Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2009, Page 160
HVERNIG BYGGÐIST YTRIHREPPUR? 159
Másstöðum sem Landnáma segir bústaði landnámsmanna. Prestskyld
kirkja var líka á landnámsbænum Hólum og einnig í Tungufelli, stærstu
jörðinni í landnámi því sem Landnáma eignar Haukadalsmönnum.
Engar heimildir eru um að afkomendur landnámsmannanna Más
og Bröndólfs hafi búið á landnámsbæjum þeirra eða annars staðar í
Ytrihrepp. Landnáma nefnir einn son Bjarna spaka í Gröf, Skeggja
föður Markúsar lögsögumanns 1084-1107. Til gamans má geta þess til
að móðir Skeggja Bjarnasonar hafi verið systir Hjalta Skeggjasonar sem
samkvæmt Landnámu var fjórði ættliður frá Mávi.81 Bjarni hefði þannig
getað komist að Gröf vegna mægða við ætt Más landnámsmanns en
Landnáma rekur ekki ætt frá honum í beinan karllegg.82 Og ættfærsla
foreldra Bjarna spaka bendir til annarra heimkynna þeirra.83 Þessar
ágiskuðu tengdir Bjarna við afkomendur Más koma ágætlega heim við
tímatal, Bjarni og Hjalti Skeggjason munu hafa verið á líkum aldri.
Áður hefur verið minnst á að Ari fróði muni hafa komið að samantekt
Land námu. Hann ólst upp í Haukadal á efri árum Halls Þórarinssonar
sem þar bjó lengi og var talinn fimmti ættliður frá landnámsmanninum
Bröndólfi á Berghyl.84 Óvíst er hvar Þórarinn faðir Halls bjó en bent
hefur verið á að staða-bæir séu ekki alltaf kenndir við landnámsmenn
sjálfa heldur afkomendur þeirra í fyrsta, annan, þriðja eða jafnvel fjórða
lið.85 Þórarinsstaðir í Ytrihrepp væru hugsanlega kenndir við þennan
Þórarin, fjórða ættlið í beinan karllegg frá Bröndólfi landnámsmanni.
Þórarinn hefði þá líklega búið á landnámsjörðinni Reykjadal en haft
nytjar af Þórarinsstöðum. Hallur í Haukadal hefði þá að líkindum alist
upp í Reykjadal og verið kunnugt um landamerki nálægra jarða, svo
og örnefnin Ingjaldshnúkur og Gylðarhagi sem landnám Haukadalsmanna
í Ytrihrepp var miðað við. Staðþekkingin sem þar kemur fram í
Landnámu hefði þá getað verið frá Halli komin.
Um bæjanöfnin
Flest bæjanöfn í Ytrihrepp eru náttúrunöfn, þau eru dregin af landslagi
eða nálægum náttúrufyrirbærum. Nöfn samtals 12 gamalla lögbýla
í hreppnum hafa endinguna -holt eða -fell sem vísar til eins af helstu
einkennum landslags í uppsveitum Suðurlands. Hans Kuhn taldi mik -
inn hluta slíkra nafna hafa í upphafi verið það sem hann kallar „legu-
lýsingar“ en bæjum hafi almennt ekki verið gefin eiginleg nöfn í
öndverðu.86 Mörg dæmi eru um slíkt í fornritum, t.d. bærinn „undir
Þríhyrningi“ í Njálu. Þar kemur líka við sögu bærinn „undir Felli“ á
Meðalfellsströnd87 sem seinna varð kirkjustaður, Staður undir Felli, nú
Staðarfell. Hliðstætt nafn er Staðarhraun sem áður hét Staður undir Hrauni,