Skírnir - 01.01.1958, Page 24
22
Halldór Halldórsson
Skirnir
náttúru síns eigin lands en náttúru einhvers annars lands.
En svo kann líka vel að vera, að einhverjir landnámsmanna
hafi ort að minnsta kosti sum þessara kvæða. En hvort eru þau
þá norsk eða íslenzk? Eru t. d. kvæði Stephans G. Stephans-
sonar íslenzk eða amerísk? Ýmis önnur rök hníga í þá átt, að
sum kvæðanna að minnsta kosti séu íslenzk að uppruna, en
hér verður ekki um það fjallað.
Veigamesta gagnrýnin á þessa miklu bókmenntasögu Finns
Jónssonar er sú, sem hann getur um í hinum tilvitnuðu orð-
um úr sjálfsævisögunni, þ. e. að hann hafi sleppt öllu listrænu
mati á verkum þeim, er um er fjallað. Eins og áður er tekið
fram, leikur enginn efi á því, að verulegur hluti fombók-
menntanna er annað tveggja hrein listaverk eða að minnsta
kosti öðrum þræði listaverk. Og listaverk verður að dæma frá
fagurfræðilegu sjónarmiði, svo að orð Finns sjálfs séu viðhöfð,
en ekki einhverju öðm. En þessi galli bókmenntasögunnar á
sér djúpar rætur í eðli Finns sjálfs. Honum virðast ekki hafa
verið gefnir listrænir hæfileikar í vöggugjöf og borið mjög svo
takmarkaða virðingu fyrir listrænni starfsemi yfirleitt. Hæfi-
leikar hans vom allt annars eðlis.
Áður en ég skil við vísindastarfsemi Finns, þykir mér hlýða
að geta þess, að hann háði ýmsar harðvítugar deilur um fræði-
leg efni. Áður hefir verið drepið á sennu hans við Bjöm M.
Ólsen um heimkynni Eddukvæða. En aðra enn snarpari hildi
háði hann við hinn gáfaða og frjóa málfræðing, Sophus Bugge,
prófessor í Ósló. Prófessor Bugge hafði haldið því fram í riti
sínu, Studier over de nordiske Gude- og Heltesagns Oprindelse,
að allur obbinn af norrænni goðafræði ætti rætur að rekja til
kristinna helgisagna, sem norrænir víkingar hefðu komizt í
kynni við á Bretlandseyjum. Hefðu víkingarnir misskilið sumt
af þessum sögnum og afbakað á ýmsan hátt. Rit Sophus Bug-
ges var samið af miklum lærdómi og miklu hugarflugi. Finnur
brá við og ritaði greinir í Arkiv för nordisk Filologi um þetta
efni. Árið 1890 birtist greinin Om skjaldepoesien og de oeldste
skjaldekvad. Finnur sýndi fram á í þessum greinum sínum,
að í elztu dróttkvæðum kæmi í öllum aðalatriðum fram sama
goðafræði og sú, er síðar er kunn frá Norðurlöndum. Enn