Skírnir - 01.01.1958, Blaðsíða 153
Skírnir Jón Thoroddsen og frásagnarlist Islendingasagna 149
æsku höfundarins má gera ráð fyrir, að allur þorri íslenzks
sveitafólks hafi lifað ekki mjög ósvipað og á söguöld.
MaSur og kona hefst á ættartölu: „Maður er nefndur Sig-
valdi, hann var Árnason, Sigurðarsonar, Hjaltasonar, Gunn-
arssonar glænefs úr Grafníngi. Móðir Gunnars glænefs var
Þorgerður í rauðum sokkum, Eyjólfsdóttir hins digra, Jóns-
sonar, Finnssonar, Bjarnasonar skyrbelgs; hann dó í svarta-
dauða, og andaðist eptir að hann hafði etið í einu átta merkur
af ólekju. Þessi ætt verður ekki lengra rakin, því að fáar ætta-
tölu-bækur ná fram yfir svartadauða.“ (3) Þetta er hin al-
kunna aðferð Islendingasagna að kynna meiri háttar persónur.
Hins vegar er augljóst, að fyrirmyndin er ekki tekin alltof
hátíðlega.
Og þó vitnar þessi skopstæling ekki síður en hinn alvarlegri
inngangur að Pilti og stúlku um það, hve höfundurinn er háð-
ur hinum sígildu fornbókmenntum Islendinga. Ekkert er í
raun og veru eðlilegra. Jón Thoroddsen hefur að vísu sótt
margt til skáldskapar erlendra manna, eins og Walters Scotts
og Charles Dickens.1 En vissulega hefði þótt furðu sæta, ef
„fyrsti íslenzki skáldsagnahöfundurinn“ hefði ekki framar öllu
verið arftaki hinnar fornu innlendu frásagnarlistar. I íslend-
ingasögum hefur íslenzku lífi í öllum blæbrigðum þess verið
lýst af slíkri list, að íslenzk skáldsagnagerð hefur fram að okk-
ar öld horfið í skugga þeirra. Mér þætti reyndar ekki ólíklegt,
að hið víðfræga afrek miðaldahöfundanna hafi að nokkru leyti
tafið fyrir upphafi nútíma-skáldsagnaritunar á Islandi. Sam-
keppnin við hina fomu snillinga gat virzt alltof vonlaus, sam-
anburðurinn við þá gat orðið alltof auðmýkjandi. Þegar húið
var fyrir löngu að lýsa á sígildu máli hetjum og glæsimenn-
um eins og Agli Skallagrímssyni, Njáli, Gunnari á Hlíðarenda,
Skarphéðni Njálssyni, Kjartani Ölafssyni, Guðrúnu Ösvífurs-
dóttur og mörgum öðrum, var þá til nokkurs að reyna að basla
við að semja sögur um rislítið fólk seinni tíma?
Seinast hefur Steingrimur J. Þorsteinsson fjallað ítarlega um það
efni í hinu mikla riti sínu: Jón Thoroddsen og skáldsögur hans. I—II.
Reykjavík 1943. En með þeirri bók er lagður traustur grundvöllur að öll-
um síðari rannsóknum á skáldskap Jóns.