Dagblaðið Vísir - DV - 21.01.2011, Blaðsíða 46
46 | Sport Umsjón: Tómas Þór Þórðarson tomas@dv.is 21.–23. janúar 2011 Helgarblað
Selfyssingurinn Þórir Ólafsson hefur farið á kostum með íslenska landsliðinu í handbolta á sínu fyrsta heimsmeist-
aramóti. Þessi 31 árs gamli hornamaður hefur spilað landsleiki fyrir nánast alla landsliðsþjálfara undanfarin tíu ár en
aldrei fest sig í sessi þar til nú. Honum er lýst sem gríðarlega teknískum hornamanni, þeim besta sem Ísland á. Þórir hefur lengi verið of
grannur og oft reynt að fita sig án nokkurs árangurs.
Væri meðalmaðurinn beðinn um að
nefna einn landsliðsmann í hand-
boltalandsliðinu væri ólíklegt að
hann myndi nefna Selfyssinginn Þóri
Ólafsson. Þórir hefur þó farið á kost-
um með íslenska landsliðinu á HM í
Svíþjóð en það er aðeins hans annað
stórmót og fyrsta heimsmeistaramót.
Þórir hefur verið fastamaður í lands-
liðshópi Guðmundar undanfarin tvö
ár en var óheppinn af missa af brons-
inu í Austurríki í fyrra vegna meiðsla.
Þórir leikur með TUS-N-Lübbecke í
þýsku úrvalsdeildinni og var gerður
að fyrirliða liðsins árið 2009. Orðið
sláni á ágætlega við Þóri sem hefur
þó oft reynt að fita sig en án árangurs.
Seinþroska á Selfossi
Þórir Ólafsson er fæddur á Selfossi
28. nóvember 1979. Í dag býr hann
í Lübbecke í Þýskalandi ásamt konu
sinni, Margréti Elínu Ólafsdóttur, og
fimm ára syni þeirra hjóna, Jasoni
Degi. Þórir hóf handknattleiksferil
sinn með Selfossi og þurfti snemma
að fara að hugsa um að bæta tækni
sína og útsjónarsemi því ekki gat
hann stólað á líkamsburðina. „Hann
var alltaf svo lítill og aumur í æsku
að það var honum bara erfitt,“ seg-
ir Einar Guðmundsson, fyrrverandi
leikstjórnandi gullaldarliðs Selfoss,
en hann þjálfaði Þóri upp alla yngri
flokkana og svo aftur í meistara-
flokki. „Þórir tók út sinn þroska mjög
seint. Það var ekki fyrr en um tvítugs-
aldurinn sem hann fór að taka gríð-
arlegum framförum,“ segir Einar.
Þórir lék ekki sinn fyrsta aðal-
liðsleik fyrr en hann var orðinn tví-
tugur sem þykir frekar seint. „Þór-
ir hætti þarna um sautján eða átján
ára aldurinn. Hann var búinn að gef-
ast upp á þessu. Ég man eftir því að
þegar aðrir leikmenn voru að taka
níutíu kíló í bekkpressu var hann að
taka fjörutíu. Drengurinn gat varla
lyft hendinni,“ segir Einar sem viður-
kennir að hann hefði ekki óraði fyrir
hversu langt Þórir gæti náð.
„Ég vissi alltaf að hann væri góð-
ur en ég átti ekki von á þessu. Hann
á enga unglingalandsliðsleiki. Ég
meina, hann kom aldrei til greina.
Hvert hann er kominn segir manni
bara hvað er hægt að gera séu menn
tilbúnir að leggja eitthvað á sig.“
Langir handleggir leyndarmálið
Þórir hefur yfir að ráða afburðaskot-
tækni en sleppi hann inn úr horn-
inu eða sé hann fremstur í hraða-
upphlaupi má nánast bóka íslenskt
mark. Einar segir langa handleggi
Þóris vera leyndarmálið auk auðvit-
að mikilla æfinga.
„Þórir er ekki nema 187 sentí-
metrar held ég en hann er með svo
gríðarlega langa handleggi. Þeir
segja það markverðirnir að þegar
þeir mæti honum haldi þeir oft að
þeir séu að fara að verja en þá nær
hann alltaf að þræða boltann fram-
hjá þeim einhvern veginn. Það er
þessi langi faðmur sem er leyndar-
málið,“ segir Einar sem býst við að
Þórir komi aftur heim á Selfoss þegar
atvinnumannaferlinum lýkur.
„Þórir er Selfyssingur. Konan hans
er frá Selfossi og hér búa foreldrar
hans og tengdaforeldrar. Þegar hann
kemur heim mun hann koma aftur á
Selfoss. Við erum líka búnir að ræða
það saman,“ segir Einar og hlær.
Fall var fararheill
Þórir var fenginn til liðs við þáver-
andi bikarmeistara Hauka úr Hafn-
arfirði sumarið 2002. Hann varð
fyrir því óláni að slíta krossband í
ágústlok sama ár og missti af sínu
fyrsta tímabili vegna meiðsla. Það
ár urðu Haukar Íslandsmeistarar
undir stjórn Viggós Sigurðssonar
en það var aðeins byrjunin að frá-
bæru gengi Haukaliðsins næstu tvö
árin. Þórir kom sterkur inn í liðið
2003 og var hluti af Haukaliði sem
gerði stórkostlega hluti í Meistara-
deildinni, náði meðal annars jafn-
tefli gegn Barcelona á útivelli. Þetta
Haukalið innihélt leikmenn á borð
við Ásgeir Örn Hallgrímsson, Vigni
Svavarsson, Halldór Ingólfsson,
Andra Stefan Guðrúnarson, Birki
Ívar Guðmundsson og Robertas
Pauzuolis. Var Þórir orðinn lykil-
maður í hægra horninu og fall hans
á fyrsta tímabili svo sannarlega far-
arheill.
Haukar urðu Íslandsmeistarar
annað árið í röð 2004 og svo aftur
2005. Eftir það yfirgáfu helstu stjörn-
ur Haukanna liðið fyrir atvinnu-
mennskuna, þar á meðal Þórir sem
samdi við þýska liðið TUS-N-Lübb-
ecke.
Pikkar upp alls kyns trikk
Þórir hefur náð að festa sig í sessi hjá
Lübbecke og er orðinn einn reynslu-
mesti leikmaður liðsins. Fyrir þar-
síðasta tímbil var hann gerður að
fyrirliða. Lübbecke er sem stendur
í tólfta sæti þýsku úrvalsdeildarinn-
ar en Þórir hefur þó þurft að upplifa
fall með liðinu. Fyrrverandi lands-
liðsmarkvörðurinn Birkir Ívar Guð-
mundsson spilaði bæði með Þóri hjá
Haukum og Lübbecke en hann seg-
ir helsta kost hornamannsins knáa
vera tæknina.
„Þórir er ofboðslega tæknileg-
ur leikmaður og það er mikill bolti í
honum, alveg sama hvaða íþrótt um
er að ræða. Hann pikkar upp alla
Messi og Ronaldinho-taktana í fót-
boltanum og hin og þessi körfubolta-
trikk. Þetta nýtist honum í handbolt-
anum enda skorar hann oft mörg
falleg mörk. Að mínu mati er hann
besti hreinræktaði hornamaðurinn
sem Ísland á í dag,“ segir Birkir en til
sönnunnar því að Þórir skori falleg
mörk var ótrúlegur snúningur hans á
síðustu leiktíð framhjá Daniel Beutl-
er, markverði Flensburg, valið mark
ársins í þýska boltanum.
„Þórir er bara að spila fyrir mjög
gott lið í dag. En já, hann gæti allt
eins verið að spila fyrir sterkara lið.
Ég veit samt að hann er mjög sáttur
þar sem hann er en í Lübbecke hefur
hann skotið föstum rótum.“
Fyrsti landsleikur fyrir tíu árum
Undanfarin tvö ár hefur Þórir átt fast
sæti í íslenska landsliðinu. Þrátt fyr-
ir að vera orðinn 31 eins árs er þetta
í fyrsta skiptið sem hann er virki-
lega að stimpla sig inn í landslið-
ið. Hann var þó fyrst valinn í hóp-
inn árið 2001 af Þorbirni Jenssyni
og á hann nokkra leiki að baki fyrir
alla landsliðsþjálfara undanfarinna
tíu ára. Leikurinn gegn Noregi í gær
var hans 58. á tíu árum. Þórir hefur
farið á eitt stórmót áður, EM í Sviss
árið 2006 þar sem Viggó Sigurðsson
stýrði liðinu. Í fyrra átti Þórir að vera
í lokahópi íslenska liðsins á EM í
Austurríki en varð fyrir því óláni að
meiðast rétt fyrir mótið. Missti hann
því af bronsinu sem liðið vann eft-
ir frækilegan sigur á Póllandi. Þórir
átti þó gríðarlega stóran þátt í að lið-
ið komst á mótið en hann lék hreint
frábærlega í undankeppninni. Með-
al annars skoraði hann jöfnunar-
mark, fimm sekúndum fyrir leikslok,
gegn Noregi ytra í undankeppninni
en það stig var mjög mikilvægt.
Getur ekki fitnað
Þórir hefur alla tíð verið mjög grann-
ur. Þegar hann spilaði fyrir Hauka
var honum gert að fita sig og snæddi
hann þá ruslfæði nánast í hvert mál
og drakk rjóma. Fyrrverandi sam-
starfsfélagi Þóris hjá Símanum lýsti
matseðli dagsins svona: „Hann borð-
aði hamborga, franskar og kók um
tíu um morguninn. Í hádegismatn-
um borðaði hann skammt sem ríf-
lega hundrað kílóa karlmaður hefði
ekki getað klárað. Seinnipartinn kom
hann svo við í bakaríinu og auk þess
drakk hann rjóma. Hann fitnaði samt
ekkert á meðan við í kringum hann
fitnuðum við það að heyra hann tala
um mat.“
Birkir Ívar Guðmundsson, sem
spilaði einnig með Þóri hjá Lübb-
ecke, hafði sömu sögu að segja. „Þór-
ir hefur alltaf átt í smávandræðum
með að fitna. Hann hefur reynt að
þyngjast síðan 2002 en það gengur
ekki neitt. Í Þýskalandi lenti hann í
því að rifbeinsbrotna. Fékk hann þá
það verkefni hjá félaginu að þyngja
sig. Hann át því steikur og drakk
rjóma í öll mál í tvo mánuði. Það
gekk nú ekki betur en svo að hann
þyngdist um tvö kíló sem hann var
sjálfur alveg gríðarlega ánægður
með. Gallinn var þó sá að þessi tvö
kíló voru fokin eftir tíu daga æfingar.“
Heldur sig til hlés
Þórir verður seint sakaður um að berja
sér mikið á brjóst en það fer afskap-
lega lítið fyrir honum í íslenska hópn-
um. Lætur hann frekar verkin tala inni
á vellinum. Honum er af öllum lýst
sem hlédrægum manni en góðum fé-
laga. „Hann er yfirleitt bara mjög ró-
legur og hefur aldrei verið að hafa sig
neitt mikið í frammi. Fyrst og fremst er
hann bara fagmaður inni á vellinum,“
segir Birkir Ívar. Þórir verður áfram í
baráttunni með íslenska liðinu á HM
en það hefur leik í milliriðli á laugar-
daginn. Hefst nú alvara lífsins því nú
taka við leikir gegn stórliðum Spánar,
Þýskalands og Frakklands.
Getur ekki fitnað
NærmyNd
Tómas Þór Þórðarson
blaðamaður skrifar tomas@dv.is
Fyrirliðinn Þórir var gerður að fyrirliða Lübbecke 2009.
Hlédrægur og seinþroska
Þórir var lítill og aumur í æsku
en hefur náð langt.