Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2009, Page 66
„ALLTAF VAR ÞAR EITTHVAÐ SEM HÖFÐAÐI TIL FÓLKSINS“ 65
og Fríkirkjunni í Reykjavík með þeim af leiðingum að rangri jarðarför
var útvarpað. Í annað skipti var byrjað að senda út frá Fríkirkjunni en
ekkert heyrðist. Það var eftir að tæknin var komin á það stig að ekki
þurfti annað en að ýta á handfang í höfuðstöðvum Ríkisútvarpsins. Ók
þá annar tæknimaðurinn í loftköstum á staðinn og gaf þessi skilaboð
þegar þangað kom: „Það er varla von að neitt heyrist héðan, hér er
ekkert lík.“133
Þegar kom fram á síðari hluta 20. aldar hefði mátt ætla að útvarps-
jarðarförum færi fækkandi vegna bættra samganga. Svo var ekki, þess
í stað fór þeim verulega fjölgandi, eða úr 71 árið 1945 í 132 árið 1955,
eða um 86%, svo dæmi sé tekið. Á þessu geta verið ýmsar skýringar.
Í fyrsta lagi að fólksf lutningar til höfuðborgarsvæðisins hafi aukist
mikið á framangreindu tímabili. Við skoðun á hagtölum kemur í ljós
að íbúum í Reykjavík fjölgaði um 37% á þessum tíma.134 Fjölgun
Reykvíkinga skýrir því ekki nema að hluta þá miklu aukningu sem
varð á útvarpsjarðarförum. Í öðru lagi gæti verið um aukna dánartíðni
að ræða. Svo er þó líklega ekki þar sem fylgni virðist ekki vera á milli
aukningar útvarpsjarðarfara og dánartíðni í Reykjavík. Hér er að vísu
ekki um fyllilega marktækan samanburð að ræða þar sem tölur um
látna eru fimm ára meðaltöl fram til 1950 en eftir það rauntölur með
sama millibili.135 Eigi að síður ætti þetta að gefa ákveðna vísbendingu.
Væntanlega er því hluti af skýringunni af félagslegum toga. Í þessu
sambandi er vert að geta að fjöldi útfara hélst nálega óbreyttur frá 1955-
1966 þrátt fyrir hækkandi dánartölur.
Það má velta fyrir sér hvort útvarpsjarðarfarir hafi á vissan hátt orðið
að ákveðinni hefð án tillits til æsku- og uppeldisstöðva hins látna. Með
öðrum orðum að með því að útvarpa athöfninni væri í sumum tilfellum
eingöngu verið að sýna hinum látna virðingu og heiðra minningu hans,
eins og við átti um þjóðkunnar persónur. Ennfremur gæti útvarp á
jarðarförum hafa þótt fínt, þ.e. þróast yfir í nokkurs konar stöðutákn
hjá einhverjum hluta fólks og jafnframt vitnað um góðan efnahag.
Þá kunna útfarirnar að hafa skapað tiltekna samkennd og verið beinn
eða óbeinn huggari, því stærra baklandið þeim mun betra, að ekki sé
talað um alla þjóðina. Þetta endurspeglar jafnframt smæð þjóðfélagsins.
Útfarirnar sýna að vissu leyti einnig þá fábreytni og einangrun sem hér
var víða við lýði á fyrstu áratugum útvarpsins.
Staða, kynferði og landsbyggðartengsl
Úr hvaða stéttum eða starfshópum var það fólk sem fékk jarðarförum