Skírnir - 01.01.1958, Side 187
Skimir
Annarlega hæggengir smitsjúkdómar
183
ekki ótrúlegt, að líkaminn ráði ekki við, eða snúist e. t. v. alls
ekki til varnar gegn sýklum hinna annarlega hæggengu smit-
sjúkdóma, vegna þess að hann „líti á þá“ sem sín eiginleg
afkvæmi.
Frá sjónarmiði allra sýkla er auðvitað mjög æskilegt, að
sambúðin við fóstrann sé sem bezt — að sem minnstir árekstr-
ar verði. Sjúkdómur og átök við fóstrann eru enn óæskilegri
frá sjónarmiði sýkilsins en fóstrans. Sýklar hinna annarlega
hæggengu smitsjúkdóma fara skynsamlegar að ráði sínu, enda
eru e. t. v. miklu eldri fylgifiskar líkamans en hinir kapps-
fullu og óstýrilátu sýklar, sem valda bráðum sjiikdómi og
stefna þar með eigin framtíð i vísan voða.
Hvað sem tilgangsheimspekilegum vangaveltum líður, er
alveg augljóst, að sambúð sýkils og fóstra, þegar um annarlega
hæggenga smitsjúkdóma er að ræða, er í grundvallaratriðum
frábrugðin því, sem við eigum annars að venjast.
Enn er ókunnugt um orsök mannskæðra sjúkdóma, svo sem
krabbameins, blóðlýsu, Hodgkinssjúkdóms og heila- og mænu-
siggs. Þessir banvænu sjúkdómar eru í meginatriðum frá-
brugðnir þeim smitsjúkdómum, sem mönnum eru að jafnaði
efstir í huga. Ekkert þykir benda til, að þeir berist frá manni
til manns; þeir batna sjaldan eða aldrei sjálfkrafa; þeir byrja
venjulega á vissu aldursskeiði og leiða til dauða eftir nokk-
urn veginn fastri reglu.
Sýklar (veirur), sem valda þeim, hafa auðvitað ekki fund-
izt, enda erfitt um vik að gera sýkingartilraun með banvæna
mannasjúkdóma, sem ekki tekst að flytja í dýr.
Að því leyti, sem þekking vor nær til, er eðli og gangur
þessara sjúkdóma hins vegar ekki í mótsögn við ofangreinda
reynslu af hinni annarlega hæggengu sýkingu.
Frekari rannsóknir hinna annarlega hæggengu smitsjúk-
dóma og aukinn skilningur á þeim kann því að opna nýjar
leiðir til skilnings á sumum þeim meinum, sem verið hafa
hvað torveldust viðureignar.