Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.05.2015, Síða 58

Morgunblaðið - Sunnudagur - 24.05.2015, Síða 58
58 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24.5. 2015 Bækur Rétturinn til letinnar, Le droit à la pa-resse, er lítt þekkt verk nú á tímumen var á síðari hluta 19. og fyrri hluta 20. aldar eitt helsta áróðursrit sósíalista, og aðeins Kommúnistaávarpið náði meiri út- breiðslu. Höfundurinn, Paul Lafargue, átti við- burðaríka ævi. Hann fæddist árið 1842 á Kúbu, bjó í New Orleans á uppvaxtarárum sínum en var svo sendur til náms í Frakk- landi þar sem hann drakk í sig hugmynda- strauma líðandi stundar. Leiðin lá þvínæst til Bretlands þar sem Lafargue kynntist Karli Marx og gekk á endanum að eiga dóttur hans Lauru. Þau bjuggu svo bæði í Frakk- landi og Spáni og voru áhrifamiklar persónur í hreyfingum sósíalista í Vestur-Evrópu. Nú er Rétturinn til letinnar kominn út á íslensku, í þýðingu Guðmundar J. Guð- mundssonar sagnfræðings. Hann segir að í bókinni boði Lafargue ekki beinlínis letilíf, eða að fólk eigi að lifa í makindum á annarra kostnað. „Ritinu er fyrst og fremst beint gegn þeirri skefjalausu vinnuhörku sem var fylgifiskur iðnbyltingarinnar á þessum tíma og því má segja að það haldi fullu gildi í þeim löndum Asíu sem nú eru að iðnvæðast og standa frami fyrir vandamálum af svipuðu tagi og Evrópumenn stóðu frammi fyrir á síðari hluta 19. aldar.“ Taumlaus ást á vinnu En Lafargue beinir spjótum sínum einnig að verkafólkinu sjálfu sem hann segir hafa til- einkað sér kolrangt viðhorf til vinnunnar. Gagnrýnin beinist líka að framleiðslukerfinu í heild sinni þar sem, eins og Lafargue lýsir því, skiptast á tímabil offramleiðslu þar sem allir strita myrkranna á milli, og tímabil só- unar, gjaldþrota og atvinnuleysis. „Hálft árið kallar fólkið á æ meiri vinnu, og er í verksmiðjunni nær allar vökustundir. Hinn helming ársins er verksmiðjan lokuð því enginn markaður er fyrir sokkana og baðmullardúkana sem skyndilega er ofgnótt af,“ segir Guðmundur. Lafargue vill ekki aðeins að verkafólkið fái að njóta varningsins sem það framleiðir, heldur reiknar hann út að það væri hægt að halda þáverandi framleiðslugetu þótt allir ynnu aðeins þriggja klukkustunda vinnudag. Ekki ætti að þurfa meira til svo að fólk hefði nóg að bíta og brenna, og gæti þá varið þorra dagsins í meira gefandi iðju en að puða og púla í verksmiðjureyknum. „Um leið leggur hann til að óarðbær störf verði aflögð og tilgreinir þar sérstaklega starfstéttir eins og dómara, skriffinna og melludólga.“ Verkið er uppfullt af húmor sem á köflum er gróteskur, og skilar háðið sér ágætlega til nútímamannsins þrátt fyrir að grínið sé nærri 150 ára gamalt. Boðskapurinn virðist líka eiga fullt erindi við launamenn á okkar tímum, þó vinnudag- urinn sé átta klukkustundir en ekki fimmtán. „Ef Lafargue myndi birtast á Íslandi í dag myndi hann eflaust ráðleggja okkur að reyna að stytta vinnuvikuna enn frekar, og vera hrifinn af að þreifingar í þá átt virðast ein- mitt vera í farvatninu í samningaviðræðum á vinnumarkaði. Hann myndi líka, eins og hann gerir í bókinni, hvetja okkur til að finna betra meðalhóf á milli nægjusemi og þess að eltast við nýjustu græjurnar. Við þurfum ekki að borða soðna ýsu og kartöflur í hvert mál eins og á kreppuárunum, en heldur ekki að bíða í löngum röðum eftir að eignast nýjasta snjallsímann frá Apple.“ Hugarfarsvillan sem Lafarge gagnrýnir svo harkalega virðist enn til staðar, þó vinnuvikan hafi styst til muna og tekjur hækkað. Þessi mikla ást á vinnunni, sem menn á borð við Max Weber hafa rakið til siðferðis mótmælenda, er mjög sterk í Ís- lendingum og ekki bætir það ástandið að landinn er vanastur því að vinna í skorpum. „Sagan segir að þegar breski herinn kom og hægt var að fá vinnu við að smíða bragga og virki þá hafi margir verkamenn hreinlega unnið yfir sig. Þeir unnu og unnu látlaust svo sólarhringum skipti og þurfti hreinlega að reka þá heim ef heilsan gaf sig ekki á undan. Þeir virðast hreinlega ekki hafa trúað því að þetta framboð á vinnu myndi endast og því þyrfti að nýta tækifærið til fullnustu á meðan hægt var.“ Er okkur viðbjargandi? Í dag er ekki laust við að þetta hugarfar hafi tekið á sig aðra og nútímalegri mynd. „Nú vinnur fólk til að bæði spara og borga niður sem mest af skuldum á meðan hægt er, því það reiknar með að á næsta leiti sé önnur kreppa og vissara að hafa þá borð fyrir báru,“ segir Guðmundur. Þýðandinn er ekki frá því að Íslendingar séu á réttri braut, og jafnvel að hrunið margumtalaða hafi hjálpað mörgum að kveikja á perunni og endurskoða hjá sér for- gangsröðunina í lífinu. „Kannski er hug- arfarsbreytingin ekki ósvipuð því og varð á hippatímanum; fólk er í vaxandi mæli að segja skilið við taumlausa neysluhyggju og vinnufíkn. Það hefur áttað sig á að það felst meira í lífinu en að vinna og vinna, og eign- ast dýrari og flottari hluti. Það er vel hægt að njóta tilverunnar án þess að steypa sér í skuldir eða streða út í eitt.“ EITT HELSTA ÁRÓÐURSRIT KOMMÚNISTA Njótum þess að vera löt Guðmundur segir skrif Lafargue einkum beinast að skefjalausri vinnuhörkunni sem einkenndi árdaga iðnbyltingarinnar. Morgunblaðið/Eva Björk TENGDASONUR KARLS MARX GAGNRÝNDI BÆÐI HUGARFAR VERKAFÓLKS OG FRAMLEIÐSLU- KERFIÐ SJÁLFT ÞAR SEM SKIPTUST Á TÍMABIL OFFRAMLEIÐSLU OG AT- VINNULEYSIS. Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is * Ef Lafargue myndibirtast á Íslandi í dagmyndi hann eflaust ráðleggja okkur að reyna að stytta vinnuvikuna enn frekar Bækur voru mínir bestu vinir á löngum köflum í barnæskunni og fram á ung- lingsár. Á fullorðinsárum hef ég verið duglegri að kaupa bækur en að lesa þær og ég á langan lista af skáldsögum sem ég er alltaf á leiðinni að byrja á en hins- vegar eru það viðskiptabækur af ýmsu tagi sem verða oftar fyrir valinu nú- orðið. Þá les ég jafnvel sömu bókina á Kindle-lesbretti, kaupi hana til að eiga í kilju eða harðspjaldaútgáfu og kaupi hana líka sem hljóðbók. Kannski ekki hagstæðasta leiðin en það er bara með þessu móti sem ég næ að klára bækur á þeim litla tíma sem ég finn á milli daglegra anna. Ég fékk mikið út úr bókalestri í uppvextinum. Á Borg- arbókasafninu var 10 bóka hámark í hvert sinn sem maður fékk bækur lánaðar en ég nýtti mér persónutöfrana til að fá stundum að taka 14-15 í einu. Mestmegnis voru þetta ung- lingabækur ýmiss konar, heilu spennubókabálkarnir, Ham- mond Innes, Alistair MacLean, en með slæddust fagurbókmenntir og heims- bókmenntir sem ég komst á bragðið með þegar ég stalst í bókaskáp foreldra minna þegar ég var búinn að lesa allar 15 bækurnar af safninu og vantaði nýtt lesefni. Sumt var reyndar kannski fullþungt eftir á að hyggja fyrir 10-12 ára dreng. Uppáhaldsbókin úr barnæskunni var fyrst lesin fyrir mig þegar ég var 6 ára. Hún er eftir þýska barnabókahöfundinn Michael Ende og mér telst til að ég hafi lesið hana a.m.k. 50 sinnum sjálfur frá því ég lærði að lesa. Af hverju er hún í svona miklu uppáhaldi? Líklega er það þessi boðskapur um hvað það er sem skiptir máli í lífinu og það sem börn geta kennt fullorðnum um hin einu sönnu gildi þegar vinna, sókn eftir gæðum og viðurkenningu hefur kaffært margt af þessu. Mómó er einstaklega falleg og minnisstæð; ævintýrin sem eru eins og sögur inni í sögunni sjálfri. Sögur um vináttu, fyrirgefningu, sorg og boðskapinn um að það er aldrei of seint að hverfa til baka og byrja upp á nýtt með hreint blað. Ég hef mikla trú á sögum sem aðferð til að miðla góðum boðskap, gagnlegum ráðum eins og í viðskiptabókum og ég vel oft slíkar bækur fram yfir bækur með þurrum framsetningum á kenningum og þá allra helst bækur sem byggjast á reynslu höfundanna sjálfra og þar sem þeir sjálfir leggja sig að veði. Í uppáhaldi þessa dagana, af þeim sem uppfylla þessi skilyrði, er James Al- tucher sem miðlar öllum mistökunum sínum á hátt sem veitir milljónum les- enda hans innblástur. Á tímum þar sem miklar breytingar eru að verða á því hvernig við móttökum og meðtökum upplýsingar, þá er það einlægni og heiðarleiki sem virðist ná best að grípa, sama í hvaða formi sú miðlun á sér stað. Bókin upplifir þetta mikla breytingaskeið en er að mínu mati, enn þann dag í dag, það sem veitt getur einna mestu þekkingu og forskot í lífinu. BÆKUR Í UPPÁHALDI NOTAÐI PERSÓNUTÖFRANA Á BÓKASAFNINU Andrés hefur lesið Mómó fimmtíu sinnum hið minnsta.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.