Bókasafnið - 01.05.2012, Side 25
25
bókasafnið 36. árg. 2012
fékk í upphafi styrk frá Evrópusambandinu og það var búinn
til lítill evrópskur bókmenntavefur sem átti að vera sýnishorn
af því hvernig svona bókmenntavefur gæti litið út. Ekki voru
tök á því á þessum tíma að halda áfram með þetta evrópska
verkefni en við ákváðum að halda áfram. Bókmenntavefurinn
er mjög mikilvægur til þess að kynna íslenskar bókmenntir,
bæði erlendis og innanlands. Viðbrögð notenda sýna það.
Við erum stolt af því hve honum hefur verið haldið vel við, en
úthaldið skiptir auðvitað miklu máli. Bókmenntagöngurnar
fyrir erlenda ferðamenn eru gott dæmi um úthald, við vorum
nánast að gefast upp, en gáfum því einn enn séns, þriðja
sumarið og þá allt í einu varð sprenging. Það varð okkur mikil
lyftistöng þegar Reykjavík varð ein af menningarborgum
Evrópu og á sama hátt hefur líka skipt miklu máli að
borgin var útnefnd bókmenntaborg UNESCO í ágúst 2011.
Borgarbókasafnið tók mikinn þátt í umsóknarferlinu og
fylgdi glæsileg skýrsla umsókninni um stöðu mála í borginni
og þau verkefni sem framundan eru. Eitt verkefnið er hinn
lestrarhvetjandi Sleipnir, bokmenntaborgin.is.
Myndlist sem víðast
Ég hef alltaf talið að myndlist eigi að vera sem víðast í
umhverfinu, í almenningsrými eins og bókasöfnum, minnug
þess hve myndverk, veggmyndir og leiktjöld Barböru Árnason
í Melaskóla höfðu mikil áhrif á okkur börnin í skólanum.
Mér var það því kappsmál að myndlist yrði mikilvægur
hluti af rýminu í nýju aðalsafni en tvö föst myndverk eru á
fyrstu hæðinni í Grófarhúsi. Annað er glerverk, Fagra veröld,
tileinkað Tómasi Guðmundssyni, Reykjavíkurskáldinu, eftir
Leif Breiðfjörð en brjóstmynd sem Sigurjón Ólafsson gerði
af skáldinu er hjá. Hitt verkið er eftir Helga Gíslason, en hann
umbreytti einni af burðarsúlum hússins þannig að verkið
minnti á menningarhlutverk þess, þannig að súlan bæri uppi
þetta hlutverk hússins. Súlan sem stendur í ,,þekkingarbrunni“
minnir á grundvöll okkar vestrænu menningar. Súluhöfuðið
er stílfærður forngrískur, jónískur stíll. Það er dálítið gaman
að segja frá því að svona rúmri viku áður en húsið var opnað
hringdi Helgi í mig dálítið áhyggjufullur og sagðist ekki vita
hvað hann ætti að láta listaverkið heita. Mér datt í hug að
leita í brunn Snorra Hjartarsonar og fann strax heitið Óður,
en orðið kemur fyrir í fyrstu ljóðlínu fyrsta kvæðis í fyrstu
ljóðabókinni hans. Óður merkir meðal annars hugur, sál,
vitsmunir, skáldskapur, kvæði, skáldagáfa. Bæði bókabíllinn
Höfðingi og sögubíllinn Æringi eru fagurlega myndskreyttir
að utan eftir annars vegar Gunnar Karlsson og hins vegar Brian
Pilkington og vekja athygli hvar sem þeir fara. Þá er gaman
að segja frá því að í vor var afhjúpað vegglistaverk í Ársafni
eftir Kristínu Arngrímsdóttur, listamann en einnig starfsmann
safnsins. Í öllum söfnunum gleður gesti fjöldi listaverka í eigu
Reykjavíkurborgar.
Í Borgarbókasafninu í Helskinki hefur um árabil verið
starfrækt svokallað Artótek eða útlán/leiga/sala á mynd-
list starfandi listamanna. Ég hafði um tíma reynt að selja
hugmyndina um að Borgarbókasafn reyndi slíkt nú þegar
húsnæðið bauð upp á það. Ráðamenn áttu erfitt með að
sjá þetta fyrir sér, en svo vildi svo heppilega til að menn-
ingarmálanefnd (pólitíkusarnir) fór ásamt okkur for stöðu-
mönnum menningarstofnana Reykjavíkur í kynnisferð til
Helsinki. Ég setti heimsókn í Artótekið finnska á dagskrána og
eftir það voru allir einhuga um að hugmyndin væri góð, – ekki
málið.
Engu að kvíða
Á þessum rúmu 33 árum sem ég hef starfað við Borgar-
bókasafnið hafa eins og gefur að skilja orðið gífurlegar
breytingar og takast bókasöfnin stöðugt á við samfélagslegar
og tæknilegar breytingar. Þess vegna hefur Borgarbókasafnið
undanfarin tvö ár tekið þátt, ásamt Amtsbókasafninu á
Akureyri og Bókasafni Kópavogs, í samnorrænu verkefni,
Nordic camps, öðru nafni Next library. Ég bind miklar vonir við
það verkefni og það hefur sannað sig held ég að þetta hafi
haft mjög góð áhrif á starfið í safninu. Á það hefur verið lögð
áhersla að yngri kynslóðin, þeir sem taka við, taki þátt í þessu
verkefni, fari í þessar vinnusmiðjur og að hún fái tækifæri til
þess að koma með framtíðarhugmyndir. Eins mikilvægt og
það er að yngri kynslóðin móti framtíðina þá er jafnmikilvægt
að byggja á reynslu eldri kynslóðarinnar. Hverri kynslóð hættir
til að telja að lítið hafi áunnist áður en hún tók við og alla vega
í íslensku nútímasamfélagi er reynsla hinna eldri stórlega
vanmetin.
Í rúmt ár hefur svokallað samráð 12-14 starfsmanna innan
safnsins unnið að gerð langtímastefnu Borgarbókasafns með
aðgerðabindingu. Aðferðafræðin byggist meðal annars á gerð
sviðsmynda, eins og það er kallað, og samstarfi við rýnihópa.
Það er því engu að kvíða um framtíð Borgarbókasafns, sem
mér þykir afar vænt um, eins og ég sagði í upphafi.
Þegar upp er staðið er besta minningin mín tilhugsunin
um allt það góða fólk sem ég hef unnið með innan
Borgarbókasafns, innan Reykjavíkurborgar og innan
bókasafna geirans hér á landi í á fjórða áratug.
Óður, myndverk eftir Helga Gíslason. Á veggnum til vinstri er upphafið
að kvæði Snorra Hjartarsonar, Í Úlfdölum.