Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2009, Síða 21
20 ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS
þetta sé aðeins tilgáta og til frekari athugunar.27 Ekki er hægt að útiloka að
Þorkell prestur Arngrímsson hafi haldið um meitil þegar Garðasteinarnir
voru höggnir þótt ýmsum finnist ólíklegt við fyrstu hugsun. Þess ber að
geta að á Útskálum og í Görðum er að finna steina sem bera svo sterk
höfundareinkenni steinsmiðsins í Görðum að stappar nærri fullri vissu að
þeir séu eftir hann. Þeir eru þó settir einstaklingum sem létust eftir lát síra
Þorkels árið 1677; Guðnýju Hjaltadóttur (d. 1680) á Útskálum, Vilborgu
Sigurðardóttur í Görðum (d. 1680) og Einari Einarssyni (d. 1690) og konu
hans Þóru Torfadóttur (d. 1691) í Görðum. Mögulegt er þó að síra Þorkell
hafi gert steinana þegar þessir einstaklingar voru lífs og dánarár þeirra
meitlað á steinana síðar. Það gæti stutt þetta álit að greina má nokkurn
mun á gerð tölustafanna á þessum steinum og þeirra sem eru á öðrum
Garðasteinum, sem rúmast í tíma með ævi síra Þorkels. Þá eru og til tveir
steinar úr Arnarbæliskirkjugarði sem falla einnig utan við vegferðartíma
síra Þorkels. Þeir hafa verið taldir til Garðasteina og bera einkenni þeirra
þó þeir séu sérstæðir í nokkrum atriðum. Steinarnir tveir, sem varðveittir
eru á Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka, hafa ekki verið rannsakaðir til
hlítar og verður því ekki skorið úr um uppruna þeirra hér28 en sjálfsagt
að setja á blað fáeinar hugrenningar.
Þegar kannaðar eru ættir þeirra sem Garðasteinarnir eru settir, inn-
byrðis tengsl sem og tengsl þeirra við Garða, kemur ýmislegt í ljós.
Björn Th. Björnsson hefur skrifað um legstein síra Þórðar Þorleifssonar
(d. 1676) sem er í Þingvallakirkjugarði. Þar gerir hann tilraun til að
skjóta frekari stoðum undir kenningu sína um síra Þorkel sem stein-
smiðinn mikla í Görðum. Eftir lát síra Þórðar tekur við staðar ráðum á
Þingvöllum síra Árni Þorvarðsson (d. 1702). Björn segir í grein sinni:
En nú hagar „ættanna kynlega bland“ því svo til, að séra Árni á að
eiginkonu Guðrúnu, dóttur séra Þorkels Arngríms sonar í Görðum.
Ekki er ólíklegt að ekkja séra Þórðar Þorleifssonar hafi setið náðar-
árið sitt á Þingvöllum, sambýlis við Guðrúnu frá Görðum, og fer
þá steinninn að falla rétt í grópina. Hvað er lík legra en að séra
Árni hafi viljað gera ósk ekkjunnar og efna til minningarmarks
yfir eiginmann hennar og forvera sinn? Og hvað liggur þá beinna
við en að hann leiti til tengdaföður síns, steinhöggvarans mikla í
Görðum, um slíkt hagleiksverk? Að vísu eru líkindi ekki sama og
sönnun, en í þessu efni bregðast svo margir þættir í einn og sama
hnútinn, að fullriðinn má kalla.29