Dagblaðið Vísir - DV - 05.04.2013, Page 10
„Við gerum þetta frá hjartanu“
10 Fréttir 5.–7. apríl 2013 Helgarblað
n Draumasetrið að verða að veruleika eftir mikla vinnu n Áfangaheimili fyrir fíkla n Um þrjátíu manns þegar fluttir inn n „Temmilega líbó“ segir íbúi
V
ið Faxaflóahafnir í Reykja-
vík er að finna reisulegt
hús sem nýlega fékk nýtt
hlutverk. Áfangaheimilið
Draumasetrið er þar að
verða að veruleika eftir þrotlausa
vinnu sjálfboðaliða undanfarna
mánuði. Þegar DV bar þar að garði
sólríkan eftirmiðdag var nóg um að
vera.
Rykmettað loftið bar þess merki
að miklar framkvæmdir væru í
gangi. Víða mátti sjá málningar-
dósir, spýtur og annars konar dót.
Enda hafa hér verið unnin stór-
virki undanfarna þrjá mánuði. Á
þeim tíma hefur húsnæðinu verið
gjörbreytt og þrátt fyrir að vera ekki
fullklárað hefur það nú þegar byrj-
að að þjóna endanlegum tilgangi
sínum; að verða áfangaheimili fyrir
fólk sem misst hefur fótanna í viðj-
um fíknar. Um 30 manns eru flutt
inn og á næstu vikum og mánuðum
munu enn fleiri bætast í hópinn og
strax eru komnir biðlistar. Allir sem
koma að rekstri heimilisins gera
það í sjálfboðastarfi og af hugsjón
að sögn forstöðumannsins.
Spurning um vilja
„Þetta er allt að koma hjá okkur,“
segir Ólafur Ólafsson sem er for-
stöðumaður heimilisins ásamt
Elínu Örnu Hannam. Hann segir
það hafa verið vegna úrræðaleysis
stjórnvalda sem hann ákvað fyrir
nokkrum mánuðum síðan, ásamt
Elínu og fleira góðu fólki, að reisa
áfangaheimili fyrir fólk sem er
að koma úr áfengis og vímuefna-
meðferð. Þörfin fyrir slíkt heimili
hafi verið afar brýn. „Þetta er bara
spurning um vilja. Það er ömurlegt
að horfa upp á ástandið. Það vant-
ar eftirfylgni fyrir þetta fólk. Það
kemur úr meðferð og helmingur-
inn veit ekki hvert hann á að fara
að meðferð lokinni. Þá fer það aft-
ur í neyslu,“ segir Ólafur og tek-
ur fram að það sé auðvitað gríðar-
lega kostnaðarsamt fyrir ríkið þegar
fólk fari í meðferð sem skilar ekki
árangri. Hann segir þau hafa mætt
litlum skilningi hjá velferðarsviði
borgarinnar og illa gangi að ná í fólk
þar sem hafi eitthvað um hlutina að
segja. Reyndar hafi borgarstjórinn,
Jón Gnarr, strax sýnt starfi þeirra
áhuga en aðrir svari ekki. „Við erum
ekki að fara fram á neitt sem þeir
eiga ekki að skaffa. Það er fáránlegt
að þurfa að bíða í þrjá mánuði til að
komast að hjá þeim þarna í Borg-
artúni. Á sama tíma og við erum
að taka á móti fjölda heimilislauss
fólks hérna,“ segir Ólafur og segir
þörfina brýna.
Ólafur segir tilganginn með
opnun áfangaheimilisins vera þann
að hjálpa fólki að komast á beinu
brautina á ný. Hann segir marga
vera á mjög slæmum stað og eiga
erfitt með að fóta sig á ný eftir að
koma úr hörðum heimi fíknarinnar.
Efnin sem fólk sé að taka séu alltaf
að verða harðari. „Sprautufíknin er
verst en hún er orðin mjög algeng,
miklu algengari en áður. Það er
þessi rítalínfíkn sem er svo hrika-
leg og fíkn í fleiri lyfseðilsskyld lyf,“
segir Ólafur.
Drakk kassa af bjór á dag
Þau sem standa að starfinu þekkja
það sjálf vel að koma undir sig fót-
unum á ný eftir meðferð. Sjálf-
ur fór Ólafur í sína fyrstu meðferð
árið 1981. „Síðan aftur árið 1985
og var þá edrú í ellefu ár. Ég fór svo
til Svíþjóðar og ætlaði að vera þar
í mánuð en endaði á að vera þar í
tíu ár á sulli,“ segir Ólafur. Hann
var orðinn illa farinn af áfengis-
neyslunni sem stjórnaði öllu hans
lífi. „Ég var aðallega að sulla í bjór,
maður hélt það teldi ekki neitt en
ég var kominn í kassa á dag. Ég var
hættur að ná skjálftanum úr mér.
Ég fór með miklar væntingar til
Svíþjóðar en það var mikið sjokk
að falla. Þá hugsar maður; fyrst ég
er fallinn þá tek ég bara einn dag
enn en ég tók tíu ár. Það var grátið á
hverju kvöldi og ég sagði við sjálfan
mig að nú færi ég heim,“ segir hann.
Það kom svo að því að hann
komst á beinu brautina á ný, sneri
við blaðinu og hélt aftur til Íslands.
Undanfarin ár hefur hann einbeitt
sér að því að hjálpa öðrum fíklum
að öðlast von um nýtt líf. Fyrst í
gegnum United Reykjavík, sem er
að sögn Ólafs hjálparstarf byggt
á trúarlegum grunni og hann er í
forsvari fyrir, og svo nú í gegnum
Draumasetrið. „Við gerum þetta frá
hjartanu. Það besta sem þú gerir er
að hjálpa öðrum. Að sjá líf kvikna á
ný, það er ólýsanlegt. Sumir eru að
ná árangri sem þeir hafa aldrei náð
áður,“ segir hann.
Sjá ekki um fjármálin
Ólafur segir þau hafa fjármagnað
áfangaheimilið með styrkjum en
margir hafi lagt þeim lið. Fjölmargir
sjálfboðaliðar hafa unnið myrkr-
anna á milli við að standsetja heim-
ilið en auk þess hafa fyrirtæki gefið
gólfefni, málningu, húsgögn og svo
mætti lengi telja. „Það hafa margir
vilja leggja okkur lið og við höfum
fengið fullt gefins. Bæði frá einstak-
lingum og fyrirtækjum,“ segir hann.
Ólafur segir þau ekki koma að
fjármálum heimilisins, þau hafi fólk
í því. „Um leið og fólk fór að styrkja
okkur þá bað ég endurskoðanda að
sjá um öll fjármál. Svona heimili
hafa farið illa eins og við þekkjum.
Það eru peningar, heiður og kynlíf
sem eyðileggur svona. Við ákváð-
um að opna þetta bara sjálf og láta
bara hlutina gerast. Við erum með
og verðum að hafa rosalega góðan
hóp sem horfir yfir öxlina á okkur,“
segir hann.
Í fullu starfi annars staðar
Fólkið sem býr á áfangaheimilinu
er á öllum aldri en á það sameigin-
legt að hafa barist við vímuefnafíkn.
Á rölti okkar um húsið hittum við til
að mynda mann sem er á fimm-
tugsaldri og hefur lengi barist við
Bakkus. Hann hefur tekið virkan
þátt í uppbyggingu hússins og er í
óða önn að smíða þegar okkur ber
að. „Hann kom úr meðferð en byrj-
aði aftur að drekka, svo þurrkaði
hann sig upp sjálfur á gistiskýlinu
og kom svo hingað. Það kemur svo
í ljós að hann er svona handlaginn,“
segir Ólafur og sýnir herbergin sem
eru nánast tilbúin á þriðju hæð
hússins sem hann hefur meðal
annars unnið að. Ólafur segir það
auðvitað koma fyrir að fólk falli
en þá sé því yfirleitt gefið tækifæri
í eitt skipti til að snúa aftur sé það
tilbúið til þess. Inni á heimilinu er
fólki gefið tækifæri til þess að fóta
sig á ný og læra að komast út í raun-
veruleikann aftur. „Herbergin eru
öll með nýjum rúmum og eru rúm-
góð, fólk getur svo komið með eigin
hluti líka en sumir eiga ekki neitt,“
segir Ólafur og bendir á að fólk sé
á mjög misjöfnum stað þegar það
kemur úr meðferð.
Í einu horni hússins er að finna
barnadót og segir Ólafur að þar
komi til með að vera barnahorn
og íbúar sem séu foreldrar geti
boðið börnum sínum í heimsókn.
„Sumir eru með börnin sín í helg-
arumgengni og geta þá haft þau
hér hjá sér.“ Ólafur tekur fram að
þau séu í miklu samstarfi við allar
ríkisstofnanir, þar á meðal barna-
verndarnefnd. Þeirra takmark sé
einfaldlega að hjálpa fólki.
Á heimilinu eru engir starfs-
menn á launum enn sem komið er
en Ólafur segir að vissulega sé þó
þörf á því. „Sumir hérna eru á það
vondum stað að þeir þurfa mikla
umönnun,“ segir hann en sjálf-
ur sinnir hann fullu starfi í mat-
sölu BSÍ með fram starfinu hjá
Draumsetrinu. „Ég mæti snemma
á morgnana til vinnu og er mættur
hér um hádegisbil. Auðvitað er
hætta á að maður keyri sig út en
þetta bara gefur manni svo mikið
og er svo gaman.“ n
Viktoría Hermannsdóttir
blaðamaður skrifar viktoria@dv.is
„Við gerum þetta
frá hjartanu. Það
besta sem þú gerir er að
hjálpa öðrum.
Draumasetrið
Draumasetið er áfangaheimili þar
sem er gert ráð fyrir að 40 manns geti
búið. Hver og einn íbúi borgar leigu og
í sameiningu sjá þeir um húsverk og
annað tilfallandi. Dvalartími fólks á
heimilinu er talinn æskilegur um 6–18
mánuðir en þó er misjafnt hvað hver og
einn þarf að vera lengi. Unnið er eftir 12
spora kerfi AA-samtakanna. Þeir sem
búa á heimilinu þurfa að vera edrú og
hafa trúnaðarmann. Á öllum þremur
hæðum hússins eru herbergi, auk
klósetta, sturtuaðstöðu, sameiginlegs
eldhúss, þvottaaðstöðu og setustofa.
Á fyrstu hæð hússins stendur svo
einnig til að reisa kaffihús.
Framkvæmdir Eins og sjá má hafa miklar framkvæmdir verið í húsinu undanfarna
mánuði. Þar hefur öllu verið breytt.
„Að sjá líf
kvikna á ný,
það er ólýsanlegt