Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.2009, Blaðsíða 180
SJÁLFSMYND JÖRUNDAR HUNDADAGAKONUNGS? 179
Jürgensen (1785-1843) konunglegs úrsmiðs í Kaupmannahöfn og þar
með bróðursonur Jörundar. Jörundur var því afabróðir Christian Nees,
sem Sigríður fékk myndina hjá. Niðurstaða Halldórs var eftir sem áður
að virða upprunasögu myndarinnar og nafnsetningu hennar. Það er að
hún væri af Jörundi og vó þar þungt að Matthías Þórðarson hefði ekki
borið brigður á frásögnina.
Þegar þeim Jørn og Lesley hafði verið sögð upprunasaga myndarinnar
bentu þeir á nokkra hnökra í frásögninni.3 Þar ber fyrst til að Jörundur
átti aldrei afturkvæmt til Danmerkur eftir Íslandsdvölina, en var
f luttur til Englands, þar sem hann sat í fangelsi og var síðan sendur til
Tasmaníu. Myndin gæti því ekki verið máluð af Jörundi í Danmörku
þó að hún hefði getað borist þangað því að Jörundur skrifaðist á við
Fritz bróður sinn. Jörundur var að sönnu drátthagur og gerði myndir,
sumar þeirra eru líka skopmyndir, en það eru hins vegar allt teikningar.
Yfir 200 mynda hans hafa varðveist en ekki er vitað til að hann hafi
fengist neitt við að mála.
Þessir annmarkar á frásögninni urðu til þess að Jørn velti fyrir sér
hvort upprunaleg ættfærsla Sigríðar um móðurbróður Christians Nees
væri ekki rétt og að myndin væri eftir Fritz Jürgensen, bróðurson
Jörundar. Fritz var frægur teiknari og málari á sinni tíð og er talinn
fyrsti skopteiknari hversdagslífsins í Kaupmannahöfn. Hans þekktasta
verk er teikniserían Gyssebogen, sem hann gerði árið 1843, fyrir systur-
son sinn Christian, sem kallaður var Gysse, og bókin er kennd við.
Claus Bjerring rithöfundur og málari hefur rannsakað teikningar
Fritz um árabil og gaf út bók um þær árið 1999.4 Jørn sýndi Bjerring
ljósmynd af sjálfsmynd Jörundar og hann vísaði þegar til eldri bókar um
Fritz frá árinu 1897 eftir Nicolai Bøgh.5 Þar birtust 160 teikningar auk
bréfa og málverka eftir Fritz. Nú rúmri öld síðar er ekki vitað nema
hvar hluti þeirra mynda er niðurkominn. Í þessari bók birtist meint
sjálfs mynd Jörundar og henni fylgdi saga sem er á þessa leið.
Á árunum 1858-1859 bjó Fritz í Helsingør og myndaði þar klúbb
ásamt nokkrum vinum sínum og félögum, sem þeir nefndu Republikken
eða Lýðveldið eftir samnefndu skopriti, sem þeir héldu úti vikulega
innan hópsins en fóru leynt með. Ekki mun það þó hafa verið vegna
þess að þeir væru raunverulegir lýðveldissinnar heldur vegna þess að
þetta voru galgopaleg skrif með gamanmálum um félaga hópsins. Einn
þeirra var póstmeistari að nafni Testman frá Lütjenburg. Jørn telur að
það geti verið Peder Otto Testman (1806-1890) faðir Caroline Testman,
frægrar danskrar kvenréttindakonu.6 Fritz hefur líka málað og teiknað