Dagblaðið Vísir - DV - 13.12.2013, Blaðsíða 36
36 Menning
Þ
egar Ísland ruddist inn í
heimsbókmenntirnar í fyrsta
sinn síðan á söguöld var það
í gegnum Frakkann Jules
Verne, sem eins og kunnugt
er lét innganginn að miðju jarðar
vera að finna á Snæfellsjökli. Verne
ferðaðist um alla heima og geima í
huganum en yfirgaf sjaldnast skrif-
stofu sína, og þó þykir mörgum lýs-
ingar hans á Íslandi harla nákvæmar
og hefur bókin loksins verið gefin út
í heild sinni á íslensku. Hvað olli því
að Frakki vissi svona mikið um þenn-
an litla útkjálka á 19. öld, löngu fyrir
tíma túrismans?
Á 19. öld var Ísland dönsk ný-
lenda á áhrifasvæði Breta. Niður-
staða Napóleonsstríðanna var sú að
þó Svíar fengju Noreg yrði eyjan enn
í forsjón hins limlesta Danaveldis,
því sigurvegararnir Bretar vildu ekki
að neinn annar yrði of valdamikill
í Norðurhöfum. Og þó varð það svo
að það voru helst Frakkar sem sóttu
okkur heim á þeim tíma þegar Bretar
réðu heimshöfunum.
Frakkinn Gérard Lemarquis hefur
verið búsettur hér í hartnær 40 ár,
og hefur nýlega gefið út handbók
sem nefnist Reykjavik. Þó bókin sé
á ensku er hún ekki aðeins gagnleg
fyrir ferðamenn, heldur gefur hún
einnig áhugaverða innsýn í sögu Ís-
lands frá sjónarhóli Frakka séð.
Frakkar byggja Höfða
Lemarquis segir að franskir sjómenn
hafi fjölmennt hingað á þar síðustu
öld og að vegsummerki um þá megi
sjá víða. Bannað var fyrir útlendinga
að koma í land nema rétt til að sækja
sér ferskvatn, og því hafi ræðis-
mannsskrifstofa þeirra verið byggð
við sjóinn til að auðvelda þeim að-
gang. Ræðismaðurinn M. Brillouin
lét byggja Höfða, en eiginkona hans
var norsk. Var húsið því byggt í norsk-
um stíl, en skreytt táknum franska
lýðveldisins.
Annað minnismerki um frönsku
öldina er að finna á Frakkastíg, en
þar var spítali ætlaður Frökkum
þessum og dregur gatan nafn sitt af
þeim. Þar störfuðu kaþólskir prestar
sem meinað var að ræða trú sína við
heimamenn, en trúfrelsi varð ekki
hérlendis fyrr en með stjórnarskránni
árið 1874. Vildu Frakkar iðka trú sína
gátu þeir þó farið í kirkju á Landa-
koti, en einn af tveim lögregluþjón-
um bæjarins tók sér stöðu fyrir utan
meðan á messu stóð til að sjá til þess
að lúterskir Íslendingar flæktust ekki
þar inn. Hin upprunalega kirkja var
byggð þar árið 1864, en núverandi
Landakotskirkja var vígð árið 1929 og
var þá stærsta kirkja bæjarins.
Fullir Bretónar brenna hótel
Einhvers staðar þurftu Frakkarnir
þó að gista, og segir Lemarquis að
gistiheimili hafi verið byggt fyrir þá
með útsýni yfir Alþingishúsið, en að
bretónskir fiskimenn á fylleríi hafi
óvart brennt það niður. Eldspýtur
voru vandfundnar í Frakklandi og
skattlagðar mjög, en hér var hægt að
kaupa þær í hrönnum og endurselja
þegar heim kom. Vafalaust hefðu
Bretónarnir þó betur beðið með að
kveikja á þeim þar til runnið var af
þeim. Einnig ágirntust þeir hatta,
hanska og ullarvörur, og létu í skipt-
um kex og það skipsáfengi sem þeir
drukku ekki sjálfir.
Sjómennirnir frönsku settu svip
sinn á bæinn, og var sagt að þeir
stælu rauðhærðum börnum til að
brúka í beitu. En í raun unnu þeir við
erfiðar aðstæður, drukknuðu margir
eða urðu berklum að bráð og helm-
ingur þeirra sem létust var undir 16
ára aldri. Áhrif Frakka hefðu þó get-
að verið mun meiri hérlendis. Upp úr
1860 vildu þeir byggja sér bækistöð
í Dýrafirði til að þurrka fisk og hefði
byggðin átt að telja um 5.000 manns,
eða fleiri en bjuggu í Reykjavík á
þessum tíma. Danir tóku vel í áform-
in en Bretar komu í veg fyrir þau, og
þar við sat.
Gaf íslensku sauðkindinni hala
Það voru líka tignari gestir sem komu
til Íslands frá Frans. Málarinn Auguste
Meyer gerði hér þekktar landslags-
myndir, en bætti þó við smáatriðum
til að gera myndirnar „raunverulegri“,
svo sem að gefa íslensku sauðkindinni
hala. Vísindamaðurinn Gaimard
rannsakaði sköp íslenskra kvenna
fyrir frönsku akademíuna til að kom-
ast að því hvort þau væru eins hér og
annars staðar. Hann snéri aftur heim
með útsaum sem nú hangir á Louvre
og líka lifandi Íslending sem annað-
hvort drap sig með því að stökkva fram
af svölum vegna þess hve mjög hann
saknaði íslensku fjallanna, eða þá datt
fram af á absintufylleríi. Söguna sagði
Benedikt Gröndal, en hann birtist nú í
jólabókaflóðinu í bókinni Sæmd eftir
Guðmund Andra.
Náfrændi Napóleons og
tískudrósir í Reykjavík
Gaimard kom einnig heim með ís-
lenskar kartöflur sem þóttu standa
vel af sér þær farsóttir sem annars
hrjáðu jarðepli álfunnar. Þegar Danir
vildu fá eintak höfðu þeir samband
við Frakka, svo lítil voru tengsl þeirra
við Ísland. Læknirinn Labonne kom
hingað undir lok aldarinnar til að
taka myndir af bændum og vinnu-
hjúum þeirra, en komst þá að því
að bændurnir neituðu að stilla sér
upp með öðrum en ættingjum sín-
um og ályktaði hann að stéttaskipt-
ing hér væri mikil. Tignasti gesturinn
var þó vafalaust náfrændi Napóleons
III. Frakkakeisara. Þegar ball var
haldið til heiðurs honum voru konur
bæjarins beðnar um að koma í ís-
lenskum búningum, en allar mættu
klæddar samkvæmt nýjustu Parísar-
tísku. Sama hvað öðru líður hafa Ís-
lendingar ávallt tollað í tískunni. n
Helgarblað 13.–16. desember 2013
Frönsk áhrif í Reykjavík
n Vísindamaður rannsakaði sköp íslenskra kvenna n Franskir sjómenn unnu við erfiðar aðstæður„Sjómennirnir
frönsku settu svip
sinn á bæinn, og var sagt
að þeir stælu rauðhærð-
um börnum til að brúka í
beitu.
Franskir sjóliðar í Reykja-
vík Franskir sjóliðar með
þvott við þvottalaugarnar í
Laugardal árið 1911, fjær eru
íslenskar konur að þvo þvott.
MyNd LjósMyNdasaFN ReykjavíkuR
valur Gunnarsson
valurgunnars@gmail.com
Höfði Ræðismaðurinn M. Brillouin lét byggja Höfða, en eiginkona hans var norsk. Var húsið því byggt í norskum stíl, en skreytt táknum
franska lýðveldisins.
Landakotskirkja Hin upprunalega kirkja var byggð þar árið 1864, en hin núverandi
Landakotskirkja var vígð árið 1929 og var þá stærsta kirkja bæjarins. MyNd siGtRyGGuR aRi
Gaimard Gaimard fór hringferð um landið
og rannsakaði meðal annars sköp íslenskra
kvenna og kom til Frakklands færandi hendi
með íslenskar kartöflur.