Dagblaðið Vísir - DV - 26.09.2014, Blaðsíða 19
Helgarblað 26.–29. september 2014 Fréttir Viðtal 19
og ljósmyndarar hinna hefðbundnu
fjölmiðla fóru á vegum bandaríska
hersins til Íraks í upphafi innrásarinn-
ar. Þeir skrifuðu undir samning um
að þeir myndu ekki flytja fréttir sem
gætu ógnað hagsmunum hersins.
Talað hefur verið um innmúraða
[e. embedded] blaðamenn í þessu
samhengi. Þeir voru háðir hernum
um upplýsingar, fengu að fylgja her-
mönnum í leiðangra og segja sögur
af sigrum þeirra. Þeir sem ekki hegð-
uðu sér sem skyldi voru hins vegar
sendir rakleiðis heim. Þetta gerði það
að verkum að gríðarlegt mannfall
óbreyttra borgara varð síður frétta-
efni en til dæmis fagnaðarlæti Íraka á
götum úti.
Þetta var og er opinber stefna
bandaríska hersins sem hafði verið
gagnrýndur fyrir of lítið aðgengi
blaðamanna í Persaflóastríðinu. „Í
hreinskilni, þá er verkefni okkar að
vinna stríðið. Hluti af því er upp-
lýsingastríð. Þannig að við munum
reyna að stjórna upplýsingaflæðinu,“
sagði liðsforinginn Rick Long til að
mynda í viðtali við UC Berkeley News
í mars 2004. Ég spyr Pilger hvort sam-
band bandaríska hersins við blaða-
menn hafi breyst eitthvað síðan
hann starfaði sem stríðsfréttaritari í
Víetnam.
„Eins og ég útskýrði þá hefur
áróðurskerfið ekkert breyst. Það sem
hefur breyst er að nú eru fórnarlömb
styrjalda að mestu óbreyttir borgarar;
fyrstu „stríðin gegn óbreyttum borgur-
um“ voru stríð Bandaríkjanna í Kóreu
og Víetnam á sjötta og sjöunda ára-
tugnum. Blaðamenn fluttu fréttir af
þessu, en fáir útskýrðu hvers vegna.“
Í skuld við hina þjáðu
Í þessu samhengi má nefna að að-
eins tíu prósent þeirra sem létust í
fyrri heimsstyrjöldinni voru óbreyttir
borgarar. Til samanburðar var þessi
tala fimmtíu prósent í þeirri síðari og
sjötíu prósent í Víetnamsstríðinu sem
margir vilja meina að hafi tapast í fjöl-
miðlum. Í ljósi þessa kom það blaða-
manni töluvert á óvart þegar Pilger
greindi frá því í mynd sinni að níutíu
prósent allra þeirra sem létu lífið í Írak
hafi verið óbreyttir borgarar. Þannig
má ljóst vera að bandaríska hernum
hafði tekist að vinna „upplýsinga-
stríðið“ og gott betur.
Heimildamynd Pilgers og Davids
Munro, Year Zero: The Silent Death of
Cambodia, vakti mikla athygli þegar
hún var sýnd árið 1979. Í myndinni
gaf að líta land sem hafði verið
sprengt aftur í steinöld, yfirgefna höf-
uðborg, sveltandi börn, og lækna
sem biðluðu til alþjóðlegra hjálpar-
samtaka um að senda hjálpargögn.
Áhorfendum mátti vera ljóst að fólk-
ið fyrir framan myndavélina var að
deyja úr vannæringu og hungri, og
margt þeirra dó reyndar stuttu síðar.
„Hið dulda stríð
er sannleikurinn“
n John Pilger segir ráðandi fjölmiðla dreifa fréttatilkynningum Hvíta hússins gagnrýnislaust
Blaðamaður spyr Pilger hvaða áhrif
þessi lífsreynsla hafi haft á hann. Aug-
ljóslega heilmikil, segir hann:
„Áhrifin eru umtalsverð. Eitt er að
þetta opnaði augun mín og gerði það
að verkum að ég vildi segja frá „hinni
hliðinni“ – sannleikanum. Ég skuld-
aði það hinu þjáða fólki sem ég festi á
filmu.“
Árás úr launsátri
Meðan á myndatökunni stóð voru
þeir Munro varaðir við því að Pilger
væri á dauðalista Rauðu kmeranna.
Eitt sinn sluppu þeir naumlega und-
an árás úr launsátri. Pilger fjallaði
sjálfur um myndina með þessum orð-
um í grein í New Statesman þann 11.
september 2006:
„Year Zero sýndi ekki einungis fram
á hrylling Pol Pot-áranna, hún sýndi
hvernig „leynilegar“ loftárásir Nixons
og Kissingers á þetta land höfðu ráðið
úrslitum í að undirbúa jarðveginn fyrir
uppgang Rauðu kmerana. Hún sýndi
líka hvernig Vestrið, leitt af Bandaríkj-
unum og Bretlandi, var að þröngva
viðskiptabanni, líkt og um miðalda-
umsátur væri að ræða, upp á laskað-
asta ríki jarðar. Þetta voru viðbrögð við
þeirri staðreynd að frelsari Kambódíu
var Víetnam – land sem hafði tilheyrt
röngum hópi í kalda stríðinu og hafði
nýlega sigrað Bandaríkin.
Þjáning Kambódíu var vísvitandi
hefnd. Bretland og Bandaríkin studdu
meira að segja við kröfur Pol Pot um
að þeirra maður fengi að halda sæti
Kambódíu hjá Sameinuðu þjóðun-
um, á meðan Margaret Thatcher kom
í veg fyrir að barnamjólk kæmist til
eftirlifenda martraðastjórnar hans.
Lítið af þessu komst í fréttirnar.“
Almenningur enn upplýstur
Myndin hafði gríðarleg áhrif á bresk-
an almenning og um 45 milljónir
punda söfnuðust í sérstakri neyðar-
söfnun – þeirri fyrstu sem fram fór
vegna ástandsins í Kambódíu. Pilger
tjáði sig um þetta í sömu grein í New
Statesman:
„Fyrir mér opinberuðu viðbrögð
almennings við Year Zero lygina á
bak klisjuna um „samúðarþreytuna“,
afsökun sem sumir dagskrárstjórar
nota til þess að réttlæta yfirstand-
andi hnignun í átt til bölsýni og
aðgerðaleysis í Stóra Bróðurlandi.
Fyrst og fremst, lærði ég að heimilda-
mynd gæti endurheimt sameiginlegar,
sögulegar og stjórnmálalegar minn-
ingar, og sýnt fram á falinn sannleika
þeirra. Verðlaunin voru samúðarfull-
ur og upplýstur almenningur, og það
er hann enn.“
„Hlutlaus blaðamennska“
ákveðin afstaða
Öllum sem lesa þetta má vera orðið
ljóst að Pilger er ekki hræddur við
að segja skoðanir sínar hátt og skýrt.
Hann byggir þær enda líka á reynslu
og þekkingu sem hann hefur viðað að
sér um áratuga skeið. Blaðamennsk-
an sem Pilger stundar er beinskeytt-
ari, beittari og jafnvel harkalegri en
hin svokallaða „hlutlausa blaða-
mennska“ sem við eigum að venjast.
Ég spyr Pilger hvers vegna hann taki
svo afdráttarlausa afstöðu í verkum
sínum. Hann neitar því hins vegar að
svo sé, snýr dæminu við, og bendir á
að ráðandi blaðamennska sé einmitt
ekki hlutlaus:
„Nei, hin „afdráttarlausa afstaða“
er tekin af þeim sem vinna innan kerf-
isins. Afstaða þeirra er ótvíræð, mögu-
lega ótæk. Þau eru ekki hlutlaus. Þau
flytja fréttir af því sem þeim er sagt;
þau aðlagast viðurkenndum forsend-
um; þau taka hlutina úr samhengi;
þau nota klisjur valdsins; þau fylgja
„línunni“, sama hversu illa skilgreind
sú lína kann að vera. Taki ég afdrátt-
arlausa afstöðu, gengur hún út á að
segja frá því sem valdið vill ekki að ég
eða lesendur mínir fái vitneskju um.
Ég reyni að flytja fréttir út frá lögmæt-
um, siðferðilegum sjónarhóli – svona
„rétt og rangt“ siðalögmáli sem okkur
var ætlað að læra sem börn og ætti að
einkenna starfsævi okkar, sérstaklega
ef við erum blaðamenn.“
Merkingarlaust hlutleysi
Í síðustu heimildamynd sinni,
Utopia, kannar Pilger reynslu frum-
byggja Ástralíu og „niðurrif mennsku
þeirra“ eins og hann orðar það. Fyrir
blaðamann sem hefur fjallað um
hælisleitendur á Íslandi, er ekki kom-
ist hjá því að sjá líkindin þarna á milli.
Í báðum tilvikum er um að ræða
jaðar hópa, svo til réttlausa sem hafa
litla sem enga rödd í samfélaginu –
orð þeirra vega lítið þegar þeim er
mætt með opinberum tilkynningum
stjórnvalda. Blaðamaður spyr Pilger
hvort hlutlaus blaðamennska ráð-
andi fjölmiðla geti í slíkum tilvikum
virkað sem eins konar verkfæri í þágu
þeirra sem hafa völdin. Hann svarar
með því að gagnrýna skilgreininguna
á „hlutlausri blaðamennsku.“
„Aftur notar þú dulið áróðurs-
tungumál – þú ert ekki „hlutlaus“
vegna þess að dagskrárstjóri, eða rit-
stjóri, eða fjölmiðlafræðingur segir þér
að „meginstraumurinn“ sé hlutlaus.
Þetta orð [hlutleysi] hefur misst mál-
fræðilega merkingu sína; það hefur
lítið að gera með staðreyndir, sann-
leikann.“
„Sköpunarverk Vestursins“
Eins greint var frá hér að ofan hefur
Pilger starfað sem stríðsfréttaritari
í fjölmörgum löndum. Undanfarið
höfum við horfst í augu við hryllileg
myndbönd þar sem grímuklæddir
menn „Íslamska ríkisins“ afhausa
blaðamenn í fjarlægum löndum. Það
lítur út fyrir að nýir óvinir séu mættir í
bæinn. En hverjir eru ISIS/ISIL? Geta
þeir (rétt eins og Pol Pot, bin Laden,
Pinochet og fleiri) mögulega þakk-
að Bandaríkjunum völd sín og land-
vinninga?
„Jú, flestir þessara frægu púka
geta þakkað „okkur“ á Vesturlöndum
fyrir völd sín. Hugleiddu hvernig, á
fjórða áratugnum, evrópsku fasistarn-
ir vöktu aðdáun í evrópsku lýðræðis-
ríkjunum. Í Kambódíu hefði Pol Pot
aldrei komist til valda hefði ekki verið
fyrir loftárásir Bandaríkjanna – deja
vu ISIL, áhrifaríkt sköpunarverk Vest-
ursins.“
Staðið uppi í hárinu
á valdníðingum
„Það ríkir ótti á öllum fréttastofum
landsins,“ segir fréttamaður 60
mínútna, Dan Rather, í heimilda-
myndinni Duldu stríði. Ég spyr Pilger
að lokum hvort hann hafi sjálfur
fundið fyrir þessum ótta, og hver sé
besta leiðin til þess að eiga við hann?
„Ég hef verið stoppaður og fældur
frá og ritskoðaður af þeim sem eru
í þjónustu hinna mjög svo valda-
miklu. Það er hættan sem fylgir starf-
inu. Það er þess vegna sem það er svo
mikilvægt að standa uppi í hárinu á
valdníðingum blaðamennskunnar.
Þess vegna eru störf og ögrun upp-
ljóstrara eins og Edwards Snowden,
Julians Assange og Chelsea Manning
svona mikil ógn.“
Heimildamyndin Dulið stríð er
hluti af dagskrá RIFF þetta árið. Pilger
mun sitja fyrir svörum í Bíó Paradís
næstkomandi fimmtudag, að sýningu
lokinni, en hún hefst klukkan 19.30. n
„Næstum
án undantekn-
inga er ekki um blaða-
mennsku að ræða; þetta
er fréttatilkynning Hvíta
hússins í ýmsu formi.
Sannleikurinn í skugganum Níutíu prósent þeirra sem
féllu í átökunum í Írak voru óbreyttir borgarar. Í Duldu stríði er
skýrt hvernig „innmúraður blaðamenn“ urðu leiksoppar í „upp-
lýsingastríði“ bandaríska hersins; þeir fluttu ekki fréttir sem
gátu komið hernum illa. Þannig hvarf sannleikurinn í skuggann
af áróðri í hinum frjálsu fjölmiðlum hins vestræna heims.
Áróðurinn á yfirborðinu Pilger segist sífellt verða vitni að því hvernig sagan endurtekur sig. Nýir óvinir birtast og hverfa, almenningur sér myndir frá Pentagon, af „stjórnstöðvum þeirra“ í frumskógum eða eyðimörkum, en allt sé þetta meira og minna lygi og áróður.
Fylgir starfinu Pilger
segist hafa verið fældur
frá og ritskoðaður af þeim
sem þjónusta valdið.
Það sé hættan sem fylgi
starfinu og því sé svo
mikilvægt að standa uppi
í hárinu á valdníðingum
blaðamennskunnar.