Skírnir - 01.01.1958, Qupperneq 274
268
Ritfregnir
Skírnir
Jón Helgason: Handritaspjall. Mál og menning. Reykjavík 1958.
Bók þessi er 118 blaðsíður á stærð í allstóru broti, skreytt 25 myndum
af íslenzkum handritum. Hún greinist í 15 kafla eða öllu heldur þætti,
misjafna að efni að öðru leyti en því, að allir fjalla þeir um örlög ís-
lenzkra handrita og ýmiss konar vitneskju um þau.
Höfundur getur þess í lítilli athugasemd í bókarlok, að bók þessi hafi
aldrei verið hugsuð sem vísindarit. Hvað sem um það kann að vera, er
í henni saman kominn traustur fróðleikur, reistur á visindalegum athug-
unum höfundar á íslenzkum handritum, á mærðarlausum og hranalegum
stil, eins og því sorglega efni samir, sem bókin fjallar um. Jón Helgason
hefir varið manndómsárum sínum innan um íslenzk handrit og hefir
meira yfirlit um einkenni þeirra og sögu en nokkur annar. Engan undr-
ar þvi, þótt hann geti miðlað islenzkri alþýðu nokkrum vísdómi um þau,
enda er ekki ofsögum sagt, þótt svo sé að orði kveðið, að bókin sé hin
mesta fróðleiksnáma. En jafnframt skal tekið fram — höfundi til verð-
ugs hróss — að honum hættir ekki til að trana fram í lesandann fróð-
leik, sem ekki skiptir máli, enda er siður hætta á því, er menn hafa full
tök á því efni, sem þeir fjalla um.
Til þess að gefa dálitla hugmynd um efni bókar skulu nokkur atriði
talin, sem á er minnzt. Sagt er frá því litla, sem kunnugt er um elztu
bókagerð á fslandi, og lýst breytingum á gerð handrita, m. a. þvi, er
tekið var að nota pappir í stað skinns. Þá er lýst aðferðum, sem fræði-
menn nota við tímasetningu handrita, en þær eru m. a. fólgnar í því
að hafa hliðsjón af þróun tungunnar og breytingum á skriftartízku.
Sjaldnast kemur það fyrir, að beina vitneskju megi fá í handriti, hvenær
það sé ritað, en margs háttar krot á spássíum getur komið að nokkru
haldi, og stundum eru rithendur einstakra skrifara kunnar. Þessu næst er
nokkuð sagt frá ytri búningi handrita og efni, sem til þeirra þurfti
(skinni og bleki).
f 5. þætti bókar hefst hin mikla raunasaga íslenzkra handrita, þvi að
þar segir frá þvi, hverjar ástæður hafa valdið, að þau hafa svo illa varð-
veitzt. Um þetta efni farast höfundi m. a. svo orð:
Vond hús, reykur, leki, slit, lán, allt hefur lagzt á eitt að spilla bók-
um, auk þess einatt hirðuleysi og vangeymsla. (Bls. 31).
Okkur má þó vera til nokkurrar huggunar, að „slit“ og „lán“ hafa átt
rætur að rekja til áhuga á efni handritanna. f því sambandi er vert að
minnast þess, sem höfundur segir á hls. 27:
íslenzkur maður sem reikar til að mynda um sýningarsalina í Brit-
ish Museum og sér þar skrúðbækur viðsvegar að úr löndum, bókfellið
mjallahvítt og óvelkt og prýtt hinum fegurstu myndum, lætur sér þá
ef til vill koma til hugar bækur sinnar þjóðar, fáskrúðugar, dökkar,
og einatt skemmdar. Hann má þá minnast þess að vel getur verið að
hinar íslenzku skræður geymi efni sem ekki er víst að þurfi að minnk-
ast sín hjá efni hinna, og jafnvel skemmdimar sýna að þær hafa ekki