Bókasafnið - 01.05.2012, Page 42
42
bókasafnið 36. árg. 2012
þeirra finnst starfið hafa upp á annað og meira að bjóða en
hún gerði sér grein fyrir, hinni finnst fagkunnátta sín ekki
fá að njóta sín nægilega í starfi. Allar hafa þær áhuga fyrir
starfinu og vilja hæfilega krefjandi verkefni til að spreyta sig
á. Í öðru lagi markast viðmót þeirra allra og líðan af tilfinningu
þeirra fyrir þeim starfsanda sem ríkir meðal vinnufélaga,
þar á meðal yfirmanns. Og í þriðja lagi kemur fram hversu
heppnar þær segjast vera að hafa og halda vinnu miðað við
atvinnuástandið í dag og vera þar að auki í starfi sem þær
hafa sóst eftir sjálfar og eru ánægðar í. Samskipti vinnufélaga,
virðing og öryggi virðast vera þeir þættir sem þær meta mest
og segja að einkenni góðan vinnustað.
2. Líðan með vinnufélögum og væntingar til þeirra
Stærð safna, fjöldi starfsmanna og samsetning hefur
mikið að segja hvað varðar líðan og sitt sýnist hverjum. En
einstaklingur, framkoma hans og viðhorf, virðist geta haft
afgerandi áhrif á líðan annarra starfsmanna. Þeir eru ekki
eingöngu vinnufélagar heldur bera þeir starfsemina uppi og
starfsandi meðal þeirra, líðan og áhugi hefur ekki bara áhrif á
innri starfsemi safnsins heldur getur einnig haft áhrif á viðmót
starfsmanna gagnvart viðskiptavinum. Viðmælendur voru
beðnir um að segja frá hvernig þeim liði á vinnustað innan
um vinnufélaga sína og hvaða eiginleikum góður vinnufélagi
á að vera gæddur. Hér er fjallað um mikilvægi vinnufélagans
út frá samskiptum, nálægð á vinnustað, stuðningi við upphaf
starfs, samstöðu við innleiðingu breytinga og við áföll í lífi og
meðal starfsmanna.
Allar eiga konurnar, sem rætt var við, vinnufélaga en misjafnt
er hversu náin samskiptin þeirra í milli eru. Aldursblöndun
og kynjablöndun álíta þær sem eru á stærri söfnum góða
starfsmannablöndu. En nokkrar á minni söfnunum tala um
kvennavinnustaðinn sinn og vinkonuandann. Flestar vilja
geta treyst samstarfkonum sínum og rætt um fjölskyldumálin
eins og vinkonur, inn á milli faglegrar umræðu. En ein gefur
í skyn að hún eigi litla samleið með samstarfskonum sínum
og önnur vill halda ákveðinni fjarlægð í samskiptum við
vinnufélaga. Samvera, hvatning, stuðningur, áhugi og öryggi
eru þættir sem þær segja að skipti máli í fari vinnufélaga
og yfirmanns. Þær meta góðan starfsanda mikils og tvær
sögðust hiklaust gefa eftir ef upp kæmi þras eða pirringur til
að tryggja áframhaldandi góð samskipti.
Allar hafa þær einhvern tíma verið nýliðar og sú upplifun
virðist geymd en ekki gleymd. Þær segjast vel geta sett sig í
spor nýliðans, upplifunina af óöryggi og stressi í starfsbyrjun.
Og þær eru sammála um hversu mikilvægt það sé að taka vel
og markvisst á móti nýjum starfsmanni. Hann þarf að finna
félagslegan stuðning, að starfið hafi tilgang og að starfskraftar
hans nýtist starfsemi safnsins. Mismikil nýliðun hefur átt sér
stað á söfnunum. Það er áhugavert hvaða merkingu þær
leggja í mikla og litla nýliðun. Hvort tveggja telja þær gott,
segja það lýsa ánægju ef starfsmannaveltan sé lítil og þar sem
hefur verið einhver starfsmannavelta að ráði þá kemur fram
að nýliðun sé góð vegna ferskleika og nýrrar þekkingar.
Breytingar eru að jafnaði gerðar til að bæta og auka
þjónustu safnsins. Tillögum er oftast vel tekið en innleiðing
þeirra er svo í höndum starfsfólksins. Hér á vel við orðatiltækið
„glöggt er gests auga“. Því svo virðist sem nýtt fólk sé opið
fyrir breytingum, lumi á þekkingu og reynslu sem það vilji
hrinda í framkvæmd. Margar minni háttar breytingar hafa
áhrif og kannski ekki erfitt að hrinda þeim í framkvæmd svo
fremi þær hafi ekki óþægindi í för með sér að mati annarra
starfsmanna. En stærri breytingar þurfa innleiðingu og
samstöðu. Viðmælendur rannsóknarinnar voru fylgjandi
breytingum og áttu jafnvel frumkvæðið en þær þekkja líka
efasemdarviðbrögð og jafnvel að samstarfsfólk sé vísvitandi
ekki samstíga og hindri breytingar.
Fagleg samskipti, léttleiki og hvatning hafa jákvæð áhrif
á líðan, en stirð samskipti og ágreiningur hafa tvímælalaust
neikvæð áhrif. Veikindi aftur á móti þjappa oft fólki saman.
Svo virðist sem stærð safnanna skipti ekki miklu máli þegar
áföll verða meðal vinnufélaga. En hvort tveggja, veikindi
og ágreiningur, hefur mikil áhrif á líðan þeirra. Þó safnið sé
stórt eru alltaf einhverjir nálægir sem taka áfallið nærri sér.
Fólk sem veikist þarf að bregðast við sínu vinnuumhverfi og
jafnvel yfirgefa vinnustaðinn. Sumir fara skyndilega frá vegna
veikinda og eru þar með utan við vinnustaðinn og vinnufélaga
og eru líklegir til að mæta skilningi og stuðningi vinnufélaga.
En þeir sem lenda í samskiptaerfiðleikum á vinnustað geta átt
í stríði við vinnufélaga og virðast geta komið sjálfum sér og
öðrum í klemmu. Ef ágreiningur vex, þrátt fyrir viðbrögð og
aðgerðir á vinnustað, kemur stundum til þess að leita þurfi
utanaðkomandi aðstoðar. Viðkomandi kemur ójafnvægi á
vinnubraginn og ef það er eitthvað sem skiptir máli þegar
viðmælendur mæta til vinnu þá er það að hafa hlutina í lagi
og finna góða strauma mæta sér.
3. Hlutverk yfirmanns almenningsbókasafns með tilliti til
líðanar og starfsánægju
Þegar konurnar sem rætt var við voru spurðar út í hvað
einkenni góðan yfirmann þá nefna þær allar nálægð og
gott aðgengi að honum. Flestar voru þær ánægðar með
sinn yfirmann og gátu talið upp kosti hans og galla. Þær eru
einnig allar á því að yfirmaður „leggi línurnar“ og gegni því
miklu hlutverki í líðan starfsmanna og starfsanda á vinnustað.
Nálægð við hann virðist vera meiri á minni söfnunum en að
þeirra mati er hún ekki síður mikilvæg á stærri söfnunum.
En starfsumfang yfirmanna við rekstur stærri safna geri það
að verkum að þeir eiga erfiðara um vik að starfa á gólfinu
með sínu fólki. Það getur verið vandmeðfarið hjá yfirmanni
að standa sig í starfi gagnvart starfsfólki sínu og þræða þá
fínlegu línu að vera „mannlegur“ og halda vissri fjarlægð.
En samantekið segja þær að góður yfirmaður eigi að þekkja
starfsfólk sitt, vera skilningsríkur og vera í reglubundnu
sambandi við það og áríðandi sé að hann sé þeim
aðgengilegur. Hann á einnig að vera framtaksamur, opinn
fyrir nýjungum, halda starfsfólki upplýstu, dreifa ábyrgð og
hafa heildaryfirsýn yfir starfsemina og líðan starfsmanna og
búa yfir aga og festu en ekki stífni. Hér er fjallað aðeins um