Glóðafeykir - 01.11.1977, Síða 23
GLOÐAFEYKIR
21
Hins vegar er svo til ætlazt, að prestþjónustubækur og dóma- og þinga-
bækur, svo að eitthvað sé nefnt, verði fengið Þjóðskjalasafni til varð-
veizlu. Ef ágreiningur verður um geymsluskyldu, sker þjóðskjalavörður úr.
Mikið vantaði á, að Héraðsskjalasafn Skagfirðinga gæti fullnægt þeim
skyldum, sem því var ætlað að rækja skv. lögum og reglugjörð.
Framan af hafði safnið aðeins einn skáp í bókasafninu til afnota.
Séra Helgi Konráðsson, sem var lífið og sálin í safnamálunum, hafði
sett sér það markmið að hefja bókasafnið til vegs. Þegar hann kom að
safninu, var bókaeign þess eftir áratuga starfrækslu naumast meiri en
nú gengur og gerist um einkabókasöfn. Honum tókst að margfalda bóka-
eign þess. Það var því skiljanlegt, að Héraðsskjalasafnið yrði hálfgert
olnbogabarn fyrstu árin, þótt ýmsir mætir menn stæðu vörð um það, ásamt
séra Helga og Jóni á Reynistað. Almenningur bar það ekki svo mjög
fyrir brjóstinu, en kunni að vonum betur að meta gengi bókasafnsins.
Gekk því greiðar að afla fjár til þess.
Þó var ekki setið auðum höndum: Öll handrit Sögufélags Skagfirðinga
runnu til héraðsskjalasafnsins, og kapp var lagt á afritun skagfirzkra hand-
rita sem fyrr. Hins vegar gekk innheimta skiljanlega stirt. Sá, sem þetta
ritar, var fenginn til að skrifa öllum sýslunarmönnum í héraðinu og
krefjast skila á gjörðabókum, en árangur varð sáralítill; og var við það
látið sitja að sinni. Ekki var þess kostur, að safnið hefði auglýstan
afgreiðslutíma, svo sem lög mæltu fyrir um. Vegna þess fékk almenningur
ekki þau kynni af safninu, sem æskileg hefðu verið. Var það bagalegt, því
að alltaf bættist því í búið.
Um 1960 fékk héraðsskjalasafnið lítið herbergi til afnota í bókhlöð-
unni, en söfnin höfðu þá fyrir nokkrum árum eignazt allt húsið. Litlu
fyrr var í svo mikið ráðizt að kaupa lesfilmusafn það, sem löngum hefur
verið kennt við Mormona frá Utah, þar eð þeir hófu hér fyrstir að
festa handrit á filmu. Safn þetta geymir kirkjubækur landsins frá fyrstu
tíð fram um 1950, dóma- og þingabækur, aðalmanntöl, skiptabækur,
fermingarskýrslur, öll helztu ættfræðirit, prenmð sem óprentuð; má þar
nefna Æfi lærðra manna eftir dr. Hannes Þorsteinsson (66 bindi),
Prestaævi Sighvats Borgfirðings o. fl. Um leið var keypt ágæt lesvél á
þeirrar tíðar mælikvarða.
Fljótt þrengdist um handritasafnið í nýju vistarverunni, og var vinnu-
aðstaða aldrei góð. Sögufélag Skagfirðinga hafði þar bækistöð sína,
og þar var unnið að undirbúningi bóka félagsins. Það hafði á þessum árum
komið sér upp miklu mannamyndasafnL Enn sem fyrr voru almenn
handrit í miklum meirihluta. Þó bættust safninu í bú ýmis gögn frá
Þjóðskjalasafni.