Dagblaðið Vísir - DV - 22.11.2010, Síða 22
22 sviðsljós 22. nóvember 2010 mánudagur
Einn vinsælasti piparsveinn Evrópu er genginn út. Vilhjálmur Bretaprins mun giftast kærustunni sinni, Kate Middle- ton, á næsta ári. William Arthur Philip
Louis Windsor fæddist 21. júní 1982. Hann er
eldri sonur Díönu prinsessu og Karls Bretaprins
og því annar, á eftir föður sínum, í röðinni að
krúnunni, og mun ganga að eiga heitkonu sína
í London næsta sumar en hjónakornin munu
búa í Wales. Í viðtali við fjölmiðla sagðist parið
afar hamingjusamt en prinsinn bað um hönd
Kate þegar þau voru í sumarfríi í Kenía í októ-
ber. Kate segir bónorðið hafa komið sér á óvart
en hún gengur nú með trúlofunarhring Díönu
prinsessu heitinnar. Hringurinn var í eigu Harry,
bróður Vilhjálms, sem samþykkti að láta hann af
hendi þar sem hann þykir fara vel á fingri hinnar
verðandi drottningar. Samkvæmt bresku press-
unni vildi Vilhjálmur nota hring Díönu til að sjá
til þess að móðir hans tæki þátt í þessum gleði-
lega atburði.
Kynntust í námi
Fjölmiðlar komust á snoðir um samband Vil-
hjálms og Kate þegar þau voru mynduð á skíðum
saman ásamt Karli krónprins í Sviss árið 2005.
Vilhjálmur og Kate, sem eru bæði 28 ára, kynnt-
ust árið 2001 þegar þau voru saman í listasögu-
námi við St. Andrews-háskólann en prinsinn
skipti síðar yfir í landafræði. Það var því nám-
ið og sameiginlegur vinahópur sem leiddi þau
saman en Kate og Vilhjálmur voru góðir vinir
um árabil áður en þau fóru að rugla saman reyt-
um. Samkvæmt bresku pressunni gekk Vilhjálmi
ekki sem skyldi fyrsta árið í St. Andrews en það
var Kate, sem er sex mánuðum eldri en hann,
sem tókst að sannfæra hann um að halda áfram.
Í fjögur ár bjuggu þau saman sem vinir, ásamt
öðrum bekkjarfélögum, en talið er að prinsinn
hafi verið farinn að ganga með grasið í skónum
á eftir henni í mars 2002. Þá bárust fréttir af hon-
um á tískusýningu þar sem Kate var ein af fyrir-
sætunum. Árið 2005 útskrifuðust þau saman og
héldu upp á áfangann með sameiginlegum há-
degisverði ásamt fjölskyldum sínum.
Óþægileg athygli fjölmiðla
Kate hefur verið uppáhaldsumfjöllunarefni
bresku pressunnar síðan upp komst um sam-
band hennar við prinsinn. Ólíkt unnustanum
er hún óvön fjölmiðlaathyglinni sem hefur verið
gífurleg enda þykir breska pressan ein sú óvægn-
asta í heimi. Sjálfur þekkir Vilhjálmur ekki annað
en að lifa í sviðljósinu þótt hann hafi viðurkennt
að sér þyki athyglin óþægileg. Skilnaður foreldra
hans, 1996 og svo hinn sorglegi dauðdagi móður
hans ári seinna, og fjölmiðlasirkusinn í kjölfarið,
höfðu mikil áhrif á unga prinsinn. Með tíman-
um hefur honum tekist að byggja upp jákvæðara
samband milli sín og fjölmiðla og birtist þá sem
kurteis, ábyrgðarfullur og þroskaður ungur mað-
ur sem þekkir skyldur sínar sem framtíðarkon-
ungur Bretlands.
Fjölmiðlasirkusinn ágerist
Árið 2005 gat Kate ekki látið sjá sig á almanna-
færi án þess að verða fyrir barðinu á her uppá-
þrengjandi ljósmyndara. Þegar myndir af henni
í strætó birtust í blöðunum var lögfræðingum
hennar nóg boðið og miðlað var til fjölmiðla
orðsendingu um að vinsamlegast virða einkalíf
hennar. Í desember 2006 kom hún í fyrsta skipt-
ið fram opinberlega með konungsfjölskyldunni
þegar hún og móðir hennar mættu á athöfn
Sandhurst-háskólans til að fylgjast með vígslu
Vilhjálms til þjónustu í breska hernum. Sögu-
sagnir um bónorð gengu svo fjöllum hærra þeg-
ar hún hélt upp á 25 ára afmælið sitt í janúar
2007 sem varð til þess að ljósmyndarar eltu par-
ið enn frekar. Lætin urðu svo mikil að þau þóttu
helst minna á fjölmiðlasirkusinn sem leiddi til
dauða Díönu prinsessu eftir bílaeltingaleik í Par-
ís árið 1997. Síðar um árið sleit parið tímabundið
sambandi og kenndu margir ágengni fjölmiðla
um. Pressan lét sér ekki segjast og í stað þess að
birta eldheitar fréttir af ástarsambandi þeirra
tóku við neikvæðar fréttir af fjölskyldu Kate.
Þeirra á meðal var sú frásögn að móðir hennar
hefði tuggið tyggjó í gríð og erg þegar hún mætti í
vígsluathöfn Vilhjálms þegar hann var gerður að
hermanni en hún á einnig að hafa notað orðin
„klósett“ og „ha?“ fyrir framan drottninguna við
sama tækifæri en slíkt tal þykir ekki nógu virðu-
legt innan konungsfjölskyldunnar. Parið neitaði
að hafa tekið upp þráðinn að nýju þegar til þeirra
sást á minningartónleikum um Díönu prinsessu
í júní 2007 en fljótlega var ekki um að villast. Ást-
in hafði tekið sig upp að nýju hjá unga parinu.
Vinsæl og gáfuð
Vilhjálmur er prins nýrra tíma og val hans á eig-
inkonu þykir undirstrika það. Ólíkt fyrri prins-
essum er Kate Middleton af almúgafólki komin
og hefur engar tengingar inn í bresku krúnuna
eða aðrar evrópskar konungsfjölskyldur. Kate
er elsta barn kaupsýslumannsins Michaels
Middle tons og Carole konu hans, sem er fyrr-
verandi flugfreyja. Hún ólst upp í nútímalegu
fimm herbergja einbýlishúsi í Berkshire við
Buckelbury en fjölskyldan efnaðist gífurlega á
póstburðarfyrirtæki og fyrirtæki sem selur dót
til skemmtanahalds. Systkini Kate eru Pippa,
25 ára, sem starfar í fyrirtæki foreldar sinna en
Pippa toppaði lista tímaritsins Tatler yfir „200
coolest kids in town“ sem gefinn var út árið
2008. Bróðir Kate, James, sem er 21 árs, hefur
einnig náð langt í lífinu en þrátt fyrir ungan ald-
ur rekur hann sitt eigið bakarí. Kate var í heima-
vistarskólanum Marlborough College í Wilts-
hire þar sem sagan segir að hún hafi haft mynd
af prinsinum uppi á vegg. Skólafélagar henn-
ar frá þeim tíma lýsa henni sem jarðbundinni,
vinsælli og klárri stúlku. Fyrrverandi skólasystir
hennar, Charlie Leslie, lýsir henni svo: „Kate er
einfaldlega frábær stelpa – mjög vinsæl, gáfuð,
með mikla sköpunarhæfileika og góð í íþróttum.
Hún var fyrirliði hokkíliðsins og spilaði tennis.“
Annar fyrrverandi bekkjarfélagi tekur í svipað-
an streng: „Ég held að það sé ekki hægt að finna
neinn í Marlborough sem myndi tala illa um
Kate.“
Fetar ekki í fótspor föður síns
Ævintýralegu brúðkaupi Karls Bretaprins og Dí-
önu prinsessu árið 1981 fylgdi þvílíkt æði fjöl-
miðla og almennings að það minnti einna helst
á Bítlaæðið. Fréttir af hinni ungu fallegu Díönu
og ævintýraprinsi hennar þóttu kærkomin til-
breyting frá fréttaflutningi af mótmælum og at-
vinnuleysi sem einkenndi þann tíma. Mikið var
skrifað um brúðkaupið en lítið um þær áskoran-
ir sem biðu hinnar tvítugu prinsessu og 32 ára
prins, sem þegar að var gáð, virtust ekki eiga
neitt sameiginlegt. Ungu bjónin voru pússuð
saman aðeins nokkrum mánuðum eftir að þau
kynntust og vandræði þeirra líklega hafin áður
en þau komust upp að altarinu. Bónorð Vil-
hjálms veitir að sama skapi kærkomið hlé frá
neikvæðum fréttum af efnahagsvandamálum
Bretlands í dag en aðferð Vilhjálms er þó önn-
ur en föður hans. Honum virðist ekkert liggja
á enda hafði hann þekkt Kate í átta ár áður en
hann spurði stóru spurningarinnar. Faðir hans
hefur gert grín að hinum langa aðdraganda
bónorðsins og lét hafa eftir sér „að fyrr hefði
mátt vera.“
Þeir sem til parsins þekkja telja ólíklegt að
þau muni feta fótspor Karls og Díönu og skilja.
Bæði því þau hafi þekkst svo lengi og einnig
hljóti þau nú þegar að þekkja kosti og galla hvors
annars, og þar sem þau taki bæði hlutverk sitt
alvarlega og þótt ágreiningsmál komi upp muni
þeim takast að yfirstíga erfiðleikana. Ef svo ólík-
lega vilji til að ástin fuðri upp geti þau líka alltaf
haldið áfram að vera vinir.
„Waity Katie“
Kate starfaði um tíma fyrir tískufyrirtækið Jigsaw
í Kew en gaf starfið upp á bátinn þegar hún byrj-
aði með prinsinum. Um tíma virtist sem Kate
vissi ekki í hvorn fótinn hún ætti að stíga varð-
andi starfsframa og málið þótt hið vandræða-
legasta fyrir konungsfjölskylduna. Eitt er víst
að gagnrýnendur krúnunnar eiga síst auðvelt
með að fyrirgefa atvinnuleysi og framtaksleysi
tvítugrar verðandi prinsessu sem vill helst eyða
sínum tíma í að versla og mæta í veislur og partí.
Eftir að pressan fór að kalla hana „Waity Katie“,
þar sem hún þótti full aðgerðarlaus á meðan
hún beið eftir stóru spurningunni frá ríkisarfan-
um, tók Kate sig til og fór aftur að starfa í fyrir-
tæki foreldra sinna en á heimasíðu fyrirtækisins
er einmitt hægt að finna mynd af henni.
Ánægja innan fjölskyldunnar
Bæði breska konungsfjölskyldan, með þau Karl
Bretaprins og Elísabetu drottingu í fararbroddi,
og fjölskylda Kate eru sögð alsæl með ráðahag-
inn og sömu sögu er að segja af forsætisráðherra
Bretlands, David Cameron. „Við höfum feng-
ið að kynnast Vilhjálmi og erum öll afskaplega
hrifin af honum. Við gætum ekki verið ánægð-
ari,“ sögðu foreldrar verðandi prinsessu, Michael
og Carole, en Vilhjálmur bað Michael um hönd
dóttur sinnar áður en hann bað Kate. „Þau Kate
mynda fallegt par sem er skemmtilegt að vera í
kringum og við hlæjum mikið saman. Við óskum
þeim alls hins besta í framtíðinni.“ Harry prins,
yngri bróðir Vilhjálms, sem hefur hingað til séð
um að afla pressunni nægan efnivið til umfjöll-
unar um hina vinsælu fjölskyldu, hefur einn-
ig tekið fréttunum um verðandi mágkonu sína
fagnandi. „Ég er yfir mig ánægður með Vilhjálm
að hafa loksins beðið um hönd hennar. Þetta
þýðir að ég mun eignast systurina sem ég hef
alltaf þráð,“ lét Harry hafa eftir sér.
Næsta Díana eða Camilla?
Kate Middleton hefur verið breytt úr óbreytt-
um borgara yfir í verðandi prinsessu. Héðan í
frá mun hún njóta verndar lífvarða hallarinn-
ar. Þrátt fyrir að vera af almúgafólki komin þyk-
ir hún virðuleg og flott prinsessuefni og er hún
þegar byrjuð í strangri þjálfun til að geta tileinkað
sér alla þá eiginleika sem gæða alvöru prinsessu.
Þegar hún hefur gifst ríkiarfanum verður hún að
velja sér góðgerðarfélag til að starfa fyrir. Spurn-
ing er hvort hún velji að feta í fótspor Díönu prin-
essu og snúa sér alfarið að góðgerðarmálum eða
hvort hún muni fara leið Camillu Parker Bow-
les, fósturmóður prinsanna, og ákveði að hennar
meginhlutverk sé að standa við hlið eiginmanns
síns. Hvora leiðina sem hún velur er öruggt að
pressan fylgist með hverju skrefi hennar.
Brúðkaup ársins
Vilhjálmur mun starfa í breska flughernum
næstu þrjú árin. Sumir segja að með tengda-
fjölskyldunni hafi hann öðlast það fjölskyldulíf
sem hann hafi alltaf þráð, síðan móðir hans lést.
Fréttir af komandi brúðkaupi eldri sonar Karls og
verðandi konungs Bretland tryggja framtíð kon-
ungsfjölskyldunnar. Samkvæmt nýjum könnun-
um í Bretlandi vilja fleiri sjá Vilhjálm og Kate taka
við af Elísabetu drottningu en Karl og Camillu.
Sjálfur hefur prinsinn látið hafa eftir sér að hann
sé hvergi banginn við skyldur sínar en að honum
liggi ekkert á að verða þjóðarleiðtogi. Brúðkaup-
ið, sem fer fram á því ári sem markað hefði 30 ára
brúðkaupsafmæli Karls og Díönu, verður án efa
brúðkaup ársins 2011. Á einum átta árum hefur
Catherine Elizabeth Middleton verið breytt úr
ástsjúkri skólastúlku með draumóra um prins
í að verða unnusta ríkisarfans. Fljótlega verður
hún prinsessa – og einn daginn drottning.
Vilhjálmur Bretaprins hefur beðið um hönd kærustu
sinnar Kate Middleton en parið verður gefið saman
á næsta ári, sem hefði markað 30 ára brúðkaups-
afmæli Karls og Díönu. Vilhjálmur er prins nýrra
tíma. Hann fetar ekki í fótspor föður síns sem bað
um hönd hinnar ungu díönu eftir að hafa þekkt hana
í nokkra mánuði. Sérfræðingar í málefnum bresku
konungsfjölskyldunnar telja að hjónaband Vilhjálms
og Kate verði langlíft og farsælt. Þau hafi þekkst svo
lengi og taki hlutverk sitt það alvarlega að þau láti
ágreiningsefni ekki leiða til skilnaðar.
Skólastúlka
verður drottning
Vilhjálms og Kate-æði Breska
pressan hefur fylgt parinu hvert fótmál
síðan upp komst um samband þeirra.
Af almúgafólki komin Kate Middleton á ekki ættir
að rekja inn í evrópskar konungsfjölskyldur. Hún
kemur þó úr vellauðugri fjölskyldu sem efnaðist á
póstburðarfyrirtæki og fyrirtæki sem útvegar vörur
fyrir veislur og viðburði.
texti: iNDíANA ÁsA hreiNsDÓttir indiana@dv.is