Skírnir - 01.04.1998, Page 38
32
ÁRNI BERGMANN
SKÍRNIR
in, þessar öflugu hefðir, gætu orðið nútímamönnum til nokkurs
trafala. Islandi lýsir hann alls ekki sem lifandi þjóðminjasafni.
Hann leggur þunga áherslu á að þar sé allt með sönnu nútíma-
sniði. Honum finnst meira að segja að húsagerð og húsbúnaður
sé „miklu síður gamaldags og úrelt en í auðugri löndum eins og
Englandi og Danmörku“.17 Hann hrífst ekki síst af því hvernig
hið frumstæða og forneskjulega blandast saman við nútímann,
hvort sem er á götum Reykjavíkur, í umgengni Islendinga hvers
við annan eða í verkum og hugsunarhætti eftirlætishöfundar síns í
íslenskum samtíma, Þórbergs Þórðarsonar. I grein um Þórberg
segir að hann sé sérstæðastur allra nútímahöfunda, standi utan
við alla bókmenntaskóla og stefnur og spanni tíma tvenna:
Annarsvegar er afstaða hans til bókmennta jafn einföld og hispurslaus og
hjá höfundum fornbókmennta. Hinsvegar er afstaða hans til sjálfs síns
sem höfuðviðfangsefnis í bókmenntum, hæðni hans, fullkomlega nú-
tímaleg.18
Steblin-Kamenskij er vissulega ekki einn á ferð. Fjölmargir
aðrir erlendir menn hafa á okkar öld sem hinni nítjándu látið í
skrifum um Island uppi velviljaðan áhuga og hrifningu af sömu
fyrirbærum og hann fjallar um í Kúltúra Islandii. En lýsing hans
verður sérstæð vegna þess að hún sprettur úr sovésku umhverfi,
kallast á við útbreidd sovésk viðhorf og andæfir þeim á sinn hátt.
Nefnum myndlist til dæmis. Meðan afstraktlist var fordæmd í
Sovétríkjunum sem borgaraleg úrkynjun finnst honum ekki nema
sjálfsagt að íslenskir listamenn máli afstraktmyndir, þær eru rakt-
ar beint til áhrifa frá íslenskri náttúru, töfrasamspili hrauns og
kletta (bls. 158). Og fleiri dæmi fróðleg má finna um það hve
ákveðinn Steblin-Kamenskij var í því að halda til streitu þeirri
mynd sem hann hafði gert sér af íslenskri sögu og menningu fyrr
og nú. Hann skrifaði formála að rússneskri þýðingu á bók Einars
Olgeirssonar, Ættarsamfélag og ríkisvald í þjóðveldi Islendinga.
Honum þykir fengur að ritinu, ekki síst vegna þess að það kynnir
17 M. I. Steblin-Kamenskij: „Na konje...“, bls. 213.
18 M. I. Steblin-Kamenskij: „Torbergur Tordarson“. Zvezda 4, 1960, bls. 203-
204.
J