Morgunblaðið - 08.05.2015, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 08.05.2015, Blaðsíða 26
26 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. MAÍ 2015 ✝ Bergur Helga-son fæddist á Kálfafelli í Fljóts- hverfi 20. október 1928. Hann and- aðist á Hjúkr- unarheimilinu Klausturhólum 29. apríl 2015. Foreldrar hans voru Helgi Bergs- son, f. 9. mars 1894, d. 30. apríl 1953, og Magnea Jónsdóttir, f. 19. mars 1902, d. 19. maí 1974. Systkini hans eru Helga, f. 27. júlí 1926, og Lár- us, f. 2. ágúst 1942. Bergur ólst upp á Kálfafelli og tók við búi að föður sínum látnum 1953. Hann stund- aði búskap þar ásamt bróður sín- um til hinsta dags. Bergur var ógiftur og barnlaus. Útför hans fer fram frá Prestbakkakirkju á Síðu í dag, 8. maí 2015, kl. 14. Horfinn er úr heimi frændi minn Bergur Helgason á Kálfa- felli. Endalokin bar brátt að, inn- an við mánuður leið frá því að mein hans var staðfest og þar til hann kvaddi jarðvistina. Þrátt fyr- ir að árin væru orðin mörg og frændi orðinn vinnulúinn mjög, var fráfall hans sviplegt. Að eigin sögn hafði honum vart orðið mis- dægurt um dagana og hann gekk til bústarfa nánast til loka, líkt og hann hafði gert lungann af lýðveldistímanum. Það segir sitt um úthaldið við búskapinn, að á ævikvöldinu var hann næstelsti félagsmaðurinn í aðildarfélögum Landssambands kúabænda. Hann fylgdist með á þeim vett- vangi allt til loka og var einn af fundarmönnum á haustfundi LK á Hótel Geirlandi í október sl., fimm dögum fyrir 86 ára afmælið. Ég heimsótti hann á spítalann snemma í apríl. Frændi hafði þá rétt fengið að vita að hverju stefndi. Hann virtist taka hinum válegu tíðindum af æðruleysi. Við ræddum um tíðarfar, búskap og þjóðmál. Þrátt fyrir að húmaði að var viljinn til framfara enn til staðar. Sem gömlum sveitar- stjórnarmanni voru Bergi sam- göngumálin hugstæð. Hann var mikill áhugamaður um jarðgöng undir Reynisfjall í Mýrdal, „þetta væri eini staðurinn sem vörubílstjórarnir þurfa að keðja, allt frá Reykjavík austur á Djúpavog, það gengur nú eigin- lega ekki“. Í æsku dvaldi ég nokkrum sinn- um á Kálfafelli hjá þeim bræðr- um, Bergi og Lárusi og myndaðist við leggja þeim lið í heyskap. Það skilur eftir góðar minningar. Um- hverfið er eitt það fallegasta á landinu og stóísk ró yfir tilver- unni, jafnvel þótt Eyfirðingnum þætti heyskapartíðin einatt frem- ur rysjótt. Eftir því sem árin liðu og viðfangsefnum fjölgaði, hafa þær heimsóknir orðið strjálli og líklega eru ein sjö ár liðin síðan ég varð síðast að einhverju gagni við bústörf þar á bæ. Engu að síður er það svo, að þegar knúið er dyra, er líðanin þannig að manni finnst maður hafa kvatt daginn áður. Það verður öðru vísi að heim- sækja Kálfafell næst þegar annar bústólpinn er fallinn, en það fær víst ekkert stöðvað tímans þunga nið. Þeir bræður hafa gengið sam- an til verka í áratugi. Ýmsir hafa orðið til að leggja þeim lið á síðari árum. Þar hafa Magnús Ingólfs- son, Anna Björk og Snorri lagt drjúga hönd á plóg. Við Elin og börnin sendum þeim sem Bergi frænda stóðu næst okkar innileg- ustu samúðarkveðjur og biðjum guð að blessa minningu hans. Baldur Helgi Benjamínsson. Falinn er frá ömmubróðir minn og öðlingur mikill, Bergur Helga- son á Kálfafelli í Fljótshverfi. Ég fékk tækifæri til að dvelja hjá þeim Kálfafellsbræðrum í fjögur sumur og hafði ég gott af. Í sam- tölum okkar í milli gekk ég ávallt undir heitinu „nafni“, enda liggur það beint við. Þó Bergur hafi verið fremur alvarlegur að upplagi var stutt í húmorinn og gaman þótti honum að fara með sögur, sér- staklega af sveitungum sínum. Oftar en ekki komu þeir sem um var rætt fram ljóslifandi þegar Bergur brá sér í eftirhermulíki þess sem var í hlutverki söguhetj- unnar. Bergur var nægjusamur með eindæmum og veit ég varla til þess að hann hafi keypt sér nýjan bíl um ævina, ef frá er talin síðasta bifreiðin sem hann fékk sér fyrir fáum árum. „Hvernig ertu að hugsa um að borga hann?“ spurði sölumaðurinn í bílaumboðinu. „Tja, ætli ég staðgreiði hann ekki!“ Bergur var mikill hófsmað- ur og hafði hann á orði að hann myndi varla hvort hann hefði fundið á sér. Neftóbak var hans eina nautn og á sjúkrabeði hans kom ég með eina tóbaksdós, af sterkari gerðinni. Nafni sagði hins vegar í síðustu heimsókn sem við Helga mín fórum til hans að hann „treysti sér ekki í þetta“ þó hann glotti við. Það er eftirsjá að öðlingi eins og nafna, hann kenndi manni hátt- semi sem öllum er gott að hafa sem veganesti út í lífið. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum) Guð blessi minningu Bergs Helgasonar. Bergur Þorri Benjamínsson. Bergur Helgason bóndi á Kálfafelli í Fljótshverfi er fallinn frá. Bergur var móðurbróðir minn. Í mínum uppvexti dvaldi ég flest sumur í sveitinni hjá honum, ömmu Magneu og Lárusi. Til- hlökkun fylgdi því alltaf að fara austur, þar var væntumþykja og alltaf gott veður. Amma hafði all- an heimsins tíma fyrir stelpuna af Rauðalæknum og eins var með þá bræður. Bergur kunni mikið af vísum sem hann kenndi mér og æfði mig líka í hugarreikningi sem hann sagði að væri gott til að glöggva sig betur á tölum. Þetta reyndist rétt hjá frænda og hefur nýst mér vel í ævistarfinu. Bergur var góður bókhaldsmaður, var lengi í hreppsnefnd Hörgslands- hrepps, sat í sóknarnefnd og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir sveit sína. Hann var með- hjálpari í Kálfafellskirkju í 53 ár og kom einnig að messuhaldi í bænhúsinu á Núpsstað. Hann hafði fallega söngrödd og söng í kirkjunni sinni. Við eldri systur- dætur hans, Björg og ég, vorum oft saman í sveitinni og gegndum ýmsum störfum. Bergur var mjög starfsamur og féll sjaldan verk úr hendi. Búskapurinn var fjöl- breyttur, búið var með kýr og kindur. Farið var á fjöru og sóttur rekaviður, selveiðar stundaðar, skinnin verkuð og spýtt á fleka. Man ég oft þegar frændi kom ör- þreyttur af fjöru, fleygði hann sér smástund, tók í nefið og síðan var tekið til við næsta verk. Bergur lét okkur hjálpa til við flest störf, mjaltir, skinnaverkun, að svíða svið, smölun, rúning, raka dreifar á túni, tína hagalagða og margt feira sem til féll. Að fá að vera þátttakandi var þroskandi, skemmtilegt og hollt fyrir stelp- urnar úr Reykjavík. En eitt feng- um við samt aldrei að gera og það var að aka dráttarvél, þá áhættu tók frændi ekki að setja stelpurn- ar á vélarnar. Minningarnar um hann frænda eru allar á einn veg, hann var hjartahlýr og drengur góður. Samverustundir í seinni tíð urðu færri en ég hefði óskað sök- um búsetu minnar og starfa norð- ur í Eyjafirði. Systkinum hans og öðrum ástvinum votta ég innilega samúð og þakka af alhug fyrir það góða uppeldi sem ég fékk á Kálfa- felli. Blessuð sé minning Bergs Helgasonar bónda. Hulda Magnea Jónsdóttir. Við fráfall Bergs Helgasonar, bónda á Kálfafelli, vinar og vel- unnara, er margs góðs að minn- ast, litið til baka um langan, farinn veg. Ég sótti fyrst heim efri bæinn á Kálfafelli sumarið 1954, gamalt menningarsetur og kirkjustað. Mér var veittur góður beini af húsfreyju, Magneu Jónsdóttur, og hún og börn hennar, Helga, Berg- ur og Lárus, fögnuðu ferðamanni. Húsbóndinn, Helgi Bergsson, hafði látist ári fyrr. Við áttum saman ættföður, sr. Jón Stein- grímsson. Síðar varð bróðir Magneu, Jón Jónsson jarðfræðingur, heimilis- vinur hjá mér í Skógum. Hann endaði vísindastörf sín í kynningu á jarðfræði Eyjafjalla. Frá fyrsta samfundi á Kálfafelli flutti ég að Skógum mikla hurð- arskrá, smíðaða af Helga Bergs- syni. Ég festi hana á hurð og hún hefur lengi þjónað daglegu safn- starfi í Skógum. Allar götur frá 1954 hef ég haft tengingu vináttu og velvildar við Efra Kálfafell. Helga kynntist þjóðkunnum Eyfellingi, Jóni Sig- urðssyni frá Brúnum, eða Jóni í bankanum eins og margir nefndu hann, Bergur og Lárus héldu bú- skap í góðu horfi, leiddu hann inn til nýrrar aldar í ræktun, vélum, húsakosti og híbýlaprýði. Til þeirra var oft snúið för. Góð- ar móttökur brugðust ekki. Berg- ur var í senn bóndi og félagsmála- maður, sat í sveitarstjórn, var oddviti í Hörgslandshreppi, unni samvinnu og allri framför. Hann lét sér annt um kirkju sína, var meðhjálpari, liðtækur í söng og unni músík. Það var segin saga hin síðari ár er ég kom að Kálfafelli að ég sett- ist við orgelið og gömlu, góðu lög- in í fyrrverandi alþekktu Fjárlög- unum voru vakin til lífs í söng. Bergur sótti Skóga heim á 80 ára afmæli. Við áttum þá notalega samverustund í safninu hér, sem forsjónin hafði falið mér að efna til. Hann var einn þeirra fjölmörgu sem þar höfðu stutt mig í starfi. Ég þakka honum innilega fyrir að hafa auðgað æviferil minn með vinarhug og fyrir skilninginn á nauðsyn þess að vernda menning- ararfinn. Helgu og Lárusi sendi ég samúðarkveðju. Þökk sé öllum Skaftfellingum sem varðað hafa veg minn á langri lífsleið. Þórður Tómasson. Nú þegar ég kveð Berg Helga- son koma kirkjuklukkurnar á Kálfafelli upp í huga mér. Síðast heyrði ég klukknahljóminn á Kálfafelli í messu á degi uppsker- unnar. Að þessu sinni las Bergur ekki upp úr ritningunni heldur kvaddi sér hljóðs við lok messunn- ar með prestinn og kórinn sér við hlið. Þarna var litla kirkjan á Kálfafelli orðin stór og stundin einstaklega hátíðleg í hauststill- unni. Bergur hafði orð á því að klukkurnar hljómuðu ekki eins og þær ættu að gera. Auk þess að út- skýra rót vandans með klukkurn- ar upplýsti hann kirkjugesti um að hann hafði þá verið meðhjálp- ari í kirkjunni í fimmtíu ár. Ekki eru svo mörg ár síðan ég var síðast fenginn í baggaheyskap á Kálfafelli, en það voru í mínum huga mikil forréttindi. Helga syst- ir þeirra bræðra, Bergs og Lár- usar, bar fram bakkelsi og á borð- inu var ísköld kúamjólkin og nóg til af kaffinu. Þá var galsi í vinnu- mönnum eftir erfiðan dag, en hver baggi var handleikinn minnst þrisvar þar til hann náði á áfanga- stað. Bergur sat við borðsendann eins og svo oft og lét galsann í vinnumönnum viðgangast en sjálfur sagði hann sögur á sinn kankvísa hátt og með sínu ekta skaftfellska tungutaki. Mér er efst í huga þakklæti fyr- ir góða viðkynningu, en með Bergi er genginn mætur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem færði búskapar- hætti fyrri tíma til nútímahorfs. Hörður Hauksson. Hvað er nú betra en að búa í sveit, með bústofn og frjósama jörð, og gera að lífsstarfi að rækta sinn reit, þó raunar sé baráttan hörð. Íslenski bóndinn er lífgjafi lands, sem leikur á fjölþættum streng. Hann stuðlar að samvinnu moldar og manns og miðlar oss gjarnan af feng. Að vinna með höndunum heiðarlegt starf og með háttvísi að ganga um land er hugsjón frá Guði sem gengur í arf og gæfunnar tengingarband. Megi hann lifa um ókomin ár og eflast af sérhverri raun. Þar til að endingu konungur klár kemur og reiðir fram laun. (Kristján Runólfsson.) Þetta fallega ljóð um íslenska bóndann kom upp í hugann nú þegar fallinn er frá eftir langa ævi og stutta sjúkdómsgöngu ná- granni okkar, Bergur Helgason á Kálfafelli. Hér bjó hann alla sína ævi við sínar ær og kýr ásamt Lárusi bróður sínum. Hann rækt- aði land sitt og unni umhverfi sínu. Minningarnar margar og ljúfar, margar frá uppvexti Bjössa hér á Kálfafelli og margar frá seinni tíð eftir að við tókum við búi Snorra og Ragnheiðar og gerðumst bændur hér fyrir rúmum átta ár- um. Bergur var vandaður og góður maður og afbragðs nágranni. Óhætt að segja að aldrei hafi borið skugga á samskipti milli okkar og þeirra bræðra, Lárusar og Bergs. Það er ekki sjálfgefið að samskipti í slíkri nálægð geti verið góð, hér eru skrefin ekki mörg á milli bæj- anna, túnin samliggjandi og beit- arlandið sameign. Við erum afar þakklát fyrir hversu vel þeir tóku okkur og börnunum okkar þegar við settumst hér að og gott hefur verið að leita til þeirra í gegnum tíðina. Bergur vann ötullega að fé- lagsmálum á sínum yngri árum, vann sveit sinni vel og starfaði í 60 ár sem meðhjálpari og hringjari í litlu kirkjunni okkar, Kálfafells- kirkju. Það gladdi okkur að vera við- stödd vísitasíu sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar, vígslubiskups í Skálholti, sl. sumar er hann veitti Bergi viðurkenningu og gjöf með þakklæti fyrir 60 ára starf við kirkjuna sína. Við síðustu guðs- þjónustu í Kálfafellskirkju í nóv- ember sl. prikaði Bergur upp í turn og hringdi kirkjuklukkunum eins og vanalega, en leitaði til Heiðu eftir aðstoð við að skrýða prestinn sem auðsótt var. Upp úr því dró hratt úr kröftum og þreki og um páska greindist Bergur með illkynja æxli í höfði. Við minnumst góðs nágranna með virðingu, hlýhug og þökkum fyrir allt og allt. Ég á eina minning, sem mér er kær: Í morgundýrð vafinn okkar bær og á stéttinni stendur hann hljóður, hann horfir til austurs þar ársól rís, nú er mín sveit eins og Paradís. Ó, hvað þú, Guð, ert góður. Ég á þessa minning, hún er mér kær. Og ennþá er vor og þekjan grær og ilmar á leiðinu lága. Ég veit að hjá honum er blítt og bjart og bærinn hans færður í vorsins skart í eilífðar himninum bláa. (Oddný Kristjánsdóttir.) Guð blessi minningu Bergs Helgasonar. Ragnheiður Hlín, Björn Helgi og börn, Kálfafelli. Bergur Helgason ✝ Liselotte ElseHjördís Jak- obsdóttir, ýmist kölluð Lotta eða Hjördís, fæddist í Danmörku 29. mars 1941. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 25. apríl 2015. Hún var dóttir Ástu Jónsdóttur, f. 1.12. 1917, d. 22.1. 1978. Ásta giftist síðar Jakobi Jóhannessyni, f. 30.6. 1921, d. 22.2. 2011, sem gekk Lottu í föðurstað. Systur Lottu eru Jette Svava Jakobsdóttir og Lilja Jakobsdóttir. Dætur Jak- obs af síðara sambandi eru Ingibjörg Jóna Jakobsdóttir og Dagný Kristín Jakobsdóttir. Lotta giftist 9. ágúst 1969 Holgeri Markusi Hansen, f. 16.4. 1944. Þau bjuggu í Hvera- gerði í 32 ár. Frá 2007 hafa þau búið í Norðlingaholti í Reykjavík. Dætur þeirra eru Iris Hansen, f. 29.12. 1970, og Sonja Hansen, f. 1.4. 1973. Dætur Sonju eru Laufey María Hansen Bragadótt- ir og Eyrún Sara Hansen Bragadótt- ir. Lotta ólst upp við Laugaveginn í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Hjúkrunarskóla Íslands árið 1963, lauk framhaldsnámi í heilsugæsluhjúkrun árið 1988 og djáknanámi frá HÍ árið 2002. Hún vann á ýmsum stöð- um sem hjúkrunarfræðingur, en lengst starfaði hún á Heilsu- gæslustöð Hveragerðis og á Sjúkrahúsi Suðurlands á Sel- fossi. Útför hennar fer fram frá Árbæjarkirkju í Reykjavík í dag, 8. maí 2015, kl. 13. Þegar fyrstu fréttir bárust af því að Lotta frænka hefði kvatt þennan heim og haldið á vit nýrra ævintýra á öðrum stað var ekki laust við að okkur væri brugðið. Við vissum kannski ekki alveg hversu alvarleg veik- indi hennar höfðu orðið á núna stuttum tíma en svo er það líka bara þannig að Lotta var al- gjört hörkutól og það var ósköp fátt sem náði að beygja hana eða brjóta. Einhvern veginn reiknaði maður bara með því að hún myndi hrista þetta af sér eins og allt annað og koma sér á fætur aftur. En Lotta var víst bara mannleg eins og aðrir og nú er komið að kveðjustund. Við munum minnast Lottu sem töffara. Hún lét engan segja sér fyrir verkum en fór sínar eigin leiðir. Hún hafði skoðanir á mönnum og málefnum og lét þær óhrædd í ljós. Henni var alveg sama hver var sammála henni og hver ekki, það kom henni ekki við. Hún var hreinskilin þótt málin væru viðkvæm, enda var það þannig að ef Lotta ákvað að útdeila hrósi gat mað- ur verið viss um að það væri ekta og verðskuldað. Lotta var með eindæmum flink handavinnukona og eftir hana liggja margir fallegir og nytsamlegir hlutir sem hafa orðið til í gegnum árin. Öllum er okkur kær skírnarkjóllinn sem Ásta amma keypti fyrir eldri dóttur Lottu fyrir um 45 árum og mamma okkar fékk að eiga með henni. Við systkinin vorum öll skírð í þeim kjól og svo okkar börn. Af mikilli alúð og natni saumaði Lotta nöfn allra þeirra barna sem hafa fengið að nota hann, sem eru nú orðin 18 talsins, í faldinn. Nú þarf einhver að taka við því hlutverki. Lotta átti það til að birtast alveg óvænt með þær falleg- ustu handgerðu gjafir sem um getur – útsaumaða dúkinn sem Sólrún og Trausti fengu í brúð- argjöf, prjónuðu gallana sem börnin okkar fengu við fæð- ingu, þjóðbúningahúfuna sem Sólrún fékk þegar hún tók við þjóðbúningnum sínum, hálf- kláruðu peysuna hennar Tinnu sem hafði setið í poka svo árum skipti og Lotta tók í fóstur nú um síðustu jól og mætti með fullkláraða og fallega daginn eftir, útsaumuðu vettlingana sem leyndust í jóla- eða afmæl- ispökkunum, barnalopapeysuna sem var prjónuð á gamlársdag og gefin í afmælisgjöf á nýárs- dag, af því hún frétti þá að af- mælisbarnið vantaði peysu á litla barnið sitt, og svo má lengi telja. Þegar vantaði ráðleggingar eða aðstoð við hannyrðir kom- um við sjaldan að tómum kof- unum hjá Lottu frænku. Þegar Sólrún t.d. beit það í sig að sauma fermingarkjólinn sinn sjálf var mamma fljót að henda henni upp í rútu og yfir heiðina til Lottu frænku einn fagran laugardagsmorgun. Meðferðis hafði hún efni og snið í poka. Þegar kvöldaði og Sólrún steig upp í rútuna til heimferðar var kominn fallegur fjólublár kjóll í pokann. Það var gaman að fá að þekkja Lottu. Hún gaf lífinu einhvern skemmtilegan lit. Elsku Holger, Iris, Snorri, Sonja, Bragi, Laufey María og Eyrún Sara. Mikið skarð er höggvið í ykkar líf núna og við sendum ykkur okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Jóhanna, Halldóra, Sólrún, Tinna Rós og Óli Karló Steinsbörn. Hún kom í kórinn okkar hóg- vær, brosmild og elskuleg. Fljótlega fannst okkur eins og Lotta hefði alltaf verið félagi okkar. Hún var söngelsk og tónviss og naut kórinn þessara hæfileika hennar. Lotta var mikil hannyrða- kona og hafði einstaklega fín- gert og fallegt handbragð. Öll munum við eftir fallegu hlut- unum sem hún gaf á árlegan jólabasar kórsins og eiga marg- ir fallega heklaða engla og prjónaða bangsa sem börnin kunnu svo sannarlega að meta. Lotta varð að hverfa frá kór- starfi um tíma vegna veikinda en kom aftur um leið og heilsan leyfði. Þá birtist hún jákvæð og hress eins og ekkert hefði ískorist. Ef hún var spurð hvernig heilsan væri var svarið gjarnan: „Það er ekkert að mér.“ Okkur var því mjög brugðið þegar við fréttum af andláti hennar því skömmu áður hafði hún verið að glettast við okkur á kóræf- ingu eins og hún var vön. Við kveðjum kæran félaga með söknuði og sendum eig- inmanni, dætrum og fjölskyld- unni allri innilegar samúðar- kveðjur. Þú hirtir aldrei um hrósið valt og heimsins misjafna dóma, en hjúkraðir öllu, sem hretið kalt og harmar lögðu í dróma; þinn kærleikur náði yfir alt, til allra dýra og blóma. (Ólína Andrésdóttir) Fyrir hönd Árnesingakórsins í Reykjavík, Herdís P. Pálsdóttir, Ingibjörg Valdimarsdóttir, Þorgerður Guðfinnsdóttir. Liselotte Else Hjör- dís Jakobsdóttir

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.