Skírnir - 01.01.1958, Síða 113
Skírnir
Um Brávallaþulu
109
má ráða m. a. af þeim ritum, er varðveitzt hafa frá 12. öld
bæði í Noregi og á Islandi. Ég fæ ekki komið auga á neitt það
atriði, er gæti styrkt skoðun Seips. Vísindamenn hafa líka
verið tregir að taka undir hana, t. d. H. Schneider, sem að
öðru leyti féllst á niðurstöður Seips um norskt heimkynni
kvæðisins og norsk máleinkenni91. Mér er aðeins kunnugt um
einn vísindamann, Marius Kristensen, sem hefur verið sama
sinnis og Seip. M. Kristensen fullyrðir, að Saxo hafi haft rit-
aða heimild að kappatalinu, en ekki nefnir hann nánar á
hvaða máli eða málstigi slík heimild hafi verið92.
Það þarf ekki að efast um, að Saxo hefur heyrt kvæðið mælt
af munni fram, ef til vill eitt sér, en þó að öllum líkindum
innlimað í sögu af Haraldi hilditönn, eins og H. Schneider
hugsar sér.
Ég hef nú reynt að færa nokkur rök fyrir því, að það er
engan veginn kleift að álykta af rithætti Saxos og Brots, að
kvæðið sé norskt, og í ritum þeirra, er ákafast telja kvæðið
norskt, gætir í rauninni mikils tvískinnungs, hvort kvæðið sé
norskt eða islenzkt. Storm, sem byggði upp þá skoðun, að
kvæðið væri norskt, vill ekki neita, að Island geti átt hlut að
máli; hann segir m. a.: „Med Sikkerhed at afgjore dette, gaar
neppe længer an“93. Bugge leysir þetta vandamál á sinn sér-
staka hátt og deilir bróðurlega. Hyggur hann afar líklegt, að
Brávallakvæðið hafi í upphafi verið ort við hirð Haralds kon-
ungs 1066 í tveim gerðum: íslenzkri og norskri. Islendingar
hafi síðan flutt sína gerð til íslands og birtist hún gegnum
marga milliliði í Broti, en Þilir fluttu sína gerð til Þelamerk-
ur og síðan hafi hún borizt til Saxos94.
Allir gætu vel unað við þessa lausn, en bókmenntasagan
leyfir varla slíkan úrskurð. A. Olrik neitar því hins vegar al-
gerlega, að fslendingar eigi nokkurn þátt í kvæðinu, með rök-
semdafærslu, sem ég kem síðar að. Og þegar Seip hefur lokið
sínum mállegu rannsóknum á kappatalinu segir hann: „Jeg
medgir at herved er ikke lost den vanskelighet som ligger i
det forhold at kvadet hos Saxo nevner en del islandske steds-
navn“93.