Són - 01.01.2012, Page 191
Fáein orð um ofstuðlun og aukaljóðstafi 191
að þó svo að tíðni bæði ofstuðlunar og aukaljóðstafa fari algjörlega
úr böndum um tíma sjást engin merki um tilhneigingu skálda til að
sleppa ljóðstöfunum, þ.e. að þeir verði of fáir eða þá vanti algjörlega.
Þetta bendir til þess að ofstuðlunin hafi ekki stafað af virðingarleysi
fyrir kveðskaparreglum heldur því að reglunum hafi verið vikið til,
eða að skáldin hafi teygt á mörkunum hvað þetta atriði varðaði og
leyft sér undantekningar í þessa átt (of marga ljóðstafi) en ekki hina
(of fáa). Í annan stað blasir við sú staðreynd að staðsetning ljóðstafa
er alltaf samkvæmt reglunum. Ef frumlínan er fjórar kveður, sem er
algengasta kveðuskipan í íslenskum skáldskap, þá er alltaf stuðull í 3.
kveðunni.6 Höfuðstafur er alltaf í fremsta áhersluatkvæði í síðlínunni.
Þó að stuðlar verði í mörgum tilvikum of margir eða hljóð höfuðstafs
sé endurtekið í síðlínunni hafa skáldin fullkomna reglu á óreglunni,
ef svo má taka til orða, og fylgja af stakri nákvæmni reglum um stað-
setningu ljóðstafanna.
Ástæður fyrir þeirri aukningu á ofstuðlun og aukaljóðstöfum sem hér
hefur verið lýst liggja ekki ljósar fyrir og erfitt að fullyrða um að nokkur
ein ástæða liggi þar að baki. Líklegast er að þar vinni saman einhverjir
samverkandi þættir. Þó hefur verið bent á að þessi breyting geti tengst
lengri braglínum. Hrynhendur háttur nær miklum vinsældum á 14. öld,
sbr. Lilju Eysteins Ásgrímssonar o.fl. ljóð, en þar eru braglínur sem kunn-
ugt er einni bragstöðu lengri en í dróttkvæðum hætti, eða fjórar kveður
(hátturinn var reyndar þekktur fyrr). Í kveðskap frá 16. öld er algengt að
braglínur séu fjórar eða fimm kveður.7 Hugmyndin er þá sú að eftir því
sem braglínur lengist verði freistandi fyrir skáldin að gefa eftir og leyfa
sér frávik sem hefðu stungið um of í eyru í styttri braglínum. Þetta var
skoðað sérstaklega í rannsókninni.8 Þar koma fram vísbendingar um að
bein tengsl séu milli ofstuðlunar og braglínulengdar.
Það sem er þó undarlegast af öllu þegar skoðuð er þróun stuðla-
setningar á Íslandi yfir það nær 1200 ára tímabil sem hér um ræðir er
sú staðreynd að í lok 17. aldar og byrjun þeirrar 18. leggst ofstuðlun
nánast alveg af. Það sama gildir um aukaljóðstafi. Skyndilega ákveða
íslensk skáld og hagyrðingar að virða fornar reglur um fjölda ljóðstafa
í hverju braglínupari og það verður breyting á bragnum.9 Þetta helst
6 Í rannsókninni sem hér er greint frá voru skoðuð 13626 braglínupör en aðeins fannst
eitt dæmi um fjögurra fóta frumlínu þar sem vantaði stuðul í 3. kveðuna (sjá RIA
2012:279–280).
7 Sbr. til dæmis Píslargrát og Ljómur eftir Jón Arason.
8 RIA 2012:257 o.áfr.
9 sjá RIA 2012:262 o.áfr.