Skírnir - 01.01.1958, Síða 12
10
Halldór Halldórsson
Sklrnir
fjörS, sú er áður var á minnzt, og GuÖriý, er giftist Birni
Bjarnarsyni, sýslumanni á Sauðafelli í Dölum.
Finnur Jónsson ólst upp á Akureyri fyrstu sjö ár ævinnar,
sex fyrstu árin inni í Fjöru, en síðasta árið á Eyrarlandi á
Syðri brekkunni, rétt sunnan við Menntaskólann. En árið 1865
fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur, og mun einkum tvennt
hafa valdið þeirri ráðabreytni. Jón Borgfirðingur hefir vænzt
þess, að hann fengi betri atvinnu syðra, og menntunarskilyrði
fyrir börnin voru þar miklu betri. En það var mikið fyrirtæki
á þeirri tíð að ráðast í slika flutninga, því að farið var land-
leiðis á hestum til Reykjavíkur. Eftir þetta ólst Finnur upp í
Reykjavík, þar til hann sigldi til háskólanáms. Eitt sumar var
Finnur í sveit hjá séra Eggert Briem á Höskuldsstöðum á
Skagaströnd, en aðallega fékkst hann við verzlunarstörf á
sumrum, en nám á vetrum. Barnaskóla sótti Finnur aldrei,
heldur lærði hjá ýmsum í einkatímum, m. a. Jóni Ólafssyni
ritstjóra, hinum landskunna blaðamanni og stjórnmálamanni.
Yar Finni síðan alla tíð vel til Jóns, þó að hann telji að vísu,
að lítið hafi orðið úr kennslunni. Þá lærði Finnur einnig undir
skóla hjá Guttormi Vigfússyni, sem mikið orð fór af sem
latínumanni og kennara. Undir inntökupróf í Latínuskólann
las Finnur af kappi og stóðst það vorið 1872.
Næstu sex árin stundaði Finnur nám í Latínuskólanum og
lauk stúdentsprófi við hann vorið 1878 með fyrstu einkunn
(89 stigum). Samsumars lagði hann af stað til Kaupmanna-
hafnar til háskólanáms. Þótti það í mikið ráðizt, því að hann
gat einskis stuðnings vænzt að heiman, heldur varð að lifa af
Garðsstyrknum einum. Fyrsta veturinn bjó hann með Gesti
Pálssyni og ber honum vel söguna, þótt hann segi raunar, að
hann hafi þótt „drykkfeldur, og heldur ekki . . . verið laus
við kvennafar“.
Finnur hóf þegar að lesa af kappi, er til Hafnar kom, og
lagði stund á málfræði. Námsgreinimar voru fjórar: latína,
gríska, mannkynssaga og norræna. Um þessar mundir mun
það hafa tekið flesta danska stúdenta sjö til átta ár að ljúka
prófi í þessum greinum. En Finni var það frá upphafi ljóst,
að hann hafði ekki efni á að eyða svo miklum tíma í námið.