Bókasafnið - 01.05.2012, Síða 46

Bókasafnið - 01.05.2012, Síða 46
46 bókasafnið 36. árg. 2012 í samræmi við Stefnuyfirlýsingu UNESCO/IFLA um skólasöfn (2003). Þar segir að sýnt hafi verið fram á að nemendur nái betri tökum á læsi, lestri, námi, verkefnum sem og upplýsinga- og samskiptatækni þegar bókasafns- og upplýsingafræðingar og kennarar vinna saman. Dr. Patricia Montiel-Overall hefur rannsakað samstarf kennara og bókasafns- og upplýsingafræðinga undanfarin ár. Fimm meginþemu komu fram og birtust sem nauðsynlegir þættir í árangursríku samstarfi. Þar má fyrst nefna skólamenningu, það umhverfi sem skólinn veitir og hvaða þættir skólastarfsins fá hvatningu. Í öðru lagi eru það jákvæðir eiginleikar og viðmót samstarfsaðilanna sem hafa áhrif á samstarfið og auðvelda það. Í þriðja lagi þurfa samskiptin að byggja á gagnkvæmu trausti. Í fjórða lagi er talað um stuðning og skipulagningu af hálfu skólastjórnenda varðandi skýr markmið, sveigjanleika í stundatöflu og skipulagningu samstarfstíma. Í fimmta lagi fundu þátttakendur hvatningu í því að sjá hvaða árangur samstarfið hafði á nemendurna. Það vakti athygli að þátttakendur gáfu í skyn að hægt væri að sigrast á tímaþættinum þrátt fyrir takmarkanir þegar samstarfið var mikils metið og spennandi. Þá kom fram að kennurum fannst helstu annmarkar varðandi samstarfið vera meðal annars litlar væntingar frá stjórnendum, lítið traust frá umhverfinu, of lítil viðurkenning á sérhæfingu fagaðila, ósveigjanlegar tímatöflur og skortur á faglegri þróun. Niðurstöðurnar sýndu einnig að aðaltilgangur samstarfs er að auka námsgæði fyrir nemendur (Montiel-Overall, 2008). Algengt er að kennarar hafi ekki enn öðlast skilning á nýju hlutverki bókasafns- og upplýsingafræðingsins sem samstarfsaðila í kennslunni og sjái þá enn í sínum gömlu hefðbundnu hlutverkum. Þeir hafi oft litla sem enga reynslu af samstarfi við þá (Montiel-Overall, 2010). Kennarar stæra sig oft af því að hafa ákveðið frelsi til kennslu og að þeir séu sérfróðir um sín málefni og hafi sjálfsforræði. Ef þeir stofna til samstarfs við bókasafns- og upplýsingafræðing gera þeir það vegna þess að þeir sjá að nálgun tveggja samstarfsaðila til kennslunnar er líklegri til árangurs. Samstarf kallar á gagnkvæmt traust og að báðir aðilar leggi eitthvað af mörkum. Bókasafns- og upplýsingafræðingar kvarta oft yfir því að kennarar skipuleggja ekki verkefni fram í tímann þannig að skólasafnið geti komið að raunverulegu gagni. Eins álíta margir kennarar að bókasafns- og upplýsingafræðingar hafi lítinn áhuga á því sem gerist í skólastofunni. Slíkar ályktanir eru algengar og leiða oftast til lítt notaðra skólasafna, vannýtts safnkosts, misnotaðrar tækni og skorts á gagnkvæmu trausti. Góðir hlutir gerast ekki sjálfkrafa. Báðir aðilar þurfa að vinna í að skipuleggja tímann og nýta tækifærin til að meta árangur allra sameiginlegra verkefna (Loertscher,1988). Bandarísk könnun á stuðningi skólastjóra við samstarf kennara og bókasafns- og upplýsingafræðinga leiddi í ljós að góðir skólastjórnendur leiðbeina kennurum varðandi hlutverk þeirra en þrátt fyrir hæfni kemur fyrir að þeir gera sér ekki grein fyrir þeim stuðningi sem nauðsynlegur er samstarfi af þessum toga. Forysta skólastjórans er nauðsynleg og það er á hans ábyrgð að fylgja því eftir að það sé framkvæmt. Góð samskipti og hagstætt vinnuumhverfi þar sem traust og gagnkvæm virðing ræður ríkjum tryggja árangur samstarfsins. Skólastjóri sem sér til þess að þessir tveir þættir fyrirfinnist innan skólans er líklegur til að uppskera blómlegt samstarf. Einnig eru meiri líkur á góðu samstarfi þegar skólastjóri spyr bekkjarkennara hvernig þeir nýti sér sérfræðikunnáttu bókasafns- og upplýsingafræðings við kennsluna (Morris og Packard, 2007). Á tímum erfiðra ákvarðana varðandi fjármál og þar sem allt er metið og mælt sýna bandarískar kannanir að vel útbúið bókasafn sem er mannað vel menntuðum bókasafns- og upplýsingafræðingum gefur mun hærri einkunnir í stöðluðum prófum. Eins og víðar hafa skólasöfn og starfsmenn sætt niðurskurði. Skortur á nýjum safnkosti svo sem tölvum og bókum háir skólasöfnum og starfi þeirra sem og skilningur á arðsemi þeirra (Martin, 2008). 2. Rannsóknaraðferðir, þátttakendur og gagnaöflun Markmið rannsóknarinnar var að skoða hlutverk skólasafnsins í upplýsingasamfélaginu og hvernig það tengist inn í skólastarfið. Rannsókninni er ætlað að sýna hvernig ný tækni og upplýsingaaðgengi nýtist bókasafns- og upplýsingafræðingum, fagaðilum í tölvum og almennum kennurum við kennslu í upplýsinga- og tæknimennt í gegnum samvinnu þeirra. Ennfremur hvort samvinnan gæti verið rétta leiðin við undirbúning og þjálfun nemenda fyrir nám og starf í framtíðinni, eflingu skólastarfsins innan frá, nýtingu mannauðs, tækja og fjármuna skólans. Rannsóknin byggir á eigindlegum rannsóknaraðferðum með opnum viðtölum þar sem litið er á fólk og aðstæður sem eina heild og sjónarhorn allra eru jafn mikilvæg. Við greiningu gagna var beitt aðferð sem kallast opin kóðun og felur í sér að safna saman og rannsaka öll gögn sem hafa þýðingu fyrir meginþemu, það er draga fram helstu efnisþætti og undirflokka sem skipta máli (Taylor og Bogdan, 1998). Tekin voru níu opin einstaklingsviðtöl til að fá heildstæðan og djúpan skilning á viðhorfi hvers viðmælanda fyrir sig á rannsóknarefninu. Markvisst úrtak var notað við val á viðmælendum í rannsókninni og þurftu viðmælendur að uppfylla ákveðin skilyrði (Ritchie, Lewis og Elam, 2003). Í rannsókninni leitaði ég eftir fagmenntuðu fólki, það er bókasafns- og upplýsingafræðingi og einstaklingi með menntun í tölvu- og upplýsingatækni eða ákveðna sérhæfingu á því sviði og almennum kennara. Einnig gerði ég þær kröfur að þeir hefðu samstarf sín á milli og störfuðu í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Þrjú viðtalanna voru við yfirmenn skólasafna, þrjú við fagaðila í tölvum og þrjú við almenna kennara. Allir viðmælendurnir voru konur sem koma að kennslu í upplýsinga- og tæknimennt í skólunum. Þar sem þeim var heitið fullum trúnaði voru þeim gefin dulnefni sem og skólunum sem þær starfa við. Í Bugðuskóla ræddi ég við þær Jóhönnu Elíasdóttur, bókasafns- og upplýsingafræðing, Þórdísi Önnu Káradóttur, kennsluráðgjafa í tölvum, og Unni Stefánsdóttur, kennara. Í Flugumýrarskóla ræddi ég við Svövu Tryggvadóttur, deildarstjóra, en hún hefur framhaldsmenntun á sviði skóla-

x

Bókasafnið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.