Dagblaðið Vísir - DV - 01.10.2010, Blaðsíða 14
14 fréttir 1. október 2010 föstudagur
Bandaríski prófessorinn Noam
Chomsky flutti myndfyrirlestur,
sem sýndur var í Háskólabíói í gegn-
um netið, á þriðjudaginn. Chomsky
ræddi í fyrirlestrinum um heims-
kreppuna og þær ógnir sem steðja
að vestrænum heimi. Fyrirlestur
Chomskys var hluti af kvikmynda-
hátíðinni RIFF, en hann er sjálfur
væntanlegur til landsins á næsta
ári. Í fyrirlestrinum sagði Chomsky
að Ísland væri öfgakennt dæmi um
bresti og innbyggða veikleika hins
vestræna kerfis.
Obama tryggði annað hrun
Noam Chomsky er prófessor í
heimspeki og málvísindum við
MIT-háskóla í Bandaríkjunum.
Hann er hins vegar þekktastur fyr-
ir að hafa skrifað fjölda bóka og
haldið fyrirlestra um heimskerfið
og um umsvif bandaríska heims-
veldisins. Chomsky hefur haldið
uppi gagnrýni á vestrænt mark-
aðshagkerfi og í fyrirlestrinum í
Háskólabíóí sagði hann að vest-
rænt efnahagskerfi væri í raun
byggt á sandi.
Chomsky sagði að Barack
Obama, forseti Bandaríkjanna,
hefði með aðgerðum sínum í kjöl-
far bankahrunsins, tryggt að annað
hrun og önnur kreppa myndu líta
dagsins ljós í framtíðinni. Obama
er fulltrúi fjármagnseigenda á Wall
Street. Það sést best þegar skoðað
er hverjir styrktu hann mest í kosn-
ingabaráttunni. Enda hafi það verið
hans fyrsta verk að bjarga fjármála-
fyrirtækjum, þegar hann var kjörinn
forseti. Obama hefði ráðið marga af
helstu gerendum bankahrunsins í
ráðgjafateymi sitt en sleppt því að
ráða mikilsvirta hagfræðinga. Að-
gerðir hans til bjargar bandarísku
efnahagslífi hafi aðeins falið í sér að
hann setti plástur á sárin, en breytti
engu í kerfinu sjálfu. Það haldi því
áfram að virka eins og það hefur
gert síðustu áratugi, með bólum og
kreppum. Stjórnendur banka og
fjármálafyrirtækja vissu líka að þeir
væru of stórir til þess að falla og því
myndi ríkisvaldið nærri því alltaf
bjarga þeim þegar stefndi í óefni.
Galli í markaðskerfi
Chomsky vék að því í fyrirlestri sín-
um að innbyggður galli væri í vest-
rænu markaðshagkerfi. Gallinn
felst í því að stjórnendur og aðrir
sem taka ákvarðanir á markaðnum,
þurfi alltaf að hugsa um skamm-
tímagróða. Flestar ákvarðanir
teknar í markaðskerfi væru tekn-
ar með skammtímasjónarmið að
leiðarljósi. Ef þeir einbeiti sér ekki
að skammtímahagnaði, fari þeir
á hausinn og aðrir komi í staðinn
fyrir þá á markaði. Þetta stanslausa
skammtímakapphlaup geri það að
verkum að þessir sömu stjórnend-
ur ná ekki að hugsa um ytri þætti
á borð við náungann, umhverfið,
framtíðina og fleira. Þessir þættir
hafi mikil áhrif í stóra samhenginu.
Þessa innbyggðu áhættu hundsaði
Barack Obama og ef ekkert breytist
er annað hrun óumflýjanlegt, sagði
Chomsky.
Hann lýsti einnig áhyggjum sín-
um af ástandinu í Bandaríkjunum
nú í kjölfar efnahagskreppunnar.
Hann sagði ástandið minna sig um
margt á ástandið í Þýskalandi þeg-
ar Weimar-lýðveldið var að renna
sitt skeið og Adolf Hitler var að
komast til áhrifa. Það megi merkja
í uppgangi öfgaafla í Evrópu og
í Bandaríkjunum, á borð við Te-
boðshreyfinguna. Hægrisinnaður
áróður væri ríkjandi í fjölmiðlaum-
ræðunni.
Umhverfisvernd strandar
Hann talaði einnig um hvernig há-
leit markmið um breytta stefnu í
umhverfisverndarmálum strandi
alltaf á endanum af sömu ástæð-
um og markaðshagkerfi hrynja.
Þjóðir heims keppi á markaði
og það bitni verulega á skamm-
tímagróða þeirra að draga úr los-
un gróðurhúsalofttegunda. Þjóðir
heims vilji því ekki framfylgja raun-
verulegum langtímaáætlunum um
losun gróðurhúsalofttegunda, þar
sem það skaði hagsmuni þeirra.
Nýju ofurveldin Kína og Indland,
hafi einnig verið óliðleg og bent á
að loftslagsbreytingar í heiminum
síðustu áratugi væru ekki af þeirra
völdum, heldur væru þær vestræn-
um þjóðum að kenna. Þess vegna
eigi þeir ekki að þurfa að draga jafn
mikið úr losuninni og Bandaríkin.
Kaupmannahafnarráðstefnan um
loftslagsmál hafi því misheppnast
hrapalega.
Chomsky nefndi annað dæmi í
fyrirlestri sínum um hvernig um-
ræðunni um loftslagsmál sé drep-
ið á dreif í stóru fjölmiðlunum í
Bandaríkjunum. Þannig birtist
reglulega greinar í New York Tim-
es þar sem rætt var við vísinda-
mann sem tilheyrir þeim hópi 98
prósenta vísindamanna í heimin-
um sem telja að hlýnun jarðar sé af
mannavöldum. Vísindamanninum
sé hins vegar jafnan stillt upp gegn
vísindamanni sem dregur það í efa,
líkt og það væru tvö jafn algeng og
viðtekin sjónarmið.
Vísindi misnotuð
Þess ber að geta að fyrirlestur-
inn sjálfur var nokkuð klaufaleg-
ur í framkvæmd. Chomsky tal-
aði í gegnum vefmyndavél og var
myndinni svo varpað á bíótjaldið.
Hvorki hljóð- né myndgæði voru
sérlega góð. Salur 2 í Háskólabíói
var þéttfullur. Í eitt skiptið rofn-
aði sambandið við Chomsky eft-
ir að villuboð komu upp á skjá-
inn. Enskumælandi fundarstjóri
gantaðist þá með að stjórnend-
ur Landsbankans eða bandarísku
leyniþjónustunnar hefðu rofið út-
sendinguna.
Áhorfendur áttu svo að fá tæki-
færi til þess að spyrja Chomsky
spurninga úr sal, en það fyrir-
komulag gekk ekki snurðulaust
fyrir sig. Aðeins var tími fyrir eina
spurningu. Chomsky var spurður
hvort hann teldi að við gerð nýrr-
ar stjórnarskrár á Íslandi, ætti að
vera í henni ákvæði um að ákvarð-
anir væru teknar á vísindalegum
forsendum. Virðing fyrir vísind-
um væri því skjalfest í stjórnar-
skrá. Hann svaraði því til að það
væri ekki óskynsamlegt. Hins vegar
þyrfti að hafa í huga að hægt væri
að misnota vísindin í áróðursskyni
og það væri ekki sama hvaðan þau
kæmu.
Fundarstjórinn lauk fyrirlestr-
inum með því að leggja til við
Chomsky að hann boðaði til úti-
fundar á Þingvöllum þegar hann
kæmi til landsins á næsta ári. Hann
tók ágætlega í þá hugmynd.
NÆSTA HRUN ER
ÓUMFLÝJANLEGT
Bandaríski prófessorinn Noam Chomsky flutti fyrirlestur í gegnum netið í Háskólabíói á þriðjudaginn.
Chomsky sagði Ísland öfgakennt dæmi um innbygða veikleika vestræns kerfis. Hann sagði öruggt að önnur
kreppa skylli á, því Barack Obama gerði ekkert til að breyta kerfinu heldur bjargaði aðeins fjármagnseig-
endum. Innbyggður galli í markaðskerfi gerir það að verkum að menn huga ekki að langtímamarkmiðum.
ValGeir örN raGNarssON
blaðamaður skrifar: valgeir@dv.is
Hann sagði ástandið minna
sig um margt á ástand-
ið í Þýskalandi þeg-
ar Weimar-lýðveldið
var að renna sitt skeið
og Adolf Hitler var að
komast til áhrifa.
Noam Chomsky SegirÍslandveraöfga-
kenntdæmiumbrestivestrænskerfis.
MyNd/reUters