Skírnir - 01.01.1958, Síða 30
28
Halldór Halldórsson
Skírnir
laust. Eðlisfar mitt er mjer óhætt að segja að sje skyn-
semi og fullkominn skortur á hugmyndaflugi, og jeg get
þess, að aðrir finni mjer það til foráttu . . .
Danskur prestur, sem nokkuð hefir fengizt við íslenzk fræði,
dr. phil. Ame Möller, ritaði um Finn látinn, að hann hefði
verið mikill maður innan takmarkana sinna, en takmarkanir
hans hefðu líka verið miklar. Ég hygg, að þetta sé réttur dóm-
ur, svo langt sem hann nær. Ég þykist líka hér að framan
hafa rakið nokkuð, hverjar takmarkanir Finns vom. En tak-
markanir hans voru honum að sumu leyti styrkur. Hann
hafði vald á sálu sinni og lét hana ekki flögra botnlaust og
staðlaust, af því að hann hafði enga tilhneigingu til þess. Hon-
um var ekki mennt sú léð. Og takmarkanir Finns gerðu hann
að skapfestumanni. Allir, sem þekktu hann, minnast hans
sem tryggs vinar og vammlauss manns. Hreinlyndur var
hann og ódulur. Og dugnaður hans og vinnusemi voru svo frá-
bær, að því er viðbrugðið.
Finnur Jónsson hlaut, sem vænta mátti, margs konar viður-
kenningu í lifanda lífi. Hann var sæmdur fjölda heiðurs-
merkja, var kjörinn heiðursfélagi í vísindafélögum, og honum
voru veittar heiðursnafnbætur, var t. d. á sjötugsafmælinu
kjörinn heiðursborgari Akureyrarbæjar. Og heiðursdoktor við
Háskóla Islands varð hann 1921. Og ýmis önnur sæmd var
honum sýnd. Hirði ég ekki að rekja þetta í einstökum atriðum,
enda var Finnur hégómalaus maður, sem ekki sóttist eftir
vegtyllum.
Finnur Jónsson andaðist á heimili sínu í Kaupmannahöfn
31.marz 1934. Lík hans var brennt, og fór bálförin fram
6. apríl. Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi forsætisráðherra Islands
og núverandi forseti, var þá staddur í Kaupmannahöfn og
flutti ræðu við útför hans. Háskóli íslands minntist Finns
sama kvöldið sem útförin fór fram með viðhafnarsamkomu,
og fluttu þar ræður þeir prófessorarnir Alexander Jóhannes-
son og Sigurður Nordal. Um Finn var margt skrifað við and-
lát hans, og ávallt mun hans verða minnzt, meðan menn hafa
áhuga á norrænum fræðum. Svo óafmáanlega er nafn hans
tengt sögu þeirra.