Són - 01.01.2006, Page 50
HJÖRTUR MARTEINSSON50
tíma upplýsingarinnar í Evrópu. Hins vegar flutti rómantíska stefnan
með sér endurvakinn áhuga á hinu klassíska, háleita og fagra og
jafnhliða honum gekk sonnettan í endurnýjun lífdaga. En áhugi
skálda á ljóðformi sonnettunnar var þó ekki einvörðungu tengdur
tíma rómantíkurinnar. Segja má að flest nafnkunnustu skáld í Evrópu
hafi ort sonnettur. Nægir þar að nefna skáld eins og Shakespeare,
Spenser, Wordsworth og Milton á Englandi; Goethe, Schlegel og
Schelling í Þýskalandi; í Frakklandi Ronsard og symbólistanna
Baudelaire, Verlaine og fleiri og á Spáni Lope de Vega, svo fáir séu
nefndir. Í Danmörku kvað helst að skáldunum Schack Staffeldt,
Frederik Paludan-Müller og Sophus Claussen. Líklega hefur Jónas
Hallgrímsson kynnst ljóðformi sonnettunnar í ljóðum danskra og
einnig þýskra skálda.
Fullyrða má að sonnettan hafi – allt frá því að hún leit dagsins ljós
suður á Ítalíu – skipað sérstæðan sess á fjölskrúðugum akri brag-
fræðinnar og ekki örgrannt um að ákveðinn ljómi hafi alla tíð leikið
um nafn hennar. Umfram önnur bragform má nefnilega halda því
fram með nokkrum rétti að sonnettan sé í reynd ákveðið ljóðform eða
kveðskapargrein fremur en bragarháttur.
Þegar mið er tekið af hinni ítölsku frumhefð Petrarca blasa í fyrsta
lagi við braglínurnar fjórtán sem hver um sig er jafnan ýmist 10 eða 11
atkvæði. Hinar fjórtán braglínur hafa löngum þótt sterkasta kenni-
mark sonnettunnar á pappírnum enda þótt skáldin hafi, er leið á
aldirnar, ýmist stytt eða aukið við þær ásamt öðrum tilraunum á
formi sonnettunnar. Í annan stað einkenndist sonnettan í upphaflegri
gerð sinni og reyndar lengi framan af öldum af fimm bragliðum í
hverri braglínu og að síðustu mætti nefna rímskipanina sem Petrarca
festi í sessi á forminu ABBA / ABBA / CDE / CDE. Það væri hins
vegar að æra óstöðugan að telja upp öll þau afbrigði rímskipunar sem
komið hafa fram í sonnettum skálda í gegnum tíðina.
Eins og áður sagði gekk sonnetta í gegnum ýmsar breytingar og
þróun er hún barst til annarra landa Evrópu. Þar vegur þyngst sú
breyting sonnettuformsins á Englandi fyrir daga rómantíkurinnar sem
kennd hefur verið við Shakespeare, Spenser og Milton. Í Frakklandi
hafði ríkjandi bragarháttur alexandrínunnar þau áhrif að bragliðir
franskra sonnettan urðu sex en ekki fimm og þannig barst sonnettan
Þjóðverjum í upphafi þótt þýsk skáld hafi síðar lagað form hennar að
ítölsku hefðinni.
Það sem nú hefur verið tíundað ætti að minna á það hversu erfitt