Bókasafnið - 01.05.2012, Blaðsíða 12
12
bókasafnið 36. árg. 2012
ekkert varð af kaupunum. Treglega gekk að selja bækurnar og
olli því bæði öfund og óvild ýmissa aðila í garð Boga sem og
eymd og örbirgð landsmanna í kjölfar móðuharðindanna. Til
að bæta úr reyndi Bogi að prenta guðsorðabækur með leyfi
stiftamtmanns en það hafði hann alls ekki haft á áætlun sinni.
Það fór á sömu leið.
Stórar bækur voru sérlega kostnaðarsamar og tókst ekki að
selja þær til þess að hafa upp í kostnað. Bogi var þreyttur af
mótstreymi, mæddur af útgjöldum og eilífu þrasi og dró sig
í hlé. Hann hætti loks prentumsvifum og kom prentverkinu
í hendur tengdasyni sínum Birni bónda Gottskálkssyni.
Prentsmiðjan á eyjunni smáu í Breiðafirði starfaði í rúm 20 ár
og út af þrykki gengu 83 titlar, langflestir fræðslurit. Frá prent-
smiðjunni komu grundvallar bækur og bæklingar um efni sem
vörðuðu íslenskt þjóðfélag eins og lög og stjórnmál. Textar
voru aðlagaðir og höfðu að markmiði að upplýsa bændur
um möguleika á nýtingu lands síns og hagræðingu í atvinnu-
háttum. Önnur megin áhersla lá á bókaútgáfu til skemmtunar
eins og kom glögglega í ljós með rímum eftir yngri höfunda
og komu margar þeirra út á árunum milli 1777 og 1784. Úlfars
rímur sterka eftir Þorlák Guðbrandsson Vidalín voru snemma
gefnar út og nutu vinsælda. Útgáfa skemmtirita var þó á enda
með endalokum prentverksins í Hrappsey og fóru lærðir
menn upplýsingahreyfingarinnar að láta til sín taka.13
Margar Hrappseyjarbækur eru nú fátíðar og eftirsóttar
og hafa ekki allra ötulustu safnarar getað aflað þeirra allra.
Jafnvel konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn mun vanta
eitthvað af þeim og átti það þó tilkall samkvæmt lögum til allra
nýrra bóka í danska ríkinu þegar á dögum prentsmiðjunnar.
Má og sjá af kansellíbrjefi 14. mars 1789, að aðstandendur
prentsmiðjunnar hafa verið tregir að skila safninu bókum
sínum og hafði ekkert frá henni komið þá síðan í árslok 1784.14
Islandske Maanedstidender hófu göngu sína í október 1773
og mun fyrsta hefti þeirra hið elsta sem í Hrappsey var prentað
en það var skráð á dönsku sem við fyrstu sýn má teljast
furðulegt. Ástæðan fyrir því er talin sú að prentsmiðjan átti um
200 fasta kaupendur í Danmörku sem Olaviusi tókst að safna
í upphafi og forstöðumenn prentsmiðjunnar vissu að ekki
myndi tjóa að bjóða þeim eintómar íslenskar bækur. Þetta var
eitt af því fáa sem prentað var í Hrappsey með latínuletri, en
með áramótunum er skipt um og gotneskt letur tekið upp.
Þrír árgangar komu út á árunum 1773-76, hinn síðasti reyndar
prentaður í Kaupmannahöfn. Er þetta elsta tímarit Íslendinga.
Segir þar frá búnaðartíðindum, verslun og tíðarfari svo dæmi
séu nefnd.
Lögþingisbókin kom út í Hrappsey öll þau ár sem prent-
smiðja var þar, alls 22 bækur. Töluvert var lagt í prentun sem
Guðmundur Jónsson og Magnús Moberg önnuðust. Hún er
falleg og vönduð að allri gerð eins og margt sem prentað var
um þessar mundir. Auk þess komu út í Hrappsey sjö önnur rit
um lögfræðileg efni. Var hið mesta þeirra Tilskipanasafnið.
Athyglisvert er og jafnframt aðdáunarvert að menn
leituðust við að prenta bækur sem alþýða manna gæti haft
gagn og gaman af. Stórhuga menn reistu sér hurðarás um öxl
en töldu verkið tilraunarinnar virði.
Skarðsár annálar voru meðal þess merkasta sem út var
gefið í Hrappsey. Höfundur þeirra var Björn Jónsson að
Skarðsá og komu fram svo til samtímis tvær útgáfur á árunum
1774-75. Var önnur þeirra jöfnum höndum á íslensku og latínu
þannig að hinn íslenski frumtexti var prentaður á fyrri síðu, en
latnesk þýðing hinum megin á opnunni. Var sú útgáfa í tveim
bindum, sitt árið hvort, og sagt að hún væri ætluð „lærðum
mönnum og útlendingum“. Hin, sem ætluð var Íslendingum,
var prentuð á íslenzku eingöngu og kom út í einu bindi fyrra
árið, 1774, með formála útgefandans Olaviusar. Átti hann
einnig þátt í latínuþýðingu fyrra bindis stærri útgáfunnar, en
talið er að þar hafi hann notið aðstoðar Jóns Þorlákssonar.15
Upphaf Annálanna í fyrstu útgáfu er ríkulega myndskreytt
með tréristum en að öðru leyti er bókin ekki skreytt að
undanteknum rósabekk við upphaf fyrsta kafla.
Af kvæðum og rímum voru gefin út 20 rit, þar á meðal
svonefnd Tullinskvæði sem voru eftir Christian Braunmann
Tullin eða Nockur þess alþeckta danska Skálds sál. Herr Christ. Br.
Tullins Kæ-væde, med ltlum Vidbætir annars efnes eins og það
var kallað. Það var gefið út 1774 og enginn minni þýðandi en
Jón Þorláksson, síðar prestur að Bægisá, þýddi það á íslensku.
Einnig voru í bókinni nokkur ljóð eftir aðra en fyrrnefndan
Tullin, þeirra á meðal eftir Jón sjálfan. Þessi bók þótti mikil
nýjung á Íslandi mest megnis vegna þess að efni var eftir
ungan samtímamann.
Áhugi á rímum jókst meðal landsmanna og þóttu þær
hin besta skemmtun. Jarðvegurinn var því hagstæður fyrir
útgáfu slíks efnis. Þorlákur Guðbrandsson sendi frá sér Riimur
af Ulfari Sterka sem komu út 1775. Úlfarsrímur eru fyrstu
veraldlegu rímur prentaðar hér á landi. Þær urðu vinsælar,
allnokkuð keyptar og fóru víða. Fleiri rímur gengu út úr
Hrappseyjarprenti. Rímur þóttu nýjung og nutu um langt
skeið vinsælda hjá þorra almennings.
Séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal var maður nýrrar
hugsunar og hann hafði mikla þörf fyrir að láta gott af sér leiða
með því að benda fátækum og ómenntuðum Íslendingum á
nýjar leiðir til að afla sér matar og bæta búskap. Björn er þekktur
fyrir að hafa fyrstur ræktað kartöflur á jörð sinni í Sauðlauksdal
og hvatti menn til tilrauna á þessari jurt sem reyndist nokkuð
auðræktuð og munaði um í pottum landsmanna. Björn var
hluti af kynslóð upplýsingarmanna sem töldu að menntun og
13. Davíð Ólafsson: Wordmongers : post-medieval scribal culture and the case of Sighvatur Grímsson. Drg. University of St Andrews; 2008, bls. 91-92.
14. Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. (Safn fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga, VI). Kaupmannahöfn: Hið íslenska
fræðafjelag í Kaupmannahöfn; 1928, bls. 25.
15. Böðvar Kvaran: Auðlegð Íslendinga : brot úr sögu íslenzkrar bókaútgáfu og prentunar frá öndverðu fram á þessa öld. Reykjavík: Hið íslenzka
bókmenntafélag; 1995, bls. 101-104.