Bókasafnið - 01.05.2012, Page 33

Bókasafnið - 01.05.2012, Page 33
33 bókasafnið 36. árg. 2012 starfsvettvangs síns í heimi bókarinnar og kynnast hugmyndum og verkefnum annarra sem lifa og starfa í þeim heimi. Þarna gefst tækifæri til að heimsækja fjölda háskólaforlaga öll á einum stað. Þarna eru Oxford University Press, Cambridge, Sage og allir hinir. Einnig dreifingaraðilar eins og Elsevier, Ebsco, JSTOR. Á svipuðum slóðum er miðstöð bókasafna, aðstaða til að setjast niður, hvíla beinin og hitta kollega alls staðar að. Bæði dagana fyrir messuna og á messunni sjálfri er þétt dagskrá; ráðstefnur, fyrirlestrar og pallborðsumræður um mörg þau mál sem heitast brenna á bókasöfnum í dag. Meðal þess sem fjallað var um var breytt umhverfi bókaútgáfu, hnattvæðing rafbóka, nýir miðlar og opinn aðgangur og haldin var alþjóðleg ráðstefna um læsi. Sumir þessara atburða voru skipulagðir af Frankfurt Academy. Hún var stofnuð 2010 og líkt og hugmyndin um heiðursgest er henni ætlað að auka vægi bókamessunnar, höfða til breiðari hóps. Það ár var einnig stofnað til Frankfurt Sparks, þar sem nýir miðlar og tækni eru til umfjöllunar og hvaða áhrif þeir hafa á sagnagerð og bókaútgáfu. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að styrkja tengsl bókasafna við messuna, höfða til þeirra með skýrari hætti. Mannfræðingur á vettvangi Mannfræðingurinn undirbýr sig á annan hátt. Hann er með rannsóknarspurningar, kenningar og aðferðafræði í farteskinu, þó ekki í of föstum skorðum. Það verður að vera rúm fyrir rödd vettvangsins, að leyfa honum að tala. Mannfræðingurinn má ekki mæta með svo fyrirfram ákveðnar hugmyndir að hann finni aðeins það sem hann leitar að. Að þessu leyti getur hann lært ýmislegt af lestri spennusagna; „Hvað gerum við nú?“ „Við leitum,“ svaraði Harry. „Að hverju?“ „Við reynum að hugsa sem minnst um það.“ „Hvers vegna?“ „Vegna þess að manni yfirsjást gjarnan mikilvægir hlutir þegar maður er að leita að einhverju sérstöku. Tæmdu hugann. Þú skilur hverju þú ert að leita að þegar þú sérð það.“ 4 Heimur bóka hefur lítið verið rannsakaður í félagsvísindum. Breskur félagsfræðingur, John B. Thompson, veltir því fyrir sér í inngangi að bók sinni, „The merchants of culture“, sem er tímamótaverk á þessu sviði: „Það er ráðgáta að það svið skapandi iðnaðar sem við vitum mjög lítið um er það svið sem hefur fylgt okkur lengst – bóka- útgáfuiðnaðurinn. [Hann] varð til á fimmtándu öld, þökk sé uppfinningu gullsmiðs í Mainz og prentun og útgáfa bóka hefur fylgt okkur í meira en hálft árþúsund, en samt vitum við svo lítið um hvernig þessi iðnaður er skipulagður í dag og hvernig hann er að breytast ... í þau fáu skipti sem sjálfur iðnaðurinn kemst í kastljós fjölmiðla, er það oftar en ekki vegna þess að enn einn blaðamaðurinn lýsir því yfir, ákafur, að á stafrænum tímum er útgáfuiðnaðurinn eins og við þekkjum hann dauðadæmdur. Fáum greinum hefur jafn oft verið spáð dauða og bókaiðnaðinum, en samt sem áður hefur hann, líkt og fyrir kraftaverk, lifað af allar slíkar hrakspár – að minnsta kosti þar til nú.“ 5 Þetta hefur verið að breytast og það virðist sem hugmynd mín hafi kviknað á sama tíma og félagsvísindamenn víða um heim voru að vakna til vitundar um þennan óplægða akur. Í nánum tengslum við rótgrónar greinar hugvísinda eins og bóksögu og þýðingarfræði er víða unnið að rannsóknum á ólíkum sviðum bóka og útgáfu. Á bókamessunni í Frankfurt vann ég náið með argentískum mannfræðingum sem höfðu unnið að mannfræðirannsóknum þar árið áður, þegar Argentína var heiðursgestur messunnar, og franskir félagsfræðingar voru líka á staðnum. Hugmynd mín er að skoða ferðalag íslenskra bóka um heim- inn og með þá spurningu í höfðinu hitti ég á bókamessunni höfunda, þýðendur, umboðsmenn og útgefendur. En ég mætti líka á staðinn til að hlusta og horfa, leyfa vettvangnum að tala við mig og fann að heimur bóka og bókaútgáfu er óþrjótandi uppspretta verkefna fyrir áhugasama félagsvísindamenn. Mikil vægt er að mannfræðin taki þátt í því ferðalagi, láti rödd sína heyrast. Að lokum Hvort sem ég horfi með augum bókavarðarins eða augum mannfræðingsins var ferðalagið til Frankfurt árangursríkt. Bókavörðurinn kom til baka með betri yfirsýn yfir þann heim sem hann starfar í og mannfræðingurinn með fangið fullt af gögnum, samböndum og frekari hugmyndum að vinna úr. Það hefði líka verið spennandi að vera í hlutverki hins almenna gests, ráfa um messuna, láta tilviljanir ráða för og augnablikið fanga sig. Þessir fimm dagar í Frankfurt sýndu vel að heimur bókarinnar er ekki í andarslitrunum og þó að miklar breytingar séu að ganga yfir og ákveðnir þættir meira í sviðsljósinu en aðrir þá er pláss fyrir margt. Það er hátt til lofts og vítt til veggja í heimi bókarinnar. Heimildir Moeran, Brian. 2011. The book fair as a tournament of values. Í Negotiating values in the creative industries: fairs, festivals and competitive events, ritstj. Brian Moeran og Jesper Strandgaard Pedersen. Cambridge: Cambridge University Press. Kolbrún Bergþórsdóttir. 2011. Ferðir sagnalistarinnar, [viðtal við Halldór Guðmundsson]. Morgunblaðið, 7. ágúst. Nesbö, Jo. 2012. Snjókarlinn. Reykjavík: Uppheimar. Thompson, John B. 2010. Merchants of culture. The publishing business in the twenty-first century. Cambridge: Polity Press. Weidhaas, Peter. 2007. A history of the Frankfurt book fair. Toronto: Dundurn Press. Weidhaas, Peter. 2009. The Frankfurt book fair: 60 years and still a shining example. Publishing research quarterly, 25:30-35. 4. Nesbö, 2012. 5. Thompson, 2010 (lauslega þýtt af greinarhöfundi).

x

Bókasafnið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.