Són - 01.01.2006, Blaðsíða 58
HJÖRTUR MARTEINSSON58
‚engillinn‘ vera of kímilegur, en orðið ‚söngvari‘ líkar okkur ekki, en
kvæðið er – som sagt – mesta gull.“10 Hvergi er getið um það í fund-
argerðabókum að Fjölnismenn hafi á þessu löngu liðna kvöldi velt
vöngum yfir formi kvæðisins. Slík umræða hefur líklega verið þeim
fjarri – það sem sem mestu skipti var sá fagnaðarboðskapur sem
kvæðið flutti löndum þeirra heima á Fróni.
Augljóst er að sonnetta Jónasar, Ég bið að heilsa!, borin upp við ljós
hefðarinnar, sver sig í ætt við ítalska gerð, Petrarca-sonnettunnar.
Jónas bætir þó við rímhljómum í sonnettu sinni – þeir eru sex en ekki
fimm eins og ítalska hefðin kvað á um. Rím átthendunnar er kvenrím
en í sexhendunni fara saman kven- og karlrím. Þetta er dálítið
skemmtilegt og kallast á við merkingu kvæðisins. Þannig einkennist
sá hluti þess, sem lýtur kvenrími, af hugblæ saknaðar og þrár
skáldsins eftir hinu kvenlega en í sexhendunni verður vart meiri ná-
lægðar þessara tveggja afla og það er undirstrikað með ríminu. Bygg-
ing kvæðisins sver sig nokkuð í ætt við hina röklegu framvindu. Í fyrri
hlutanum kynnir skáldið til sögunnar grundvallarandstæður kvæðis-
ins – hið fjarlæga og nálæga sem endurspeglast í mynd fósturjarðar-
innar og fuglsins sem hvort tveggja verða honum tákn fyrir þá ást
sem hann ber til stúlkunnar og landsins. Í næstu erindum vinnur
hann frekar úr efninu og ljóðinu lýkur á afdráttarlausri ástarjátningu
skáldsins til landsins og stúlkunnar heima í dalnum.
Eins og fyrr sagði er ljóðstafasetningin einkennandi fyrir íslensku
sonnettuna. Átthendan sver sig í ætt við hefðina hvað þetta atriði
varðar en hins vegar virðist ljóðstafasetning sexhendunnar, fljótt á
litið, vera nátengd eða lík því sem gerist í hinum forna ljóðahætti
eddukvæðanna og fjölda annarra hátta sem síðar rötuðu inn í ís-
lenska ljóðhefð, til dæmis sálmahátta. Þannig eru þriðja og sjötta lína
sexhendunnar, eins og í ljóðahættinum, sér um stuðla og sú hefð er
furðu lífseig lengi framan af innan sonnettukveðskaparins. Ljóðstafa-
setningin tengist yfirleitt hjá Jónasi þeim orðum sem bera uppi
merkingu ljóðsins þó hann víki stundum nokkuð frá þeirri reglu er
varðar notkun sína á edduháttum.11
Jónas víkur allmikið frá hefðinni í Nú rís um aldir árið hvurt um sig,
eins og betur verður komið að hér á eftir í kaflanum um ljóðstíl.
10 Brynjólfur Pétursson (1964:49).
11 Sjá Sveinn Yngvi Egilsson (1992:259).