Són - 01.01.2012, Page 69
Stuðlasetning í fimm bragliða vísuorðum 69
orði annaðhvort í 1. og 5. atkvæðum eða í 3. og 5. atkv. (en ekki víðar
þar).“ Það er að segja í 1. og 3. braglið eða í 2. og 3. braglið. Aðrar
samsetningar komi ekki til greina. Reyndar er villandi að í umfjöllun
Helga um stuðlafall segir hann aðeins: „Sama ljóðstöfun á hér við
sem í hinum bragættunum“ (bls. 222) en 197 dæmi sem hann tekur
af hættinum fylgja öll reglunni sem hann hafði sett fram á bls. 48,
utan eitt.13 Því miður skýrir Helgi ekki út hvers vegna stuðlun aftar í
braglínu er óheimil. Þetta er, að því er best verður séð, í fyrsta sinn sem
reglunni er lýst á prenti. Þegar bók Helga kemur út eru þó liðin meira
en 400 ár frá því stuðlafall varð til og fjöldi rímna hefur verið ortur þar
sem reglunni er fylgt út í æsar. Brot gegn henni eru sárafá. Höfundur
þessarar greinar hefur leitað lúsa í nokkrum þúsundum vísna í rímum
undir þessum háttum frá ýmsum tímum. Aðeins örfá dæmi hafa fund-
ist um stuðul í fjórða og/eða fimmta braglið, svo fá að líta verður á þau
sem undantekningar.14
Ragnar Ingi Aðalsteinsson (2012:66) bendir á að aðrir hættir með
fimm bragliði í línu – og þeir eru algengir – setji ekki þessar skorður.
Hann tilfærir tvær braglínur úr sonnettunni alkunnu, Ég bið að heilsa,
eftir Jónas Hallgrímsson (1989:197):
a. | Vorboðinn | ljúfi, | fuglinn | trúr sem | fer
b. í | sumar- | -dal að | kveða | kvæðin | þín
Vert er að hafa í huga að í stuðlafalli og vikhendu er fyrsta braglína
sérstuðluð en í dæmunum hér kallast hún á við höfuðstaf í annarri
línu. Að því er nánar vikið aftar í þessum kafla (Tilgáta 3).
Hér mætti tína fleira til úr ólíkum háttum:15
13 Vísa nr. 188 á bls. 237.
14 „Brotlegasta“ ríman sem ég hef fundið er fjórða ríma Bjarna Jónssonar
Borgfirðingaskálds af Flóres og Leó (Bjarni og Hallgrímur Pétursson, 1956:44–59)
frá byrjun 17. aldar. Þar stuðlar Bjarni aftar en í þriðja lið í þremur vísum af hundrað
fjörutíu og tveimur. (44: Þegar magann sveinn tók ljóns að sjúga. 51: Tárug kæran
málróm manna heyrir, 93: Skiparar sjá að kom með barnið kæra.) Væri sértæku
reglunni ekki til að dreifa mætti hins vegar búast við að þannig stuðlaðar vísur skiptu
tugum. Auk þess er eitt dæmi túlkað sem ofstuðlun fremur en stuðlun í 3. og 4. braglið
(123: Til Jerúsalem seggir sóktu dýrir). Hafa ber í huga að rangar uppskriftir voru
tíðar enda getur Finnur Sigmundsson þess í inngangi sama rits (bls. xi) að ríman sé
með ýmsum hætti í uppskriftum, jafnvel vísur þar sem innihaldið er ósk höfunda um
að ljóðin verði ekki færð úr lagi.
15 Eftirfarandi dæmi eru úr ljóðum sem skráð eru í Braga, óðfræðivef í fullri lengd ásamt
upplýsingum um bragarhátt þeirra.