Dagblaðið Vísir - DV - 30.03.2011, Blaðsíða 6
Eiður Smári Guðjohnsen, þáverandi
leikmaður Chelsea og núverandi leik-
maður Fulham, ræddi um fjármál
sín og fjárfestingar í viðtali við sjón-
varpsmanninn Eggert Skúlason á
Stöð 2 árið 2000. Meðal þess sem Eið-
ur Smári ræddi var að hann væri með
bankamenn í vinnu við að hugsa um
fjármál sín og að hann ætlaði að vera
búinn að tryggja fjárhagslega framtíð
sína í lok knattspyrnuferilsins. Viðtal-
ið var birt í þættinum Peningavit sem
Eggert gerði fyrir Stöð 2. Þáttur Egg-
erts fjallaði um fjármál.
Ræddi um fjárhagslega
framtíð sína
Eiður, sem var aðeins 22 ára þegar
viðtalið fór fram, var þá búinn að slá
í gegn hjá Chelsea og talaði hann um
það í viðtalinu að ferill knattspyrnu-
mannsins væri stuttur, í mesta lagi
fimmtán ár, og því væri mikilvægt að
ávaxta þau laun vel sem hann fengi
á því tímabili. „Já... atvinnumaður í
kannski mesta lagi fimmtán ár þó það
séu kannski nokkrir sem hafa verið
aðeins lengur í boltanum... Þannig
að eftir fimmtán ár vil ég svona vera
búinn að tryggja mér framtíðina pen-
ingalega séð og þurfa ekkert mikið að
vera að spá í peningum og kannski
meira að spá í hvað ég vil gera eft-
ir knattspyrnuferilinn,“ sagði Eiður
Smári í viðtalinu við Eggert, sem síðar
varð talsmaður knattspyrnumanns-
ins.
Eiður greindi einnig frá því hverjir
það væru sem sæju um fjármál hans
og fjárfestingar, meðal annars tiltek-
inn banki sem hann nefndi þó ekki á
nafn: „Nei, það er náttúrulega bara,
menn sjá um sig sjálfir. Ég til dæmis
er með menn sem eru bara í vinnu
við það í rauninni, bankinn sem ég er
í hefur hjálpað mér mjög mikið með
ráðleggingar og annað, ég er með um-
boðsmann sem er með hina og þessa
menn í vinnu hjá sér til að gera þessa
hluti. Þannig að... “ sagði Eiður í við-
talinu.
Fékk DV dæmt fyrir brot
á friðhelgi einkalífs
Viðtalið við Eið Smára í Peningaviti
verður lagt fyrir í Hæstarétti Íslands
í dómsmáli Eiðs Smára gegn þrem-
ur starfsmönnum DV, meðal annars
greinarhöfundi. Lögmenn starfs-
manna DV eiga að skila greinargerð
í málinu til Hæstaréttar Íslands í dag,
miðvikudag.
Eiður Smári stefndi umrædd-
um starfsmönnum fyrir meint brot
á friðhelgi einkalífs í umfjöllun sem
DV birti um fjárfestingar og lán-
tökur hans í lok árs 2009. Inntakið
í umfjöllun DV var að Eiður Smári
skuldaði Banque Havilland í Lúxem-
borg, áður Kaupþingi, Íslandsbanka
og fleirum um 1.200 milljónir króna
vegna misheppnaðra fjárfestinga í
hinum og þessum fjárfestingarverk-
efnum á árunum fyrir hrunið. Ekki
er um að ræða stefnu fyrir meiðyrði
og því snýst málflutningurinn ekki
um sannleiksgildi umfjöllunar DV
heldur aðeins það hvort DV mátti,
lögum samkvæmt, greina frá þeim
upplýsingum um fjárfestingar og
lántökur Eiðs Smára sem fram komu
í fréttinni.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðs-
dómari dæmdi Eiði Smára í hag í
Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar.
Meðal þess sem kom fram í dómi
Hervarar var að Eiður Smári hefði
aldrei gefið tilefni til slíkrar umræðu
um fjármál sín með því að ræða við
fjölmiðla um þau. „Er óumdeilt að
stefnandi hefur aldrei gefið tilefni til
slíkrar umfjöllunar með því að ræða
við fjölmiðla um fjármál sín.“ Auk
þess sagði Hervör að umfjöllun DV
hefði verið ómálefnaleg, hefði ekk-
ert fréttagildi og tengdist ekki með
nokkrum hætti íslenska banka-
hruninu, líkt og lögmenn starfs-
manna DV héldu fram í greinargerð-
um sínum.
DV fjallaði um það sama og
Eiður ræddi
Af viðtalinu við Eið Smára í Pen-
ingaviti sést hins vegar að hann tjá-
ir sig um fjármál sín við Eggert, bæði
hverjir það eru sem sjá um fjárfest-
ingar hans – starfsmenn banka og
aðrir aðilar – og eins hvert markmið
hans er með því að láta aðra sjá um
þessi fjármál – að tryggja fjárhags-
lega framtíð hans.
DV fjallaði einnig um bæði þessi
atriði í umfjöllun sinni: Að Eiður
Smári hefði fjárfest í gegnum einka-
bankaþjónustu Kaupþings í Lúxem-
borg með láni frá bankanum og eins
að fjárhagsleg framtíð Eiðs Smára
væri í uppnámi vegna þess að þessar
fjárfestingar, meðal annars í gegnum
Askar Capital, hefðu ekki gengið sem
skyldi út af íslenska bankahruninu
haustið 2008. Umfjöllun DV var því
að vissu leyti af sama meiði og um-
fjöllun Eiðs Smára sjálfs í viðtalinu
við Eggert árið 2000.
Ein af breytunum sem settu strik í
reikninginn og gerðu þessa umfjöll-
un DV neikvæða og erfiða fyrir Eið
var svo íslenska bankahrunið sem
knattspyrnumaðurinn gat vitanlega
ekki séð fyrir árið 2000 þegar hann
veitti viðtalið. Eiður ætlaði að vera
búinn að tryggja fjárhagslega fram-
tíð sína í lok knattspyrnuferils síns,
meðal annars með því að reiða sig á
aðstoð fagmanna, en þessar fjárfest-
ingar fóru út um þúfur, meðal ann-
ars vegna íslenska efnahagshruns-
ins. Eftir sat Eiður Smári með skuldir
sem eignir hans dugðu ekki fyrir og
því þurfti hann að leggja það nið-
ur fyrir sig hvernig hann ætlaði að
greiða lánardrottnum sínum til baka
á næstu árum. Miðað við orð Eiðs
Smára árið 2000 var þessi þróun á
fjárhagslegri stöðu hans þvert á það
sem hann ætlaði sér að yrði raunin.
6 | Fréttir 30. mars 2011 Miðvikudagur
n Eiður Smári ræddi fjárfestingar og peningamál sín opinberlega n Var í viðtali hjá
Eggert Skúlasyni í Peningaviti n Sagðist treysta utanaðkomandi aðilum fyrir fjárfest-
ingum sínum n Vildi tryggja fjárhagslega framtíð sína n Stefndi DV fyrir umfjöllun
um fjármál hans og fjárfestingar með lánum frá íslenskum bönkum
EIÐUR SMÁRI RÆDDI FJÁR-
FESTINGAR SÍNAR Í VIÐTALI
Eggert: „Ef maður horfir pínulítið á
peningahliðina. Þú ert 22... Það sem ég
er að velta fyrir mér er: Hvernig hugsar
Chelsea um þig? Eru þeir að hjálpa þér að
fjárfesta, eru þeir að hjálpa þér þannig að
þú tryggir þig til frambúðar?“
Eiður: „Nei, það er náttúrulega bara,
menn sjá um sig sjálfir. Ég til dæmis, er
með menn sem eru bara í vinnu við það
í rauninni, bankinn sem ég er í hefur
hjálpað mér mjög mikið með ráðleggingar
og annað, ég er með umboðsmann sem er
með hina og þessa menn í vinnu hjá sér til
að gera þessa hluti. Þannig að... “
Eggert: „Þú ert að tryggja þig fyrir fram-
tíðina?“
Eiður: „Já... atvinnumaður í kannski
mesta lagi fimmtán ár þó það séu kannski
nokkrir sem hafa verið aðeins lengur í
boltanum... Þannig að eftir fimmtán ár
vil ég svona vera búinn að tryggja mér
framtíðina peningalega séð og þurfa
ekkert mikið að vera að spá í peningum
og kannski meira að spá í hvað ég vil gera
eftir knattspyrnuferilinn.“
Brot úr viðtalinu:
Ingi Freyr Vilhjálmsson
fréttastjóri skrifar ingi@dv.is
Skuldastaða Eiðs Smára
Í frétt DV um Eið Smára í desember 2009 var greint
frá því að hann skuldaði rúmlega 1.200 milljónir króna,
eða nærri 7 milljónir evra. Greint var frá því að Eiður
Smári hefði átt í viðræðum við lánardrottna sína
um hvernig hann gæti staðið í skilum við þá. Á móti
þessum skuldum voru eignir sem metnar voru á nærri
750 milljónir króna, eða sem nam rúmum 4 milljónum
evra. Greindi DV frá að Eiði Smára væri mikið í mun að
ráða fram úr þessum skuldavanda sínum og hafði hann
meðal annars leitað eftir frekari lánveitingum til þess.
Stærsti lánveitandi Eiðs var Banque Havilland í
Lúxemborg, áður Kaupþing í Lúxemborg, en knatt-
spyrnumaðurinn skuldaði þeim banka um 4,5 milljónir
evra, tæpar 830 milljónir króna. Eiður hafði síðastliðin ár verið viðskiptavinur í einka-
bankaþjónustu þess banka. Þar á eftir kemur Íslandsbanki með ríflega tveggja milljóna
evra skuld, eða sem nam meira en 385 milljónum króna á núverandi gengi.
Ástæðan fyrir því að Eiður Smári stóð svo illa fjárhagslega var meðal annars sú að hann
hafði skuldsett sig mjög á síðustu árum vegna ýmissa fjárfestinga. Til að mynda lágu
rúmlega 250 milljónir króna af skráðum eignum hans í fasteignaverkefnum í Tyrklandi
og í Knattspyrnuakademíunni í Kópavogi en Eiður Smári veitti lán til verkefnisins á
sínum tíma. Eiður Smári mun hafa reynt að selja kröfur sínar í þessum verkefnum en
kaupandi hafði ekki fundist eftir því sem DV komst næst.
Eiður Smári fjárfesti einnig í fasteignaverkefni í Hong Kong í gegnum Askar Capital.
Verkefnið bar heitið Chester Court. Eiður Smári mun hafa lagt ansi háar fjárhæðir til
þessa verkefnis árið 2007 og tapaði hann þessum fjármunum að langmestu leyti áður
en hann seldi hlut sinn í því.
Ræddi um fjárfestingar
sínar Eiður Smári ræddi um
það í viðtali árið 2000 að
hann treysti utanaðkomandi
aðilum fyrir fjármálum sínum,
meðal annars banka. Viðtalið
við Eið Smára sýnir fram á að
knattspyrnumaðurinn hefur
rætt opinberlega um fjármál
sín og fjárfestingar, í mót-
sögn við þá niðurstöðu sem
Héraðsdómur Reykjavíkur
komst að í síðasta mánuði.
Orkuveitunni
bjargað fyrir horn
Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður
og Borgarbyggð hafa samþykkt að-
gerðaáætlun fyrir Orkuveitu Reykja-
víkur, OR, í því skyni að mæta lausa-
fjárvanda fyrirtækisins. Áætlunin felur
meðal annars í sér að sveitarfélögin
lána OR 8 milljarða króna árið 2011
og 4 milljarða króna árið 2013. Hlutur
hvers sveitarfélags í láninu miðast
við eignarhlut þess í fyrirtækinu en
Reykjavíkurborg á 94 prósent í OR.
Aðgerðaáætlunin mætir 50 milljarða
króna fjárþörf fyrirtækisins á árabilinu
2011–2016. Miða aðgerðirnar að því
að treysta stoðir OR til framtíðar án
erlendra lána.
Áætlunin gerir ráð fyrir að lán
sveitarfélaganna verði greitt út í
tvennu lagi. Átta milljarðar króna
verða greiddir út nú í apríl. Afgang-
urinn, eða 4 milljarðar króna, verða
greiddir út árið 2013. Lán Reykjavíkur-
borgar verður greitt úr svokölluðum
varasjóði borgarinnar sem komið hef-
ur verið upp til að mæta hugsanlegri
fjárþörf OR. Lán sveitarfélaganna til
OR eru til 15 ára á hagstæðustu kjör-
um Lánasjóðs sveitarfélaga og afborg-
unarlaus fyrstu fimm árin. Lánveit-
ing Reykjavíkurborgar til OR minnkar
handbært fé borgarinnar í árslok en
það stendur í ríflega átta milljörðum
króna, að því er fram kemur í tilkynn-
ingu frá borginni. Aðrar ráðstafanir
hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir
sjóðþurrð. Meðal annars verður kann-
aður fýsileiki þess að selja hús Orku-
veitu Reykjavíkur við Bæjarháls.
Stefna gegn
Svavari tekin fyrir
Stefna Jóns Ásgeirs Jóhannes-
sonar fjárfestis gegn Svavari Hall-
dórssyni, fréttamanni RÚV, var
tekin fyrir í héraðsdómi á þriðju-
dag. Stefnan snýr að ummælum
í frétt um Pace Associates sem
flutt var í kvöldfréttum Ríkisút-
varpsins. Svavar hefur áður verið
sýknaður fyrir héraðsdómi í öðru
meiðyrðamáli tengdu sömu
frétt. DV greindi frá stefnunni í
desember en stefnuvottur knúði
dyra á heimili Svavars í Hafnar-
firði daginn fyrir Þorláksmessu
og birti honum stefnuna. Vika er
síðan Svavar var sýknaður í meið-
yrðamáli Pálma Haraldssonar,
viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs, fyrir
héraðsdómi.