Són - 01.01.2006, Page 53
„GULLBJARTAR TITRA GÁRUR BLÁRRA UNNA“ 53
Formskilningur og fegurðartilfinning Jónasar Hallgrímssonar, sem
lágu skáldskaparviðhorfum hans til grundvallar, koma glögglega
fram í hinum fræga ritdómi hans um Rímur af Tistrami og Indíönu eftir
Sigurð Breiðfjörð í 3. árgangi Fjölnis árið 1837. Að baki ritdómnum
lágu fullkomlega breytt viðmið til hinna fagurfræðilegu þátta kveð-
skaparins um leið og hann fól í sér dóm yfir þeirri kveðskapargrein
sem Íslendingar höfðu iðkað af hvað mestum þrótti í gegnum ald-
irnar. Enda þótt Jónas hafi ekki ætlað sér að kollvarpa rímnahefðinni
voru dagar rímnanna senn taldir.
Ráða má af ritdómi Jónasar að hann hafi aðhyllst þá hugsun, sem
reyndar var í hávegum höfð af mörgum rómantískum skáldum þessa
tíma, að á milli forms kvæðis og efnis þess hafi orðið að ríkja full-
komið samræmi. Þennan skilning á tengslum forms og inntaks bók-
menntaverksins má fyrst rekja til heimssýnar rómantískra skálda.
Krafa þeirra fól í sér að sérhver listamaður væri margbreyttur í tján-
ingu sinni en eigi einhamur. Af þeim sökum lá sú krafa á skáldum og
listamönnum að þeir hefðu á valdi sínu margs konar tjáningarform.
Árás Jónasar á Rímurnar af Tistrami og Indíönu stafaði fyrst og fremst af
því að hann hafði fengið nóg af einsleika tjáningarinnar. Rímna-
formið var í hans augum orðið gatslitið og innantómt. Andstætt þessu
bar fortíðin með sér ferskleika og nýjar víddir inn í kveðskapinn – ný
skáldskaparform, nýja bragarhætti.
Dálæti Jónasar Hallgrímssonar á fornum bragarháttum og útfærsla
á þeim kallaðist á við dýrkun rómantískra skálda á hinni gullnu forn-
öld Evrópu. Ein grein af hinum fjölþætta meiði menningararfs forn-
aldarinnar voru klassískir bragarhættir. En fjölbreytt beiting Jónasar á
fornum innlendum og klassískum bragarháttum verður þó ekki ein-
ungis rakin til dálætis hans á gullöld íslenskra (og annarra evrópskra)
bókmennta. Hún snertir í raun kjarna hinar rómantísku heimssýnar:
kröfuna um að skáldin færðu með sér stöðuga nýbreytni, könnuðu
sífellt dulin svið skynjunarinnar og endurspegluðu kannski umfram
allt í skáldskapnum brot af frumleikanum – kjarna alls lífvænlegs skáld-
skapar. Með því lagði hvert skáld áherslu á sérstöðu sína og um leið
tengsl við hefðina þegar það orti í anda hennar.
Óhætt er að fullyrða að Jónasi hafi tekist í kveðskapnum að
tvinna listræna formskynjun saman við efni og boðskap og þar
virðist litlu hafa skipt undir hvaða háttum hann orti. Eins og kunn-
ugt er yrkir Jónas Hallgrímsson flest kvæða sinna, eða um tvo þriðju,
undir fornum háttum eddukvæða – einkum fornyrðislagi, sem var