Skírnir - 01.01.1958, Page 201
Skírnir
William Blake tvö hundruð ára
197
sem neita vitrunum og geta ekki fyrirgefið, valda píslum fólks,
koma striði af stað. Dýrð kristindómsins er fólgin í því að
sigra með fyrirgefningu. Öll eyðilegging í hinni kristnu Ev-
rópu stafar af guðleysi, dýrkun hins sýnilega heims.“
Blake leit svo á, að þeir, sem tignuðu sýnilegan heim, væru
guðleysingjar. Hann kallaði Wordsworth skáldbróður sinn
heiðingja af þeim sökum. Þetta var í fullu samræmi við þá
skoðun Blakes, að raunveruleikinn og sannindin væru andlegs
eðlis, trú hans á vitranir, ímyndunarafl, innblástur, en fyrir
tilstuðlan þeirra öðluðust skáldin æðstu þekking. „Allir verða
að hafa einhverja trú,“ segir Blake. „Ef menn trúa ekki á
Krist, dýrka þeir Djöfulinn, reisa honum musteri og nefna
hann höfðingja þessa heims.“ „Ég þekki engan annan krist-
indóm og ekkert annað guðspjall en frelsið,“ segir Blake í öðr-
um kafla óbundins máls þessarar merkilegu bókar, „frelsi lík-
ama og sálar til að stunda guðdómleg vísindi ímyndunarafls-
ins i þeirri eilífu veröld, sem efnisheimurinn er aðeins daufur
skuggi af. Sú veröld mun verða bústaður sálarinnar, þegar
efnislíkaminn er allur. . .. Hvað er fögnuður himinsins annað
en eilíf þróun sálarinnar í andlegum heimi? Hvað eru kvalir
Helvítis nema munaðarfýsn, leti, eyðilegging andlegra verð-
mæta? . . . Þeir, sem ástunda þekkingu, listir, vísindi, reisa
Jerúsalem úr rústum. Þeir, sem fyrirlíta þekkingu, lítilsvirða
Jerúsalem og smiði hennar. Munið, að sá, sem fyrirlítur og
hæðir vizku annarra, nefnir hana dramb, eigingirni og synd,
hæðir Krist, gjafara allrar vizku, sem unnendur fáfræði og
yfirdrepskapar telja synd. En það, sem er synd í augum
grimmra manna, er það ekki í augúm vors miskunnsama Guðs.
Megi sérhver kristinn maður, að svo miklu leyti sem í valdi
hans stendur, ástunda frammi fyrir öllum heimi að reisa
Jerúsalem úr rústum.“
Spyrja má, hver hún sé, þessi Jerúsalem. Blake segir í vísu,
að synir Albions nefni hana Frelsið öðru nafni. Vér getum
kallað hana guðsneistann í sál mannsins, endurfæðingu henn-
ar. Sem andstæðu þessa tákns teflir Blake fram Babylon,
ímynd vonzku og spillingar. Þar á ófrelsi, eymd og örvænting
heima. Þar er andlegum auði spillt, spámenn krossfestir. Hún