Skírnir - 01.01.1958, Page 90
86
Bjarni Guðnason
Skírnir
sagt léttvæg röksemdafærsla, eins og kemur berlega í ljós síð-
ar. Þrátt fyrir það hafa flestir fræðimenn talið kvæðið ort á
Þelamörk og borið Olrik fyrir skoðun sinni. 1 þessa grein hans
verður títt vitnað.
Nú skal víkja að því að nefna rannsóknir og niðurstöður
S. Bugges15. Hann tekur upp skoðanir Storms og Olriks að vísu
með töluverðum breytingum. S. Bugge reyndi að sýna fram á,
að kvæðið væri ort „ .. . paa Kong Harald Sigurdssons Flaade,
og snarest paa hans Skib, da Flaaden seilede langs Skotlands
Ostkyst, snarest i Tiden omkring den 6te til lOde September
1066“16.
Sem vænta mátti af Bugge, taldi hann írska fyrirmynd að
Brávallabardaga: Brjánsbardaga við Clontarf á Irlandi 1014.
Norrænt skáld í Vesturvegi hefði ort inn í sagnahópinn af
Haraldi hilditönn kvæði, sem endurspeglaði Brjánsbardaga;
siðar hefði þetta kvæði verið ort að nýju í leiðangri Haralds
harðráða til Englands af skáldi frá Þelamörk. Bugge vildi
þannig tala um eldra kvæði frá fyrri hluta 11. aldar og yngra
kvæði — það sem nú er varðveitt — frá seinni hluta aldar-
innar. Einnig ætlaði Bugge — andstætt Olrik — að íslenzkra
sagnaáhrifa gætti í kvæðinu. Loks taldi Bugge, að kvæðið hefði
þegar 1066 við tilurð þess hafizt í tveim gerðum, í norskri gerð
hjá Saxo og íslenzkri gerð í Broti. Kem ég að þessu síðar.
Það er ógerningur að elta ólar við allar röksemdir Bugges
fyrir niðurstöðum hans, en til skemmtunar og einkum þar sem
tímasetning hans er almennt viðurkennd, er rétt að leiða í ljós,
hvernig honum lánaðist að fá fram þá niðurstöðu. 1 þeim til-
gangi raðar Bugge upp fjölda sögulegra forsendna og tengir
þær saman af fádæma ímyndunarafli: Viss nöfn í kappatal-
inu sanna — segir Bugge —, að skáldið hafi Harald harðráða
í huga. Haraldur hilditönn er skáldleg fyrirmynd andstæðinga
Haralds harðráða, en Sigurður hringur tákn Haralds harðráða.
Upplendingar í Noregi gerðu uppreisn veturinn 1064—65
gegn Haraldi harðráða, en þeir eru taldir meðal fylgisveina
Haralds hilditannar í kappatalinu. Af þessu leiðir, að kvæðið
getur ekki verið eldra en frá 1065, þegar Upplendingar hófu
andstöðu við Harald harðráða. Á hinn bóginn er kvæðið ort