Skírnir - 01.01.1958, Síða 194
190
Þóroddur Guðmundsson
Skírnir
deyja síðan. Þá rísa öndverð lilja dalsins, skýið á himninum,
ormurinn og moldin og sýna fram á, hvað allt sé öðru háð,
dautt og lifandi, samkvæmt lögmáli guðs, dauðinn sé engin
útslokknun, heldur staðfesting sjálfsfórnarinnar. En Thel, sem
túlkar hið breytta viðhorf skáldsins, er þessi huggun ekki nóg.
Blake hefur i bili glatað fyrri trú sinni á gildi hennar. Orsök
þess má rekja til grimmúðugs siðalögmáls, er „fjötrar líf og
sál“, eins og Blake segir í kvæðinu um Lundúnir. Björt sýn
skáldsins í upphafi bókar sortnar mjög, þegar á líður. Og að
því læðist sá dimmi geigur, sem hin dulbúnu sáryrði þess í
Ljóðum lífsreynslunnar eru þrungin.
Brúðkaup Himins og Heljar, sem ritað var í óbundnu máli
1790, er röð spakmæla og vitrana. Þar ræðst skáldið á rétt-
trúnað og viðteknar skoðanir: Hinn sýnilegi heimur, um-
hverfið, er sjónblekking og aðrar skynvillur. Skilningarvitin
geta ekki miðlað oss sannri vitneskju um tilveruna. Vér öðl-
umst einungis rétta þekkingu á hugsæilegan hátt. Innri skynj-
un og brjóstviti einu má treysta. Náttúrlegt eðli mannsins er
heilagt, því að það er komið frá guði. Krafan um taumhald á
eðlistilhneigingum er sprottin af yfirdrepskap og skammsýni.
„Þvi að maðurinn hefur lokað sig inni og sér allt gegnum
þrönga glufu hellis sins. Ef dyr skynjana hans væru hreins-
aðar, mundi veruleikinn, sem er andlegs eðlis, birtast honum
í réttu ljósi.“ Vitranir sínar fær Blake frá æðra tilverusviði.
Hann á ýmist orðastað við engla, spámenn Gamla testament-
isins eða Swedenborg hinn sænska, er Blake kynntist ungur
í föðurhúsum af lestri bóka hans.
Stjórnarbyltingin franska, I. bók, sem út kom 1791, er
órímað ljóð, ríkt af samúð með hinni kúguðu þriðju stétt.
Segja má, að í þeirri bók birtist meiri mælska og flug en
snilldarleg andagift. Þó að glóð kvæðisins sé heit, eggjunin
djörf, friðar- og frelsisþráin, sem ber það uppi, einlæg og
sönn, þá er það hvorki gætt þeirri hlutlægu innlifun né dul-
sæju dýpt og líkingaauðlegð, sem einkennir beztu verk Blakes.
Ef til vill er það um of bundið stund og stað, til þess að það
gæti þolað tímans tönn, nema það hafi goldið rímleysisins.
Svo mikið er víst, að formbundin ljóð Blakes hafa flest orðið