Morgunblaðið - 12.06.2015, Síða 12
12 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. JÚNÍ 2015
liðin 10–15 ár. Á þessu vori og liðnum
vetri hefur hins vegar borið á vís-
bendingum um kólnandi skilyrði í
hafinu. Þó að of snemmt sé að spá um
framhaldið í þessum efnum kann
bráðlega að verða hlé á hlýskilyrðum
í sjónum við landið.
Mikilvægt er því nú sem aldrei
fyrr að fylgjast náið með framvindu
ástands sjávar í kringum landið til að
hægt verði að skýra breytingar í ný-
liðun, auk þess sem sveiflur í hita-
stigi og hafstraumum hafa afgerandi
áhrif á göngur fiskistofna, ekki síst
uppsjávarstofnanna,“ segir í formála
forstjóra að ástandsskýrslunni.
Um humarinn segir að veiðistofn-
inn hafi minnkað hratt síðustu ár
vegna slakrar nýliðunar og búast
megi við frekari minnkun hans á
komandi árum. Eldri árgangar hafa
verið áberandi í veiðinni á síðustu
vertíðum.
Óvissa er um loðnuvertíðina næsta
vetur, en samkvæmt nýrri aflareglu
mun upphafsaflamark vertíðarinnar
verða 54 þúsund tonn. Það verður
endurskoðað eftir mælingu á veiði-
stofninum haustið 2015 og endanleg
ráðgjöf um afla fyrir vertíðina verður
kynnt eftir mælingu á stærð veiði-
stofnsins í byrjun árs 2016.
Aflamark í uppsjávarstofnum eins
og norsk-íslensku síldarinnar, kol-
munna og makríls byggir á ráðgjöf
frá Alþjóða hafrannsóknastofnunni,
sem gefin er út á haustin. Síldar-
stofninn er að veikjast en stofnar
makríls og kolmunna eru metnir
sterkir.
Of snemmt að segja til
um göngur makríls
Fram kom á fundinum í gær að líf-
massi þessara tegunda í Norðaust-
ur-Atlantshafi hefði vaxið mjög á síð-
ustu árum. Það hefði haft í för með
sér aukna samkeppni um fæðu og
rými á aðalbeitarsvæðinu milli Nor-
egs og Íslands.
Spurðir hvað mætti lesa úr frétt-
um um að sjórinn við sunnan- og
vestanvert landið væri kaldari en í
fjölda ára og enn hefði ekkert sést til
makríls í lögsögunni í ár var svar
sérfræðinga á fundinum að of
snemmt væri að segja nokkuð til um
göngur makríls í sumar. Ekki mætti
draga of miklar ályktanir af þessum
fréttum. Vissulega væri sjórinn
kaldari en um árabil en eigi að síður
væri enn hlýsjávarástand við landið
og hitastig við yfirborð sjávar væri
fljótt að breytast ef mikið sólfar yrði.
Hæsta aflamark frá aldamótum
Aukning í þorski um 10% og ýsu um 20% samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar
Mikill árangur í uppbyggingu þorskstofnsins Slakari nýliðun nokkurra hlýsjávarstofna
Mikilvægt nú sem aldrei fyrr að fylgjast náið með framvindu ástands sjávar
Morgunblaðið/RAX
Á réttri leið Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, kynnir skýrslu um ástand nytjastofna við land-
ið. Hann segir að gríðarlegur árangur hafi náðst í uppbyggingu þorskstofnsins á síðustu árum.
Í fyrra var útflutningsverðmæti
sjávarafurða 244 milljarðar
króna, samkvæmt upplýsingum
Hagstofunnar sem nýlega var
greint frá á heimasíðu Sam-
taka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Þorskurinn er verðmætasta
tegundin og nam verðmæti
hans 89 milljörðum króna, eða
um 36% af heildarútflutnings-
verðmæti sjávarafurða. Ýsa
skilaði um 13 milljörðum, karfi
15 milljörðum og ufsi um 12
milljörðum.
Útflutningsverðmæti upp-
sjávartegunda eins og síldar,
kolmunna, makríls og loðnu
nam samtals um 62 millj-
örðum. Þar af skilaði makríll
um 24 milljörðum og síld 17
milljörðum.
Þorskurinn
skilar mestu
ÚTFLUTNINGSVERÐMÆTI
Tillögur um aflahámark
Tillögur Hafrannsóknastofnunar í þúsundum tonna
Heimild: Hafró
Tillaga Tillaga aflamark
Tegund 15/16 14/15 14/15
Þorskur 239 218 216
Ýsa 36.4 30.4 30.4
Ufsi 55 58 58
Gullkarfi 51 48 45.6
Litlikarfi 1.5 1.5 1.5
Djúpkarfi 10 10 10
Úthafskarfi — 10 —
Grálúða 22 25 25
Skarkoli 6.5 7 7
Sandkoli 0.5 1 1
Skrápflúra — — 0
Langlúra 1.1 1.1 1.1
Þykkvalúra 1.3 1.6 1.6
Hlýri 0.9 0.9 -
Steinbítur 8.2 7.5 7.5
Síld 71 83 82
Vorgotsíld Haust ICES 283 —
Loðna Upphafskvóti 54 580 580
Kolmunni Haust ICES 840 1260
Makríll Haust ICES 906 —
Gulldepla 30 30 —
Blálanga 2.6 3.1 3.1
Langa 16.2 14.3 13.8
Keila 3.4 4 3.7
Gulllax 8 8 8
Skötuselur 1 1 1
Hrognkelsi, könnun mars 2.04 6.2 -
Humar 1.5 1.65 1.65
Rækja-gr.sl. könnun haust 0.9 1.9 2.1
Rækja-dj.sl. 4 5 5
Hörpudiskur 0 0 0
Kúfskel 32.5 31.5 —
Beitukóngur 0.75 0.75 —
Hrefna — 229 229
Langreyður — 154 154
BAKSVIÐ
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
Hafrannsóknastofnun leggur til 21
þúsund tonna aukningu í aflamarki á
þorski á næsta fiskveiðiári, aflinn
fari úr 218 þúsund tonnum í 239 þús-
und tonn, eða upp um tæplega 10%.
Þetta er mesta aflamark frá alda-
mótum, er aflamarkið var 250 þús-
und tonn, og er þess að vænta að við-
miðunarstofn þorsks haldist að
svipaðri stærð fram til 2019. Í ýsu er
lögð til tæplega 20% aukning afla-
marks, afli fari úr rúmlega 30 þúsund
tonnum í rúm 36 þúsund tonn, sam-
kvæmt aflareglu. Af fleiri mikilvæg-
um tegundum þar sem aukið afla-
mark er lagt til má nefna gullkarfa,
steinbít og löngu.
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri
Hafrannsóknastofnunar, kynnti í
gær tillögur stofnunarinnar um afla-
mark á næsta fiskveiðiári og
ástandsskýrslu stofnunarinnar.
Hann sagði að gríðarlegur árangur
hefði náðst í uppbyggingu þorsk-
stofnsins með samstilltu átaki. Fyrir
nokkrum árum hefði verið dregið úr
veiðiálagi vegna lélegrar nýliðunar,
en það lækkaði úr um 40% árið 2000 í
um 20% á síðustu árum. Fyrir vikið
entust árgangar lengur í stofninum
og hlutfall eldri fisks í afla hefði farið
vaxandi. Veiðanleiki hefði aukist
mikið.
Nú væru menn farnir að uppskera
árangur af hóflegri sókn samkvæmt
aflareglu frá árinu 2007 og sterkari
árgangar væru að koma inn í stofn-
inn. Hann sagði ástand flestra mikil-
vægustu fiskistofna vera vel
ásættanlegt.
Jóhann lagði áherslu á að aflareglu
væri fylgt með langtímanýtingu í
huga, en nú eru þorskur, ýsa, ufsi og
gullkarfi í aflareglu og loðna frá og
með þessu ári. Formleg mótun nýt-
ingarstefnu og setning aflareglu til
nokkurra ára væru lykilþættir við
stjórn fiskveiða sem nú væru gerðar
kröfur um á alþjóðavettvangi. Á
þann hátt skapaðist stöðugleiki sem
gæfi efnahagslegan ávinning.
Viðmiðunarstofn þorsks í árs-
byrjun 2015 er metinn 1.302 þúsund
tonn og hrygningarstofninn 547 þús-
und tonn. Viðmiðunarstofninn hefur
stækkað um meira en 50% á síðustu
átta árum og er nú metinn stærri en
hann hefur verið undanfarna þrjá
áratugi. Hrygningarstofninn er
meira en tvöfalt stærri en hann var
lengst af síðustu áratugina. Stærð
árgangsins frá 2014 er nokkuð yfir
meðaltali.
Um ýsuna sagði Jóhann að eftir
sex lélega árganga hefði komið
sterkur árgangur í fyrra. Stofnstærð
þriggja ára og eldri ýsu í upphafi árs
2015 væri metin 112 þúsund tonn, og
hrygningarstofn 78 þúsund. Stofn-
matið nú bendir til heldur betra
ástands stofnsins en matið 2014, seg-
ir í ástandsskýrslunni.
Breytt umhverfisskilyrði
Staða íslensku sumargotssíldar-
innar er metin mun veikari en talið
var í fyrra. Fram kemur í skýrslunni
að sterkar vísbendingar séu um að
nýliðun í stofninum sé léleg og leiðir
það til lækkaðrar tillögu um afla-
mark á komandi vertíð.
Nýliðun nokkurra stofna hefur
minnkað á síðustu árum, einkum
stofna sem að mestu halda sig í hlýj-
um sjó við suður- og vesturströndina.
Þannig eru versnandi horfur í keilu,
löngu, blálöngu, skötusel, langlúru,
humri og fleiri tegundum.
„Ástæður fyrir þessari neikvæðu
þróun í nýliðun margra stofna eru
ekki þekktar en nærtækast er að
leita skýringa í breyttum umhverfis-
skilyrðum í hafinu við Ísland síðast-
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávar-
útvegsráðherra mun á næstu
dögum kynna aflaráðgjöf Haf-
rannsóknastofnunar í ríkisstjórn
og ræða við hagsmunaaðila. Að
því búnu tilkynnir hann ákvörðun
sína um aflahámark, en hann
hefur í tvö síðustu skipti nánast
í öllu fylgt ráðgjöfinni.
Sigurður segir að í ráðgjöfinni
felist mjög ánægjuleg tíðindi og
það sé sömuleiðis ánægjulegt að
líta yfir farinn veg og sjá hverju
ákvarðanir fyrri sjávarútvegs-
ráðherra hafi skilað. „Þetta sýnir
okkur að öflug vísindi, góðar
mælingar, skynsamlegar ákvarð-
anir stjórnmálamanna og stuðn-
ingur greinarinnar eru lykilatriði
við að byggja upp stofna,“ sagði
Sigurður Ingi. Fyrr í vikunni
kynnti ráðherra í ríkisstjórn
ákvörðun sína um að framlengja
20% aflareglu í
þorski og jafn-
framt að hún
sætti endur-
skoðun á fimm
ára fresti.
Á fundi með
sérfræðingum
Hafrannsókna-
stofnunar og
ráðherra í gær
var m.a. rætt um göngur makríls
og ástandið í sjónum. „Það er
nokkur óvissa uppi og þó að við
séum enn inni í hlýsjávarskeiði
eru vísbendingar um að það sé
að kólna. Hvað það þýðir vitum
við ekki og við höfum ekki nein-
ar sögulegar upplýsingar um
hegðun stofns eins og makríls,
sem við þekkjum þar fyrir utan
ekki nógu mikið,“ sagði Sigurður
Ingi.
Hefur fylgt aflaráðgjöf
ÁKVÖRÐUN RÁÐHERRA FLJÓTLEGA
Sigurður Ingi
Jóhannsson