Són - 01.01.2012, Síða 20
20 Gunnar Skarphéðinsson
verið landskunn á 13. öld, þá má skoða M þannig að þarflaust hafi
verið að fela nafn Solveigar mjög vendilega. Hitt hafi hins vegar farið
miklu betur að nefna það ekki berum orðum en fela nafnið lítillega
eins og hér er gert.
Nöfnin Rannveig og Solveig hafa vísast haft áþekka merkingu í vitund
manna á 13. öld, þ.e. ‘hin þróttmikla húsfreyja’ eða eitthvað í þeim dúr.
Erindið í heild gæti vel átt að segja einhverja leynda sögu eða senda
„vissu fólki“ tóninn.41
Í tuttugasta erindi, sem er reyndar aðeins fjórar línur, því að stefið
myndar seinni hlutann, skopast skáldið að þeim seggjum sem eru ást-
blindir og kunna ekki fótum sínum forráð. Skáldið bætir við: marga hefir
það hyggna tælt. Þetta getur auðvitað alla hent en vísuhelmingurinn kemur
prýðilega heim ef við hugsum okkur Snorra gera grín að sjálfum sér og
málum þeirra Solveigar. Hann er þó vissulega mjög almennur og fellur
einnig vel að efni stefsins, þ.e. ástum Haralds konungs hárfagra og Snjó-
fríðar, en Haraldur unni Snjófríði „með ærslum“, eftir því sem sagan segir.
Í tuttugustu og fyrstu vísu eru það síðustu tvö vísuorðin sem við
stöldrum við: Fasthaldur varð á Fenri lagður, / fíkjum var hann mér ramm
ligur sagður. ‘Fjöturinn (þ.e. Gleipnir) var lagður á Fenrisúlf, sá var mér
sagður feiknasterkur’. Hér er tvennt sem benda má á: efni úr Snorra
Eddu um úlfinn bundinn og svo orðið fasthaldur sem einnig kemur þar
fyrir sem nafn á einhvers konar nagla.42 Samkvæmt LP kemur orðið
aðeins fyrir á þessum tveimur stöðum.43 Það er einnig athyglisvert að
orðið, sem er samsett, ber með sér að vera einhvers konar „smíð“ ef
svo má segja. Það hefur ef til vill aldrei verið beint lifandi mál heldur
smíðað af skáldi í ákveðnu skyni.
Í tuttugasta og öðru erindi kemur mannsnafnið Gizur fyrir en það var
eitt af fjölmörgum nöfnum Óðins. Rétt þykir að birta erindið í heild:
Grandvar skyldi hinn góði maður.
Gizur varð að rógi saður,
etja vildi hann jöfrum saman.
Ekki er mér að stúru gaman.
Kunna vilda eg sjá við snörum.
Sjaldan hygg eg að gyggi vörum.
41 Sjá hér á eftir viðauka um sögu Solveigar Sæmundardóttur. Þar kemur t.d. fram að hægt
að er skilja hendinguna bráðfengur þykir brullaups frami, og ef til vill erindið í heild, býsna
beinum skilningi út frá sögu þeirra þriggja Solveigar, Sturlu Sighvatssonar og Snorra.
42 Gunnar Skarphéðinsson (2004:59).
43 Sveinbjörn Egilsson (1931:123).