Bókasafnið - 01.05.2012, Blaðsíða 14
14
bókasafnið 36. árg. 2012
af birgðunum með Hofsósskipi til Kaupmannahafnar, en þar
átti að skipta þeim niður á Íslandsför til ýmissa annarra hafna,
og fela loks próföstum söluna samkvæmt kansellíbréfi 1. maí
1790. Drjúgan tíma þurfti til að koma öllu þessu í kring og ekki
síður til að selja bækurnar og koma andvirðinu aftur norður til
Hóla. Íslensk bókmenntaumsýsla og útgáfufyrirtæki voru þá
betur sett í Kaupmannahöfn en nokkursstaðar á Íslandi sjálfu.
Varla hefur verið fyrir því haft að senda rit til fjarlægra héraða
og líklegast að Hrappseyjarprentsmiðja hafi átt mest allt traust
sitt undir grannsýslunum einum. Bækur hennar eru líka flestar
samdar eða gerðar úr garði í námunda við hana í Hrappsey,
Búðardal, Galtardal, Hjarðarholti, á Helgafelli og Ökrum.
Hlutdeild annarra fjórðunga var lítil og til dæmis alls engin í
Austfirðingafjórðungi. Prentsmiðjan stóð í raun réttri skár að
vígi að selja bækur sínar til Kaupmannahafnar, heldur en til
dæmis austur í Múlasýslur, eða jafnvel til annarra héraða sem
nær voru. Hún hafði og nokkurn markað í Danmörku framan
af, en þar var sá hængur á, að bækur, sem þangað átti að selja,
urðu að vera á erlendu máli, eða að minnsta kosti með þýðingu.
En slíkar þýðingar voru seinunnar og kostnaðarsamar og ein
ástæða þess, að prentsmiðjan hætti var sú, að hana skorti
bolmagn til að þjóna tveimur mörkuðum. En ef kaupendur
erlendis brugðust, þá gerðu Íslendingar það ekki síður sjálfir.
Bækurnar lágu óseldar og grotnuðu niður. Ýmsar ástæður
voru til þessa, almenn fátækt, gömul tregða og óvani að
kaupa annað en guðsorð. Prentsmiðjan barðist í bökkum um
hríð þangað til Skaftáreldar, einhver hræðilegasta óáran, sem
yfir Ísland hefur dunið, reið baggamuninn og keyrði hana um
koll, að heita mátti. En þó að kver hennar síðasta áratuginn
væru bæði þunn og strjál, voru þau hið eina, sem þá birtist
bókakyns á Íslandi sjálfu. Hólaprentsmiðja þraukaði ekki einu
sinni fram til Skaftárelda, heldur hætti 1782, og aðalprentari
hennar hvarf þá vestur til Hrappseyjar. Eftir að svo var komið,
var leyft að gefa út nokkrar guðsorðabækur í Hrappsey, en
engin var í þeirra tölu, sem nauðsynlegastar voru taldar af
almenningi. Hólaprentsmiðja lá alveg niðri þangað til 1797,
að rígur við Landsuppfræðingarfélagið hleypti í hana dálitlu
fjöri. Einum tveimur árum síðar gaf hún út hinstu bók sína,
sem jafnframt var minning síðasta Hólabiskups.19 Eigandi
Hrappseyjarprentsmiðju, Bogi Benediktsson, bar fjártjón af
henni og tvisvar bauð hann hana konungi til kaups, 1785
og 1787. Konungur hafði ekki minnsta áhuga. Haustið
1789 auglýsti Bogi í Lögþingisbók prentsmiðjuna fala fyrir
sanngjarnt verð, þar sem honum virtist, að prentverkið „kinni
ad verda landenu til stærra Gagns og Uppbiggingar være
þad sett i eitt hentugra Plaats under lærdra, vitra og drijfande
Manna Forsion“.20 Hagur prentsmiðjunnar batnaði aldrei svo
að hún greiddi dómkirkjunni einn skilding. Bogi var nú tekinn
að eldast og þreyttur orðinn á andstreymi sínu við rekstur
prentsmiðjunnar og hefur hann talið sér meiri von að geta
losnað við hana, eftir að skyldan um gjald var afnumin.
Í Hrappsey gaf Björn Gottskálksson út eina bók veturinn
1793-94, Missiraskiptaoffur eftir sr. Jón Guðmundsson, er var
meðal þess síðasta sem þar var prentað. Árið 1794 keypti
Björn Gottskálksson prentsmiðjuna af Boga og árið eftir var
hún flutt að Leirárgörðum.21 Prentsmiðjan að Hólum lagðist
af stuttu síðar og sameinaðist starfseminni að Leirárgörðum.
Aftur var aðeins um eina prentsmiðju að ræða í landinu og nú
undir veraldlegri stjórn.22
Þegar Hrappseyjarprentsmiðja var komin á fallandi fót tók
starf Magnúsar Stephensens við í íslenskri bókaútgáfu og
hann hafði fram að færa fjölbreyttari bókakost en áður hafði
verið boðinn og stóð að umfangsmeiri bókaútgáfu en hér
hafði þekkst síðan á dögum Guðbrands biskups Þorlákssonar
eins og Ólafur Pálmason fyrrum forstöðumaður Íslandsdeildar
Landsbókasafns hefur bent á.23
Er Magnús Stephensen kom heim frá námi, var svo ástatt
um bókaútgáfu hér á landi að heita mátti að prentsmiðjurnar
tvær, Hólaprentsmiðja og Hrappseyjarprentsmiðja, stæðu
báðar aðgerðarlausar. Á Hólum hafði engin bók verið prentuð
á síðustu sex árum. Björn Gottskálksson, sem áður hafði stýrt
prentsmiðjunni í Hrappsey, en hvarf norður að Hólum 1789,
lýsti ástandi prentsmiðjunnar svo: „Hér standa Prenthúsin
gluggalaus, Veggirnir sígnir niður frá Þekiuni, Stílkössunum
samanhladid og slegit fyri allt i ödrum Endanum, Pressan
skémd og fordiörfud og Rammarner ridgadir og svívirdtir so
margt af þessu má fina danskin ádur brúkad verdur...“24 Ljóst
er að ástandið var ískyggilegt.
Lestrarþörf landsmanna var nokkur og þrátt fyrir fátækt
komust menn yfir prentað efni. Eftir sem áður var skrifað
upp og mörg merk handrit urðu til. Ekki var óalgengt að
menn fengju lánaðar prentaðar bækur til að skrifa upp eftir.
Menn höfðu tíma en að jafnaði ekki peninga til að versla sér
lestrarefni. Um og eftir 1790 voru stofnuð hér á landi tvö félög
er unnu í fræðsluátt, þótt aldrei yrðu þau fjölmenn. Þetta
voru fyrstu lestrarfélögin hér á landi. Hið íslenzka Suðurlands
19. Jón Helgason: Hrappseyjarprentsmiðja 1773-1794. Safn fræðafjelagsins um Ísland og Íslendinga. Kaupamannahöfn: Hið íslenska fræðafjelag í
Kaupmannahöfn; 1928, bls. 74-76.
20. Lögþingisbókin 1789, bls. 78.
21. Jón Jónsson Borgfirðingur: Söguágrip um prentsmiðjur og prentara á Íslandi. Reykjavík: Jón Jónsson; 1867, bls. 41.
22. Davíð Ólafsson: Wordmongers : post-medieval scribal culture and the case of Sighvatur Grímsson. Drg. University of St Andrews; 2008, bls. 91-
92.
23. Ólafur Pálmason: Magnús Stephensen og bókmenntastarfsemi hans. Óútgefin kandidatsritgerð frá Háskóla Íslands 1963, bls. 4.
24. Sama, bls. 60-64.