Bændablaðið - 19.06.2014, Page 29

Bændablaðið - 19.06.2014, Page 29
29Bændablaðið | Fimmtudagur 19. júní 2014 Upptaktur fyrir Landsmót hestamanna: Sýning til heiðurs íslenska hestinum í Norræna húsinu Nokkrir listamenn og hönnuðir leggja saman krafta sína á samsýningu í Norræna húsinu þessa dagana og hylla íslenska hestinn. Þeim var gefinn laus taumurinn til að skapa og sýna listaverk sem innblásin eru af íslenska hestinum, fegurð hans og þokka, litum og örlögum. Listamennirnir koma skynjun sinni og sýn, innblásinni af íslenska hestinum, til skila með margvíslegu móti í mismunandi efnivið. Sýningin var fyrst sett upp í sýningarrými Norrænu sendiráðanna í Berlín, Fælleshus, sumarið 2013 á ári hestsins og í tilefni þess að heimsmeistarmót íslenska hestsins fór fram í Berlín á sama tíma. Sýningin sló í gegn og varð sú aðsóknarmesta í sögu Fælleshus. Uppsetning á sýningunni í Norræna húsinu er eins konar upptaktur fyrir Landsmót hestamanna sem haldið verður á Hellu dagana 30. júní–6. júlí næstkomandi. Á sýningunni eru verk eftir íslenska listamenn, ljósmyndara og fatahönnuði. Sýningarstjóri sýningarinnar er Ragna Fróðadóttir en sýningarumsjón er í höndum Birtu Fróðadóttir, sem nýverið flutti til Íslands frá Berlín. Tekið verður ofan fyrir hinum þekkta listamanni Birgi Andréssyni (1955-2007), fulltrúa Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1995. Á sýningunni verða verk þar sem Birgir kannar tengsl sjónrænnar skynjunar og tungumálsins með munnlegum hestalýsingum. Þátttakendur í sýningunni: Hrafnkell Birgisson, Gígja Einarsdóttir, Gréta Vilborg Guðmundsdóttir, Kristín Garðars- dóttir, Ásta Guðmundsdóttir, Dögg Guðmundsdóttir, Una Lorenzen, Rut Sigurðardóttir, Spessi, Benni Valsson, Andersen & Lauth, Erna Einarsdóttir, Jör by Guðmundur Jörundsson, Mundi og Þorkell Sigurður Harðarson. Mynd / Una Lorenzen Mynd / Benni Valsson Mynd / Spessi Sandlegubásar í fjósum Víða erlendis eru legubásar mjólkurkúa einungis með sandi í og hefur það reynst betur en margur kann að halda. Reynslan bæði frá Bandaríkjunum og Damörku sýnir að kýrnar haldast hreinni í fjósum með sandlegubásum en nokkurri annari gerð af undirburði. Líklega er algengast að finna fjós með sandi í legusvæði nautgripa í Bandaríkjunum og Kanada og svo í löndum þar sem sandur er víða nærtækur, eins og Mið- Austurlöndum. Í Evrópu er sandurinn einnig farinn að sjást í fleiri og fleiri fjósum en útbreiðsla þessarar gerðar undirlags er þó minni en ætla mætti, en líkleg skýring á því eru áhyggjur bænda af því hvað gerist þegar sandurinn blandast við mykjuna og af áhrifum sands á endingu tækni- búnaðar. Það eru þó all nokkur ár síðan öll helstu vandamál með samspil sands og mykju voru leyst og á hverju ári bætist við ný tækni sem gerir notkun á sandi sem legusvæði fyrir nautgripi enn áhugaverðari en áður. Dýnur hafa takmarkaða endingu Margir bændur hér á landi þekkja af eigin raun að legubásadýnur, eða öllu heldur dúkurinn sem strekktur er yfir pulsudýnurnar hefur takmarkaða endingu. Það er með öllu eðlilegt að dúkurinn slitni og er oftast miðað við að endingartíminn sé um 10 ár. Þá er næsta víst að gúmmíkurlfylltu pulsurnar, sem eru undir dúknum, hafi einnig misst fjöðrun sína og því komið að endurnýjun á þeim einnig. Reyndar má lengja líftímann aðeins með því að velta þeim við, þ.e. snúa þeim um 180 gráður svo sá endi sem áður var undir afturfótum verði eftir breytinguna undir framfótum. Önnur leið er vissulega að kaupa nýtt sett, þ.e. nýjar pulsur og yfirdýnu, en þriðji valkosturinn er einnig til staðar, þ.e. að skipta algerlega um undirlag fyrir kýrnar. Þá koma til greina nokkrir valkostir og vera má að sandur sé einn þeirra, það þarf þó að vega vandlega og meta. Sandur hefur yfirburði Margar athuganir á breyttum fjósum í Bandaríkjunum, þar sem skipt hefur verið úr legubásadýnum yfir í sand í legubásum, hafa sýnt fram á ótvíræða kosti sandsins. Nuddsár á fótum nánast hurfu við skiptin, fóru úr 29% í 4%, 40% færri heltutilvik voru skráð, 27% færri meðhöndlanir við júgurbólgu, 14% meiri ending kúa, 20% lægri frumutala og 7,7% hærri meðanyt. Skýringin á þessum mikla mun, við það eitt að skipta um undirlag kúnna, felst í mörgum samspilsþáttum, s.s. að kýrnar liggja lengur í sandinum, hann þurrkar betur upp og því koma síður nuddsár, kýrnar renna ekki þegar þær standa upp eða leggjast sem hefur þá jákvæð áhrif á tíðni helti auk þess sem bakteríur eiga erfitt með að fjölga sér í sandi sem hefur þá góð áhrif á t.d. á tíðni júgurbólgu. Auk þessa hefur sandurinn þau áhrif að gangsvæði kúnna verða miklu stamari og betri fyrir kýrnar að ganga á þar sem fínn sandurinn berst með klaufum kúnna úr legubásunum og út á gangsvæðin. Kýrnar velja sjálfar hálmlegubása Þó svo að sandurinn henti einkar vel fyrir kýrnar hafa rannsóknir sýnt að fái þær að velja velja þær fyrst hálmlegubása, þ.e. legubása sem eru með 15-20 cm þykkt lag af hálmi. Þar sem slíkt undirlag er er legutími kúnna mestur. Hins vegar er sandurinn í öðru sæti hjá kúnum en í fyrsta sæti hjá bóndanum svo að valið er allauðvelt í raun, séu réttar forsendur til staðar. Kýrnar liggja lengur Þegar leguatferli kúa er skoðað í fjósum með sandi í legubásunum hefur komið í ljós að þær eru afar öruggar í þessum fjósum og t.d. leggjast þær mun fyrr niður en þegar annað undirlag er í básunum. Þannig sýnir t.d. dönsk rannsókn að tvöfalt fleiri kýr leggjast niður innan 30 sekúndna frá því að þær eru komnar upp í legubásinn en þegar dýna er í básnum. Sérstök hönnun Þegar sandlegubásar eru hannaðir þarf að horfa sérstaklega til þykktar sandlagsins, en það þarf að vera að lágmarki 15 sentímetra þykkt. Sé básinn steyptur er í dag hægt að fá sérstaka vinkla aftan á básana til þess að breyta þeim í sandlegubása en svo að unnt sé að gera það má steypti botn bássins ekki vera of hár miðað við gangsvæði kúnna. Þá þarf að passa afar vel upp á viðhald og endurnýjun sandsins í legubásunum og miða margir kúabændur við að fylla á legubásana á eins til tveggja vikna fresti. Geldneytin einnig á sandi Vestur í Bandaríkjum eru fleiri og fleiri farnir að hafa sand í legusvæði kvígnanna einnig og er það þá gert til þess að venja þær strax við þetta undirlag, sem þær svo fá í fjósinu þegar þær eru bornar. Oft er þá miðað við að hafa kvígurnar fyrst saman í hálmstíu fyrsta mánuðinn eða svo eftir að mjólkurfóðrun líkur en svo fara þær yfir í fjós með legubásum með sandi í. Endurnýta sandinn Legubásasandur er tiltölulega dýr, þurfi bóndinn að kaupa hann að, og því hafa margir skoðað mögulega kosti þess að endurnýta sandinn. Í dag eru til nokkuð margar ólíkar lausnir í því sambandi. Þannig er t.d. til sk. sandþvottavél frá fyrirtækinu Opicon en tækið tekur sandblandaða mykjuna, skolar burtu sandinum og dælir í haug. Með þessu undratæki endurnýtast um 90% af sandinum. Í Bandaríkjunum, þar sem kúabændurnir hafa orðið lengri reynslu en t.d. kollegar þeirra í Danmörku, má sjá margar ólíkar lausnir í þeim tilgangi að endurnýta sandinn. Sumir bændur búa til eins konar risatjarnir þar sem sandurinn getur botnfallið á meðan aðrir hafa búið til ólíkar gerðir af skolbúnaði sem hreinlega skolar burt lífrænu efnunum úr sandinum. Þá eru einnig til hálfgerð lagersvæði, þar sem sandurinn er keyrður út á stór steypt plön og svo er regnvatn látið sjá um að hreinsa sandinn á þeim tíma sem það nú tekur! Þetta kerfi endurnýtir um 98% sandsins en tekur alllangan tíma. Sérstakur sandur Að lokum er rétt að fjalla um sandinn sjálfan og gæðakröfurnar sem gera þarf til hans, því eigi vel að takast til þarf sandurinn að vera af miklum gæðum. Þannig mega sandkornin ekki vera hvöss en þess í stað ávöl, því annars geta þau valdið skaða á húð kúnna og/eða spenum og spenaendum. Þá mega stærstu kornin í sandinum helst ekki vera stærri en 0,25 mm, þar sem reynslan sýnir að sé sandurinn grófari en það er erfiðara t.d. að dæla mykjunni og raunar almennt að meðhöndla mykjuna. Reyndar nota kúabændur í Danmörku oft svokallaðan fyllisand, en hann hefur kornastærð frá 0,06 mm til 2 mm, þ.e. með stærri korn en almennt er mælt með að nota. Þá má sandurinn ekki innihalda leir, þar sem leirinn gerir það að verkum að sandlagið þjappast of mikið saman. Þegar sandur er keyptur er alltaf hægt að biðja um tækniblað yfir sandinn, einnig hér á landi, þar sem fram kemur kornastærð hans og dreifing kornanna eftir möskvastærð sigtanna sem notuð eru til þess að flokka sandinn með. Snorri Sigurðsson sns@vfl.dk Nautgriparæktarsviði Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku hentar í fjós. Lokað frá og með 21. júlí til og með 8. ágúst Vegna sumarlokunar eru bændur minntir á að panta nautgripamerkin tímanlega. Starfsþjálfunar – og enduhæfingar vinnustaður Plastiðjan Bjarg - Iðjulundur Furuvöllum 1, 600 Akureyri. Opnunartími: Mánudaga – föstudaga, kl. 08.00-16.00 Sími 461-4606, Fax 461 2995 Netfang pbi@akureyri.is

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.