Són - 01.01.2012, Page 144
144 Kristján Jóhann Jónsson
ekki að sitja í því skorðuðu á þurru landi eins og Símon. Efni vísn-
anna 260 mætti draga saman á þennan hátt: Íslendingasagnahetjan
Búi Andríðsson ber sverðshjöltum þrisvar á norskan klettastall sem
opnast og inni fyrir stendur stór og falleg kona. Hann er kominn að
biðja um gulltafl handa Haraldi konungi sem ætlast til þess að Búi
verði drepinn. Konan fagra er dóttir Dofra konungs. Hún tekur Búa
að sér, hann gistir hjá henni, með þeim takast ástir og konan er frjáls-
mannleg og áhyggjulaus. Búi kynnist fjölskyldu unnustu sinnar og þau
honum. Faðir brúðarinnar samþykkir ráðahaginn eftir nokkurt þóf,
Búi fer með brúði sína heim en sonur þeirra sem getinn var í fjallinu
er vistaður hjá fjölskyldu móðurinnar.
Ljóðmælandi er víða spaugsamur og veit að hann er að segja
ævintýri sem engum dettur í hug að trúa. Hins vegar fjallar ævintýrið
um alvarleg efni sem skipta okkur öll máli. Það er ort um ást, tryggð,
heiðarleika og dirfsku. Skip skáldskaparins er komið á siglingu inn í
heim jötna þar sem tilfinningarnar eiga sinn rétt og „jötna frúr“ ragast
ekki í smáatriðum. Búi og Fríður láta blessun guðs og náttúrunnar
duga en tala ekki við prest. Salir Dofra konungs eru glæsilegir en hann
er hættulegur og Fríður Dofradóttir leiðir Búa framhjá hættunum og
varar hann við því hún er dóttir föður síns og kona fyrir sinn hatt. Hún
ráðleggur honum að segjast ekki þekkja Harald konung og hún lætur
stinga sendimanni Dofra svefnþorn svo að Haraldur fái ekki fyrirspurn
um þennan mann. Á meðan þroskast ástir þeirra og Búi kynnir sig vel.
Sjálfur er Búi vörpulegri en gengur og gerist svo að jötnarnir hafna
honum ekki. Svefnþornsmálið kemst upp, Dofri þegir en fer með liði
sínu í hættulega sleðaferð yfir fjöll og firnindi og býður þeim Búa
og Fríði með. Þau beita hvort annað hæfilegum brögðum feðginin.
Jötnafjölskyldan í sleðaferðalaginu hittir Harald konung harðráða í
veiðihúsi Dofra, Haraldur bregst illa við þegar hann sér Búa á lífi en
Dofri gefur honum þá hið umdeilda tafl og gengur þannig í lið með
dóttur sinni og ást hennar. Dofri er vitur, hann veit að öld jötna er
liðin, hann blessar yfir hjúin og biður þau að vera hvort öðru góð.
Hann vill blanda kynþætti jötna og manna og telur það báðum til
góðs. Vafalaust er hægt að kalla þetta fjölmenningarsinnað viðhorf !
Búi og Fríður í kvæðinu flytja svo til Íslands og eignast soninn Jökul
sem fór í fóstur til tröllanna eins og áður var nefnt.
Þetta er saga af ást og heiðarleika sem sigra að lokum en ljóðmæl-
andinn trúir því að okkur hafi farið aftur og að við gætum lært af
fortíðinni. Gagnrýnin á samtíðina er góðlátleg en krefst þess að við
íhugum hver við erum og hvert við stefnum: