skipti. Í gær var þó enn óvíst hvort tilskilin leyfi fengj- ust fyrir opnun íslenska skálans þar sem Cristoph Büchel, svissneski myndlistarmaðurinn sem er fulltrúi Íslands að þessu sinni, hefur sett upp verkið Moskan - Fyrsta moskan í sögulega hluta Feneyja, í fornri, af- helgaðri kirkju. Verk Büchels hefur þegar vakið athygli víða um lönd og hafa fjöl- miðlar meðal annars sett það efst á lista yfir áhugaverðustu sýningar tvíæringsins. Büchel er kunnur fyrir viðamiklar innsetningar, þar sem umfjöllunarefnið er iðulega af póli- tískum og samfélagslegum toga. Að þessu sinni hefur hann sett upp raun- verulega mosku í íslenska skálanum, í samvinnu við samfélög múslima í Feneyjum og á Íslandi, með upplýs- ingamiðstöð þar sem fyrirhugað er að vera með allrahanda fræðslu og kennslu, meðal annars um íslam, tungumál og ólíka siði, þá sjö mánuði sem tvíæringurinn stendur. Í ítarlegri umfjöllun The New York Times um verkið í gær var greint frá því að Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar og listamað- urinn hefðu í liðnum mánuði fengið bréf frá borgaryfirvöldum í Fen- eyjum þar sem fram kemur að lög- reglan teldi ógn stafa af moskunni. Í bréfinu er haft eftir fulltrúum lög- reglunnar að erfitt sé að fylgjast með staðnum, þar sem moskan er í af- lagðri kirkju við eitt af síkjum borg- arinnar og við göngubrú. Sagt er að slíkt eftirlit sé nauðsynlegt „í ljósi al- þjóðlegra hræringa í dag og hættu á mögulegri árás einhverra trúaröfga- manna“. Fram kemur í fréttinni að Büchel og sýningarstjórinn Nína Magnús- dóttir hafi ráðfært sig við lögmenn og í kjölfarið haldið áfram undirbúningi við íslenska skálann, moskuna sem á að opna fyrir hádegið í dag með til- heyrandi ræðuhöldum, þá hefð- bundum föstudagsbænum múslima og loks sameiginlegri máltíð gesta eftir bænir. Með plan B, C og D Björg Stefánsdóttir, fram- kvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, sem fer með málefni íslenska skálans, sagði seinnipartinn í gær að þá væri enn óljóst með opnun sýningarinnar. „Í gær funduðum við aftur með borginni og erum í stöðugu sambandi við fólk þar, til að finna lausn á þessu, en við höfum enn ekki fengið svar,“ sagði Björg. Þegar spurt var hvort vandamálið væri að lögreglan treysti sér ekki til að gæta sýningarinnar, þá sagði hún að það væri ekki fyllilega ljóst, svör væru óskýr og lagatæknilegar flækj- ur virtust vera allnokkrar. „Það er ómögulegt að segja hvernig þetta fer,“ sagði hún. „En við erum á fullu að undirbúa opnun, að prenta kynn- ingarefni, kaupa slæður og annað slíkt.“ Björg segir að varðandi löggæslu verði sjálfboðaliðar við öryggisgæslu, eins og þekkist við moskur í mörgum borgum í dag, en í fyrrnefndu bréfi komi fram að lögreglan telji sig einn- ig þurfa að sinna löggæslu á staðn- um. Sumir telja að yfirvöld vilji ekki banna sýninguna, enda væri það óheppilegt afspurnar, heldur kysu að aðstandendur myndu hætta við hana. En er leyfið frá yfirvöldum nauðsyn- legt? „Já, við þurfum að hafa það,“ sagði Björg. „Lögmenn okkar segja þá hins vegar ekki hafa neitt í höndun- um sem gæti stoppað okkur og því höldum við áfram. Við förum eftir þeim ráðleggingum.“ En ef leyfin hafa ekki borist á föstudagsmorgni, munu listamað- urinn og starfsfólkið þá bara taka því? „Við erum með plan B, plan C og plan D!“ svaraði hún þá. „Við leggj- um ekki árar í bát, það er ekki í boði, við stöndum með okkar listamanni alla leið.“ Büchel var í allan gærdag upptek- inn við að setja verkið upp ásamt að- stoðarfólki sínu en hann tjáir sig aldrei í fjölmiðlum um verk sín. En mátti ekki búast við því þegar ráðist var í þetta verkefni að slíkur núningur kynni að eiga sér stað? „Að sjálfsögðu lá fyrir í upphafi að þetta myndi vekja umræðu,“ sagði Björg. „Verk Büchels vekja fólk og hreyfa við samfélaginu öllu. Hann hefur ráðist í viðamikil verkefni á undanförnum árum og fær heilu samfélögin með sér inn í þau. Fáir í dag þora að eiga við myndlist af þess- ari stærðargráðu.“ Beðið eftir leyfi fyrir Moskunni  Yfirvöld í Feneyjum höfðu í gær ekki veitt nauðsynlegt leyfi fyrir opnun íslenska skálans  „Við leggjum ekki árar í bát, það er ekki í boði, við stöndum með okkar listamanni alla leið“ Ljósmynd/Bjarni Grímsson Moskan Í kirkjunni afhelguðu hefur listamaðurinn komið fyrir bænateppum, bænaskoti sem vísar veginn til Mekka og hefðbundnum ljósum eins og í moskum. Þarna munu múslimar biðja og eru gestir velkomnir. Ljósmynd/Didier Descouens Kirkjan Moska Christophs Büchels er sett upp í þessari afhelguðu kirkju í Feneyjum. Lögregla telur þurfa löggæslu við bygginguna og brúna. Ljósmynd/Bjarni Grímsson Upplýsingamiðstöð Hluti af verki Büchels er þessi upplýsingamiðstöð þar sem samfélög múslima í Feneyjum fræða gesti um trú, menningu og siði.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.