Dagblaðið Vísir - DV - 23.03.2012, Blaðsíða 28

Dagblaðið Vísir - DV - 23.03.2012, Blaðsíða 28
28 Viðtal 23.–25. mars 2012 Helgarblað Þ egar Diddú æfir söng á heimili sínu að Túnfæti í Mosfellsdal hitar hún gjarnan upp inni í kústaskáp eða inni í svefnherbergi. „Ég æfi mig oftast þannig í einrúmi af tillitssemi við aðra fjölskyldumeðlimi, það er nefnilega best að hita upp í þröngu, litlu og hlýju rými,“ segir hún og skellir upp úr með sínum alkunna hætti. Dillandi hláturinn þekkja flestir landsmenn og sönginn þekkja allir. Diddú tekur á móti blaðamanni og ljósmyndara á fallegu heimili sínu í sveitasælunni einn rigningardag í mars og segir frá því sem á dagana hefur drifið en mikla athygli vakti þegar Spilverk þjóðanna kom saman á nýafstöðnum afmælistónleikum Valgeirs Guðjónssonar. Það hefur vaknað upp gamall fiðringur í þessu góða gengi en það var einmitt fyrir tilstilli félaga hennar úr Spilverkinu að hún Diddú lagði fyrir sig sönginn. Sungið á Sólvallagötunni Hún á ekki langt að sækja sönginn því hún fæddist inn á mikið söngheimili. Foreldrar hennar sungu báðir frá því að hún man eftir sér og öll sex systkini hennar hafa sungið, mismikið þó. „Foreldrar mínir kynntust í kirkjukór og það er að finna söngfólk langt aftur í ættir mínar. Söngurinn er okkur eðlisborinn og okkur innrættur frá blautu barnsbeini. Við höfðum ekki ráð á því að kaupa hljóðfæri fyrr en seinna en það sakaði ekki. Söngurinn dugði og mínar allra kærustu og eftirminnilegustu æskuminningar snúast um söng,“ segir Diddú þar sem hún situr við eldhúsborð heimilis síns og strýkur yfir blúndudúkinn á borðinu. Það úir og grúir af bókum, munum og forvitnilegum teikningum og ljósmyndum. Veggirnir eru eins og smágerð klippimynd sem er hægt að rýna í löngum stundum. Henni finnst gott að hafa hlýlegt í kringum sig. Því vandist hún í æsku. Hún ólst upp í Vesturbænum. Nánar tiltekið á Sólvallagötu. „Við áttum heima lengst af á Sólvallagötu og þrátt fyrir að það væri margt í heimili þá var alltaf gleði og söngur. Þar vorum við lungann úr æsku okkar. Við gistum mörg saman börnin í herbergi, jafnvel saman í rúmi og okkur skorti aldrei neitt. Móðir okkar var ótrúlega lunkin við að framreiða eitthvað gott úr einhverju litlu. Hún sá til þess að við fyndum aldrei fyrir því að það væri þröngt í búi því auðvitað hlýtur það að hafa orðið með okkur svona mörg systkinin.“ Diddú segist hafa verið bæði geðprúð og frökk sem barn. „Ég var mjög opin og ófeimin og sóttist strax eftir því að leyfa rödd minni að heyrast. Ég gekk í barnakór í Melaskóla, byrjaði svo seinna að syngja í Hagaskóla og það var varla árshátíð í skólanum þar sem maður tróð ekki upp. Fyrsta lagið sem ég söng opinberlega á árshátíð var lag með Ríó tríó, þá fannst mér gaman að syngja öll Hljómalögin og apa eftir Shady Owens, Bob Dylan og lög úr Jesus Christ Superstar.“ Gjöfull tími með Spilverkinu Eitt leiddi af öðru. Diddú sá ekki fyrir sér söngferil og fékk þess í stað áhuga á leiklist. Hún skráði sig í leiklistarskólann SÁL og þar hitti hún Spilverksstrákana þrjá, þá Egil Ólafsson, Sigurð Bjólu og Valgeir Guðjónsson. „Þeir voru svona hirðtónlistarmenn skólans og þar kynntumst við. Þeir sáu mikið um tónlistarflutning í sýningum skólans. Þeir heyrðu í mér syngja í skólanum og buðu mér að syngja bakraddir á fyrstu plötu sinni; brúnu plötunni. Ég söng í þremur lögum og eftir það buðu þeir mér formlega til samstarfs. Þá hætti ég í leiklistarskólanum og varð söngurinn með Spilverkinu aðalvinna mín næstu þrjú árin, eða allt þar til ég ákvað að fara í söngnám til London. Sá tími sem ég var í Spilverkinu var gjöfull. Ég minnist þeirra tíma oft af mikilli hlýju og ég valdi sönginn vegna kynna minna af því að vinna með þeim félögum. Eftir nokkra umhugsun þó. Mér fannst Spilverkið vera meira spennandi en leiklistarnámið og hitt vissi ég líka, að söngurinn bjó frekar í mér en leiklistin. Ég sé alls ekki eftir að hafa valið söngbrautina. Það var ævintýralegt fyrir mig að lenda í þessum hópi, hvert atvikið leiddi af öðru og ég tók stór skref inn í söngferilinn með samstarfi við þá félaga. Ég myndi segja að fyrir mig hafi þetta verið ómetanlegur tími, ég veit ekki hvort ég hefði lagt út í söngnám ef ég hefði ekki sungið fyrir þá því ég hélt þá að ég væri með leiklistarbakteríu.“ Streita í Stuðmönnum – systkinabragur í Spilverki Diddú fann sína eigin rödd og henni var ráðlagt að hlúa vel að henni. Hún hélt því til Lundúna að nema söng við Guildhall School of Music and Drama meðan frægð Spilverksins var enn í blóma. Meðan á náminu stóð voru tvær plötur teknar upp meðan hún var í London. „Það vorum við þrjú, Valgeir, Bjóla og ég, og um var að ræða tvær síðustu plötur Spilverksins, Ísland og Bráðabirgðabúgí. Síðan varð langt hlé þangað til við hittumst flest um daginn, áratugum seinna. Mér finnst eins og spilamennskan í gamla daga hafi gerst í gær,“ segir Diddú sem þykir augljóslega vænt um samverkamenn sína í Spilverkinu. Var ekkert sami núningur í Spilverkinu og í Stuðmönnum? „Nei, það var kannski meiri togstreita í Stuðmönnum á meðan Spilverkið var eins og góður systkinahópur. Það var allt önnur og lágstemmdari stemning. Og er enn. Við erum að fara núna út á land að spila á tónleikum og spilum afmælistónleika Valgeirs. Við förum til Vestmannaeyja og á Akureyri. Þetta var svo skemmtilegur tími og það var svo notaleg tilfinning að fá að spila þessa tónlist aftur. Þetta er allt inni í manni og allt til staðar ennþá.“ Barneignir á styrk frá Sinfóníuhljómsveit Íslands Eiginmaður Diddú er Þorkell Jóelsson, ættaður úr Mosfellsdal. Þau eiga saman þrjár dætur, tvíburana Salóme og Valdísi og þá yngstu sem enn býr hjá þeim, Melkorku. Þegar Diddú var í námi í London var Þorkell að mestu heima á Íslandi en hún segir fjarbúðina hafa styrkt sambandið. „Það voru engir gemsar og ekkert skype. Það var ekki einu sinni faxtæki,“ segir hún og hlær. „Við skrifuðumst á og svo hringdi ég alltaf í hann á laugardögum sem má segja að sé mjög rómantísk athöfn. Ég fór í rauðan símklefa með kápuvasana bólgna af klinki til að hringja í Þorkel og talaði lengi.“ Síðasta árið sem Diddú dvaldi í London kom Þorkell til hennar í heimsókn sem endranær. „Hann kom fljúgandi á styrk frá Starfsmannafélagi Sinfóníunnar um páska og þegar hann fór heim var ég orðin ófrísk,“ segir hún og skellihlær sínum dillandi hlátri. „Styrkurinn margborgaði sig, því það deilir enginn um það að árangurinn af þessari heimsókn var stórkostlegur.“ Féll fyrir manni og dal Barnalánið varð meira en unga parið grunaði. „Ég ætlaði að fara beina leið frá London til Ítalíu til frekara náms en við frestuðum vegna þess að það kom í ljós að þetta voru tvíburar svo gleðin varð mikil,“ segir Diddú sem segir það hafa verið mikla upplifun og reynslu að eiga tvíbura. „Þær eru tvíeggja og mjög ólíkar í útliti og með mismunandi eiginleika og áhugamál. En það er sterkt samband á milli þeirra og þær búa yfir þessari nánd sem er svo erfitt að skýra. Salóme kom á undan og hún varð foringi. Það er víst alltaf svoleiðis. Það eru hlutverkaskipti milli tvíbura frá fyrstu mínútu. Valdís er listræn og meira inn á við. Þær hafa því leitað í afar ólíkar áttir, Salóme starfar við Kastljósið í dag meðan Valdís er við framhaldsnám í trompetleik. Við eignuðumst svo Melkorku þegar þær systur voru á tólfta ári. Okkur Þorkeli fannst það mjög klókt enda tvíburarnir á þeim aldri að vera tilbúnir til að passa systkini sín,“ segir hún kankvís. Þegar þær Salóme og Valdís voru orðnar 8 mánaða fluttist fjölskyldan af Vesturgötunni í dalinn. „Það varð því úr að við fluttum af Vesturgötunni hingað í Túnfót fyrir 26 árum og við höfum aldrei séð eftir því. Þær fengu að vera svo frjálsar hérna í náttúrunni og uppeldi stúlknanna allra hefur mótast af því. Nú þegar þær eru tvær farnar að heiman þykir mér vænt um hvað þeim finnst gott að koma aftur heim í sveitina. Maðurinn minn er fæddur og uppalinn hér í dalnum og þeir sem Söngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir, betur þekkt sem Diddú, bauð Kristjönu Guðbrandsdóttur í heimsókn til sín í sveitasæluna að Túnfæti og sagði henni frá ævintýrum sínum með Spilverki þjóðanna, uppvextinum og litunum sem hún skynjar þegar hún hlustar á söng. Sjálf sér hún myndir þegar hún syngur. Allir þekkja Diddú sem hefur náð að byggja upp glæstan feril sem óperusöngkona þrátt fyrir að heyra ekkert með öðru eyranu og afskaplega lítið með hinu. „Heyrnarskerðingin háir mér ekki“ „Það var kannski meiri togstreita í Stuðmönnum. „Ég sé liti oft þegar ég hlusta á músík en sé myndir þegar ég syng. „Ég ákvað að láta á það reyna hvað ég kæmist langt þrátt fyrir þetta Kristjana Guðbrandsdóttir kristjana@dv.is Viðtal
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64
Blaðsíða 65
Blaðsíða 66
Blaðsíða 67
Blaðsíða 68
Blaðsíða 69
Blaðsíða 70
Blaðsíða 71
Blaðsíða 72

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.