Dagblaðið Vísir - DV - 12.10.2012, Síða 29

Dagblaðið Vísir - DV - 12.10.2012, Síða 29
Viðtal 29Helgarblað 12.–14. október 2012 Sigmundur sem þekkir vel til baráttu foreldra langveikra barna en frum- burður hans, Eydís Edda, lést þann 23. mars árið 2009 eftir erfiða baráttu við hrörnunarsjúkdóm. Hann segir margt hafa breyst til batnaðar í málefnum langveikra en það sé enn langt í land. „ Foreldrar langveikra barna þurfa ennþá að berjast af alefli fyrir þeim sjálfsögðu hlutum sem heilbrigðir njóta. Það getur tekið á og er meðal annars ástæða fyrir hárri skilnaðartíðni for- eldra langveikra barna. Þessi barátta er ekki endilega allra. Sumir gefast upp á leiðinni. Aðrir fórna öllu fyrir hana. Það er mjög ósanngjarnt að samfélagið setji fólki þá afarkosti að berjast af öllu afli fyrir rétti barns síns ella fái barnið ekki sín réttindi. Mér er ógleymanlegt þegar við fórum nokkrir foreldrar barna með þroskahömlum á fund þáverandi fé- lagsmálaráðherra. Hann hafði engan áhuga á samtali við okkur. Ef hann sofnaði ekki á miðjum fundi horfði hann út um gluggann. Satt best að segja hef ég aldrei upplifað aðra eins vanvirðingu gagnvart jafn við- kvæmu málefni. Þegar við óskuðum þess að börnin okkar fengju rétt til búsetu, komin á þann aldur sem flestir fara að hugsa sér til hreyf- ings úr foreldrahúsum, þá kom ráð- herra með þá tillögu að vista mætti börnin okkar úti í Hrísey, væntan- lega eins og hvern annan búfénað í einangrun. Honum datt til hugar að þetta gæti leyst biðlistavandann. Við þessi orð gerðum við uppreisn. Ég skrifaði líklega harðorðustu grein sem ég hef samið í nokkurt dagblað; opið bréf til þáverandi formanns Framsóknarflokksins. Hann hringdi í mig klukkan sjö um morguninn sem blaðið kom út og kvaðst sjálfur ætla að ganga í málið. Og hann leysti það á nokkrum misserum. Þarna sá ég Halldór Ásgrímsson í alveg nýju ljósi.“ Missti trúna á guð Sigmundur Ernir var 23 ára þegar Ey- dís Edda fæddist. Hann segir sig og móður hennar hafa þurft að þrosk- ast ansi hratt þegar í ljós kom að ekki væri allt með felldu með litlu stúlkuna. „Þetta hefur verið stærsta verk efni lífs míns. Að eignast Eydísi breytti mér mikið. Ég var á vissan hátt galgopi áður en ég eignaðist hana; tók lífinu létt og sennilega full létt. Þetta verkefni færði mér ákveðinn ballans í lífinu og ég held að ég hafi orðið á vissan hátt einrænni. Þegar maður tekst á við næsta vonlaust verkefni, eins og kom á daginn, leit- ar maður ósjálfrátt inn á við. Mað- ur spyr sig mjög erfiðra spurninga, ásakar gjarnan sjálfan sig og finn- ur oft til ákveðinnar heiftar í eigin garð þótt ekki væri nema sakir þess að hafa leitt óbærilegan sársauka yfir aðra manneskju. Ég held að sjálfs- ásakanir foreldra langveikra barna með ólæknandi sjúkdóma séu mjög algengar en eðlilegar. Það getur verið mjög erfitt að deila þeim með öðrum sem þekkja ekki þær tilfinningar. Í tilviki dóttur minnar var um ei- lífa afturför að ræða. Í raun kom sjúk- dómurinn fram af svo mikilli grimmd að það var ekki einasta að maður missti trúna á almáttugan guð og al- góðan heldur líka svolítið trúna á sjálfan sig. Manni fallast þá stundum hendur. Það er ekkert ósanngjarnara eða erfiðara í lífinu en að geta ekki hjálpað barninu sínu,“ segir hann og neitar því að hafa aftur fundið trúna á þann almáttuga. „Mín niðurstaða er sú að almáttugur og algóður guð í einhverju hásæti gæti ekki leitt svona hluti yfir nokkra manneskju. En ég trúi á minn hátt, trúi á það góða. Ég held að Jesús Kristur myndi kjósa Samfylkinguna,“ segir hann og þeg- ir um stund áður en hann heldur alvarlegur áfram: „Ég hugsa til Ey- dísar Eddu daglega; oft á dag, alla daga. Hún kenndi mér fyrst og fremst að meta lífið og fjölbreytnina. Hún kenndi mér umburðarlyndi, að virða margbreytileika lífsins, að gera alltaf ráð fyrir því að engir tveir eru eins og jafnframt að dást að samfélagi fjöl- breytileikans. Eydís var sönnun þess að fjölbreytileikinn gerir samfélögin áhugaverð en einsleitnin gerir þau hættuleg. Þegar hún dó missti ég stóran hluta af mínu sjálfstrausti. Ég missti stóran hluta af minni meðfæddu glettni. Ég held að barnsmissir breyti öllum foreldrum,“ segir hann og það er greinilegt á röddinni að sorgin ristir ennþá djúpt. „Ég er á því að sár- in lækni tímann frekar en að tíminn lækni einhver sár.“ Missti dóttur og vinnu Daginn áður en Sigmundi og Elínu var sagt upp störfum höfðu læknar tilkynnt fjölskyldunni að Eydís myndi kveðja á næstu dögum. „And- lát hennar var undirbúið en það var merkilegt að um leið og við misstum dóttur okkar misstum við vinnuna. Við misstum því ansi mikið á þess- um tveim dögum. Auðvitað leggur maður ekki dóttur og vinnu að jöfnu en það hjálpaði engan veginn í öllu sorgarferlinu að standa bæði uppi at- vinnulaus.“ Hann segir erfiðleikana hafa styrkt samband þeirra Elínar. „Sam- band okkar efldist en það var ekki sjálfgefið. Afi Sigmundur sagði ein- hverju sinni við mig, og ég notaði það í nýjustu ljóðabókinni, að maður ætti að vera bjartsýnn, ná sér í góða konu og kjósa Framsóknarflokkinn. Það væri uppskrift að góðu lífi. Ég er sammála þessu með bjartsýnina og konuna. Ég veit að það hljómar eins og klisja en það er dagsatt að ég hefði aldrei staðið mig jafn vel í barátt- unni með Eydísi ef Ellu hefði ekki notið við. Hún er fósturmóðir Ey- dísar en tók henni sem sinni eigin dóttur,“ segir hann en bætir við að Elínu hefði dreymt fyrir Eydísi þegar hún bjó í París á sínum námsárum. „Henni kom engan veginn á óvart þegar hún fékk Eydísi óvænt upp í hendurnar sem sitt fyrsta barn. Ey- dís var þá fimm ára og á sama tíma eignuðumst við okkar fyrstu dóttur saman. Þannig eignaðist hún tvær dætur í einu en Eydís flutti alveg til okkar á þessum tíma.“ Samfelld hrörnunarsaga Hann segir andlát Eydísar hafa haft mikil áhrif á alla fjölskylduna. „Við erum miklu nánari og það á við allan hópinn, mína fyrrverandi konu, son af fyrra hjónabandi og mín börn af seinna hjónabandi og seinni konu. Allur hópurinn þéttist. Ef til vill erum við betri manneskjur fyrir vikið. En ég hef stundum sagt að mér finnist það helvíti hart að hafa orðið betri maður á kostnað annarrar mann- eskju.“ Hann segir dótturmissinn ekki hafa haft þau áhrif að hann óttist meira um hin börnin. „Blessunar- lega eru þau öll hraust og til alls lík- leg. Saga Eydísar var hins vegar sam- felld hrörnunarsaga. Auðvitað gat maður alltaf reiknað með endalok- unum en það gerir ekkert foreldri.“ Sigmundur á tvö börn af fyrra hjónabandi, Eydísi Eddu og Odd, og þau Elín eiga saman fjögur börn, Birtu, Rúnar, Erni og Auði. Þrátt fyrir barna- lánið er Sigmundur ekki enn orðinn afi. „Börnin mín, sem komu á eftir frumburðinum, eru meira og minna svo miklar listaspírur að hjónaband og ráðdeild á einhverju föstu heimili eru út úr myndinni. Þetta eru krakkar sem vilja njóta lífsins.“ Alltaf jafn ástfangin Hann og Elín unnu saman til fjölda ára á fréttstofu Stöðvar 2 en Sig- mundur segir tilviljun hafa leitt þau saman. „Ég nefndi það í einu minna ljóða að tilviljun væri annað heiti á lífinu. Þegar við veltum lífs- göngu okkar fyrir okkur þá má segja að tilviljun sé stærsti orkugjafinn sem knýr þetta allt saman. Í okkar tilviki féll mikil aurskriða yfir hálfan Ólafsfjarðarbæ. Ég flaug norður og átti að vera í beinni útsendingu um kvöldið en þá var verið að taka upp skemmtiþátt í Sjallanum. Ég settist í stól hjá förðunarfræðingi sem var nýkominn heim frá París og féll fyrir þessari vestfirsku konu sem greini- lega á ættir sínar að rekja til „Í raun kom sjúk- dómurinn fram af svo mikilli grimmd að það var ekki ein- asta að maður missti trúna á almáttugan guð og algóðan heldur líka svolítið trúna á sjálfan sig. „… um leið og við misstum dóttur okkar misstum við vinnuna.

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.