Bókasafnið - 01.05.2012, Qupperneq 48
48
bókasafnið 36. árg. 2012
Sveigjanleiki í starfsemi skólans er lykilatriði þegar kemur
að skipulagningu skólasafnsins. Stjórnendur þurfa að skapa
svigrúm fyrir samstarf og verkefnavinnu þegar stunda-
töflur starfsmanna og nemenda eru skipulagðar. Þá þurfa
starfsmenn einnig að sýna sveigjanleika til að samstarf
gangi upp. Sameining skólasafns og tölvuvers og fullt starf
bókasafns- og upplýsingafræðings og fagaðila í tölvum
skapa kjöraðstæður fyrir samstarf og aukna verkefnavinnu.
Aðstaða og búnaður skólasafns ræður afar miklu þegar
starfsemi skólasafns er skipulögð. Þættir eins og staðsetning,
stærð húsnæðis, mannafli, bókakostur, tölvur og annar
tæknibúnaður skipta máli. Viðmælendur voru allt frá því
að vera mjög ánægðir með safnið sitt niður í það að vera
þokkalega ánægðir. Bókakostur og tækjabúnaður safnanna
var yfirhöfuð góður en fer að þarfnast endurnýjunar. Það voru
helst húsnæðismál og mannafli sem þurfti að bæta.
5. Samstarf og samstarfsverkefni innan skólans
Samstarf bókasafns- og upplýsingafræðings, fagaðila í
tölvum og kennara byggist á samstarfsvilja, svipaðri sýn
á skólastarfið og stuðningi stjórnenda. Grundvöllur þess
er háður vilja stjórnenda, starfshlutfalli, samstarfsvilja og
þjónustulund. Ekki er víst að þessir þættir séu ávallt til staðar. Í
Bugðu- og Flugumýrarskóla er öflugt samstarf við kennara og
verkefnin skipulögð á sameiginlegum fundum. Tekið er mið
af námskrá upplýsinga- og tæknimenntar og hún samþætt
öðrum námsgreinum. Frumkvæði og hugmyndir koma oft frá
bókasafns- og upplýsingafræðingum og fagaðilum í tölvum
en lokaniðurstaða fæst með aðkomu kennara. Þó fá kennarar
stundum fullmótaðar verkefnislýsingar. Í Tunguskóla er
samstarfið skemur á veg komið. Þar kemur frumkvæði að
samstarfsverkefnum frá fagaðila í tölvum. Samstarfið hefur
þróast í tengslum við Evrópuverkefni og eru bundnar vonir
við að kennarar sjái sér áframhaldandi hag í því. Í öllum
skólunum er lögð áhersla á upplýsingaöflun og tölvufærni og
það ríkir ánægja með samstarfið. Þá kemur fram að viðamikil
verkefni væru vart gerleg nema með aðstoð frá bókasafns-
og upplýsingafræðingi og fagaðila í tölvum við undirbúning,
framkvæmd og framsetningu.
Hver samstarfsaðili gegnir ákveðnu hlutverki. Í Bugðu-
og Flugumýrarskóla er verkaskipting milli fagaðila skýr
hvað varðar upphaf, undirbúning og úrvinnslu og komin er
reynsla á hana. Í Tunguskóla tengist hún sérsviðum fagaðila.
Bókasafns- og upplýsingafræðingurinn leiðbeinir nemendum
við upplýsingaöflun, mat á heimildum og skráningu þeirra.
Fagaðilinn í tölvum leiðbeinir nemendum með forrit og
úrvinnslu verkefna. Kennarinn sér um kennsluna og sinnir
agamálum. Oft er nemendahópnum skipt upp á milli
kennara og bókasafns- og upplýsingafræðings og hvor aðili
sinnir ákveðnum verkefnum með sínum hópum. Sérstakar
aðstæður þurfa að vera til staðar í skólum og skólasöfnum
svo samstarf af þessum toga geti átt sér stað. Fram kemur að
það þurfi bæði bókasafns- og upplýsingafræðing og fagaðila
í tölvum í tvær heilar stöður eigi slíkt samstarf að vera gerlegt.
Þær ástæður sem eru nefndar fyrir samstarfi eru áhugi, svipuð
sýn á skólastarfið og ákveðin framtíðarsýn ásamt viðhorfi
og vilja til breytinga og löngun til að nýta mannaflann og
þekkingu starfsfólksins. Loks eru tölvurnar nefndar sem
áhrifavaldur og svipaður bakgrunnur hvað varðar nám og
reynslu samstarfsaðila.
Allir viðmælendurnir voru sammála um ótvíræðan
ávinning af samstarfi þeirra í skólunum, bæði fyrir starfsmenn
og nemendur. Þeir sáu gróskumikið skólastarf, breytta
kennsluhætti og fjölbreyttari úrvinnslu námsefnis. Nemendur
urðu hæfari og lærðu að búa til vefsíður, glærukynningar,
framkvæma upplýsingaleit og ganga frá heimildum. Þá
öðluðust þeir öryggi og lærðu sjálfstæð vinnubrögð.
Samstarfið létti undir með kennurum og nemendur fengu
betri aðgang að fagmönnum, bókakosti og tölvum.
6. Samantekt og umræður
Í þeim skólum sem rannsakaðir voru hefur hlutverk skólasafna
verið að breytast. Það er í samræmi við það sem Kuhlthau
(2010) nefnir í sinni grein en þar kemur fram að þróun
skólasafna þurfi að fylgja breytingum varðandi menntun
á upplýsingaöld. Rannsókn mín leiðir í ljós að hefðbundin
útlánastarfsemi bókakosts er ekki lengur aðalatriðið en í
staðinn hefur upplýsingaöflun, verkefnavinna og samstarf við
kennara og fagaðila í tölvum að sama skapi aukist. Niðurstöður
rannsóknarinnar sýna að tilurð samstarfs af þessum toga er
algjörlega undir starfsmönnum skólans og skólastjórnendum
komið, þar sem skólar hafa jafnan ekki markað stefnu um
slíkt samstarf. Í grein Morris og Packard (2007) staðfestu
niðurstöður könnunar þeirra að góður árangur af samstarfi
tengdist stuðningi skólastjórnenda og eftirfylgni þeirra við
framkvæmd þess.
Viðmælendur mínir töldu að skólastjórnendur þyrftu
að skapa rammann utan um starf hvers skóla og jafnframt
sýna ákveðinn sveigjanleika varðandi bindingu vinnutíma
og stundaskrárgerð til að skapa svigrúm fyrir samstarf og
verkefnavinnu. Í áðurnefndri rannsókn Montiel-Overall
(2008) komu fram fimm meginþemu til árangursríks
samstafs. Þau samræmast skoðunum viðmælenda minna um
jákvætt viðhorf, stuðning og vilja stjórnenda til að viðhalda
starfsemi safnanna. Sá stuðningur er enn mikilvægari í
efnahagsþrengingum. Í Bandaríkjunum hafa skólasöfn einnig
sætt fjárhagslegum niðurskurði.
Enn verri er sá skortur á skilningi hjá kennurum,
skólastjórnendum og foreldrum á því hversu arðbært gott
skólasafn getur verið sé það metið í námsárangri nemenda
(Martin, 2008). Þetta kemur heim og saman við mína
rannsókn. Skólastjórnendur þurfa að gera sér grein fyrir
mikilvægi safnanna og þeim tækifærum sem í þeim felast.
Mikilvægt er að bókasafns- og upplýsingafræðingur og
fagaðili í tölvum séu í fullu starfi. Þá þurfa skólastjórnendur
að sýna samstarfsverkefnum áhuga og hvetja til þeirra.
Starfsmennirnir verða að hafa samstarfsáhuga, svipaða sýn á
skólastarfið og sýna sveigjanleika innan vinnutímans til þess
að samstarfið gangi upp. Þeir verða að sjá samstarfið sem
hluta af stefnumótun skólans og tilgangur þess og árangur